Blogg: Jöklar Himalaya og álitshnekkir IPCC

Álitshnekkir IPCC

Trúverðugleiki loftslagsvísindanna og þá sérstaklega IPCC varð fyrir álitshnekki þegar fram kom villa í 4. matsskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Villan er tiltölulega mikilvæg og er sú að í skýrslunni er sagt að það sé líklegt (sem merkir 66-90% líkur) að jöklar Himalaya muni minnka úr 500.000 í 100.000 ferkílómetra fyrir árið 2035. Einnig er nefndur möguleikinn á því að þeir verði horfnir fyrir 2035. (IPCC, vinnuhópur II, 2007).

Samkvæmt fréttum, þá er villan upphaflega komin úr grein New Scientist frá 1999, sem byggð var á stuttu tölvupóstsviðtali við þekktan Indverskan jöklafræðing (Syed Hasnian) sem sagði að miðað við þáverandi bráðnun þá myndu jöklar í Mið- og Austur Himalaya hverfa fyrir árið 2035. Svo virðist sem WWF (World Wide Fund for Nature) hafi síðar skrifað skýrslu – þar sem þessum ummælum var haldið á lofti, en þar segir:

The prediction that “glaciers in the region will vanish within 40 years as a result of global warming” and that the flow of Himalayan rivers will “eventually diminish, resulting in widespread water shortages” (New Scientist 1999; 1999, 2003) is equally disturbing

Sem lauslega þýðist: Sú spá að “jöklar á svæðinu muni hverfa innan 40 ára vegna hlýnunar jarðar” og að fljót sem renna frá Himalaya muni “að lokum verða hverfandi, svo það verður viðamikill vatnsskortur” (New Scientist 1999; 1999, 2003) er truflandi.

IPCC vísaði í þessa skýrslu WWF (sem ekki var ritrýnd), en í IPCC segir meðal annars:

Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world (see Table 10.9) and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate. Its total area will likely shrink from the present 500,000 to 100,000 km2 by the year 2035 (WWF, 2005).

Sem lauslega þýðist: Jöklar Himalaya eru að hopa hraðar en jöklar annarsstaðar í heiminum og ef núverandi hraði bráðnunar helst þá eru miklar líkur á að þeir verði horfnir fyrir 2035 eða jafnvel fyrr ef jörðin heldur áfram að hlýna á núverandi hraða. Heildar flatarmál þeirra mun líklega minnka frá núverandi 500.000 km2 og að 100.000 km2 árið 2035 (WWF, 2005).

En staðreyndin er sú að engar rannsóknir birtar í ritrýndum greinum staðfesta þessa setningu. Því miður þá hefur verið vitnað í þessa skýrslu í öðrum vísindagögnum og því hefur villan dreifst víðar.

Röð mistaka

En hvað sýnir þetta atvik okkur?

Hér hafa greinilega orðið röð mistaka:

Fyrstu mistökin hljóta að liggja hjá Indverska vísindamanninum – en þau eru ekki alvarleg, hverjum sem er hlýtur að vera leyfilegt að koma með svona fullyrðingar í viðtali við New Scientist (sem er vísindarit fyrir almenning) og það er þeirra að meta hvort það sé birtingarhæft. Nema vísindamaðurinn hafi síðan fylgst með þróun mála og séð hvernig orð hans hafa hlotið meira og meira vægi – og ekki gert neitt í málinu.

Næstu mistökin eru stærri, en það að WWF notaði orð í tímaritsgrein New Scientist í skýrslu sinni. WWF skýrslan er þó augljóslega ekki ritrýnd, auk þess sem það virðist vera sem að þar sé meira verið að velta vöngum yfir þessum orðum frekar en að taka þau sem vísindalegar staðreyndir. Það er þó greinilegt að WWF gerði mistök, sem hefðu átt að koma fram í ferlinu þegar skýrslan var undirbúin til birtingar. Höfundar sem fóru yfir skýrsluna eftir á hefðu átt að skoða frumgögnin og hefðu átt að sjá villuna – en skýrslan er ekki ritrýnd, þannig að þar liggja ekki stærstu mistökin.

Stærstu misstökin hljóta að liggja hjá IPCC. Setningin sem skýrsla IPCC notaði er augljóslega ekki byggð á neinum ábyggilegum gögnum og það hefði ritrýningakerfi IPCC átt að sjá. Þar sem skýrsla WWF er ekki ritrýnd, þá hefðu þeir átt að skoða heimildir WWF en ekki taka það hrátt upp sem að stóð í þeirri skýrslu – þótt mögulega hafi menn það á tilfinningunni að mögulegt sé að stór hluti jökla Himalaya sem þekja um 30.000 ferkílómetra geti horfið fyrir árið 2035, þá er það engin afsökun á meðan gögn liggja ekki á baki þeirri fullyrðingu. Ábyrgð IPCC er mikil.

Í fyrstu drögum af 4. matsskýrslu IPCC var notað mun varfærnara orðalag um bráðnun þessara jökla, þar kom t.d. fram “jöklar í háum fjöllum Asíu hafa almennt hopað á breytilegum hraða” og því óljóst hvernig þetta kom allt í einu inn í skýrsluna.

Umbætur og eftirköst

Þetta eru eftirsjáarverð mistök, sem sýna það helst að það er pláss fyrir umbætur á ferli og rýni á skýrslum IPCC. Samkvæmt fréttum fer væntanlega fram einhvers konar rannsókn og endurmat á þessum hluta skýrslunnar – en ekki hefur verið sýnt fram á sambærileg mistök í öðrum hlutum IPCC skýrslanna. Það er reyndar kominn tími á endurmat á öllu sem viðkemur bráðnun jökla – en frá því skýrslurnar komu út hafa hlaðist upp vísbendingar um að bráðnun jökla sé mun hraðari en kemur fram í IPCC skýrslunum, enda hefur það sýnt sig ef skoðuð eru gögn um sjávarstöðubreytingar – að IPCC hefur vanmetið þátt bráðnunar jökla.

Það má samt segja að það sé nokkuð góður árangur fyrir jafn viðamiklar skýrslur og 4. matskýrsla IPCC er,  að fyrst núna, næstum þremur árum eftir birtingu hennar hafi fundist áberandi galli í henni þar sem ofmat á afleiðingum hlýnunar jarðar kemur fram. Sérstaklega þar sem vísindamenn hafa aðallega séð galla í henni hvað varðar vanmat á t.d. bráðnun jökla og hafíss.

Það verður þó að rekja það hvernig mistökin urðu og læra af þeim, enda er það ein sterkasta hlið vísindanna að þau leiðrétta sig á einhvern hátt þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það hlýtur t.d. að teljast alvarlegt mál að jörðin sé að hitna með þeim afleiðingum að jöklar í Himalaya séu að bráðna hratt, jafnvel þó sú bráðnun taki kannski yfir 100 ár (í stað þessara 30 sem talað er um í skýrslu IPCC).

Þetta mál á væntanlega eftir að gefa efasemdarmönnum byr í seglin, þar sem þeir munu væntanlega taka djúpt í árina og oftúlka merkingu þessa atviks. Jafnvel mun verða reynt að tengja þetta Climategate málinu svokallaða, þar sem ummæli vísindamanna í tölvupóstum voru oftúlkuð og rangtúlkuð í mörgum tilfellum og af ýmsum talin grafa undan sjálfum vísindunum, sem þó er fjarri lagi.

Frétt á visir.is í gær ber merki um það að höfundur hafi sterkar skoðanir á málinu og þar af leiðandi virðist sem hinn málefnalegi grundvöllur fari forgörðum þegar sú frétt er lesin. Þetta virðist stundum vera sá farvegur sem fréttir um loftslagsmál lenda í, jafnvel hjá reyndum fréttamönnum. Það væri virðingarvert ef hægt hefði verið að segja frá villunni og reyna að brjóta upp hvað þetta þýðir, hvaða orsakir upplýsingarnar hafa og hvernig sviðsmyndin breyttist við þessar breyttu upplýsingar.

Jöklar Himalaya

bhutanHver örlög jöklanna í Himalaya verða er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem búa á vatnasvæði Himalaya. Þrátt fyrir mikilvægi jöklanna hefur alþjóðleg stofnun um vöktun jökla, World Glacier Monitoring Service, bent á að of lítið sé gert af mælingum og rannsóknum á jöklum Himalaya, með það fyrir augum að fylgjast með þróun þeirra.

Ljóst er að bráðnun jöklanna í Himalaya er hröð ef marka má þær rannsóknir og mælingar sem gerðar hafa verið. Þó er hluti af umfangi þessara breytinga og hraða þeirra enn sem komið er á huldu, vegna of lítilla mælinga og rannsókna.

Tafla um ástand jökla úr skýrslu vísindanefndar IPCC, vinnuhóps 2.

Jökull Tímabil Hop á Meðaltal hops
jaðrinum
(metrar)
jökulsins
(m/ári)
Triloknath Glacier (Himachal Pradesh) 1969 to 1995 400 15.4
Pindari Glacier (Uttaranchal) 1845 to 1966 2,840 135.2
Milam Glacier (Uttaranchal) 1909 to 1984 990 13.2
Ponting Glacier (Uttaranchal) 1906 to 1957 262 5.1
Chota Shigri Glacier (Himachal Pradesh) 1986 to 1995 60 6.7
Bara Shigri Glacier (Himachal Pradesh) 1977 to 1995 650 36.1
Gangotri Glacier (Uttaranchal) 1977 to 1990 364 28.0
Gangotri Glacier (Uttaranchal) 1985 to 2001 368 23.0
Zemu Glacier (Sikkim) 1977 to 1984 194 27.7

Heimildir:

Grein af vef Guardian: A mistake over Himalayan glaciers should not melt our priorities

Grein af vef NZHerald: Himalayan global warming claim ‘based on dated, obscure source’

Skýrsla vinnuhóps II hjá IPCC: Kafli 10.6.2 The Himalayan glaciers

Grein af vef Guardian: UN climate scientists review Himalayan glaciers claim

Grein af vef New Scientist: Debate heats up over IPCC melting glaciers claim

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.