Viðburðir tengdir loftslagsmálum

halldor

Halldór Björnsson, deildarstjóri rannsókna og þróunar á veðursviði Veðurstofu Íslands

Á Loftslag.is, er viðburðadagatal sem ekki hefur fengið mikla athygli hjá okkur hingað til. En ef vel er athugað má sjá viðburðina neðst í hliðarstikunni til hægri. Okkur langar að vekja sérstaka athygli á ákveðnum fyrirlestri, sem við höfum báðir hug á að sækja nú á laugardag. Þetta er erindi Halldórs Björnssonar í fyrirlestraröðinni Vísindaeyjan: Landnám, loftslag og haf.

———
Í tilefni af tíu ára afmæli Vísindavefsins verður almenningi boðið á fjóra fyrirlestra um vísindi, fjóra laugardaga í röð.

Annar fyrirlesturinn verður haldinn laugardaginn 6. febrúar. Þá mun Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, flyta erindið Hitnar í kolunum.

Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Vísindaeyjan: Landnám, loftslag og haf og verða í sal 132 í Öskju, klukkan 13:00-14:30.

Á 19. öld varð vísindamönnum ljóst að geislunaráhrif sumra lofttegunda í lofthjúpi jarðar valda verulegri hlýnun við yfirborð jarðar. Rökrétt afleiðing þess var að losun koldíoxíðs vegna bruna jarðefnaeldsneytis myndi valda hnattrænni hlýnun.

Á síðustu öld varð veruleg hlýnun og athuganir benda til þess að hún sé mikil og skörp í samanburði við loftslagsbreytingar fyrr á öldum. Skýrsla Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar árið 2007 olli nokkrum straumhvörfum í umræðunni, en þar voru dregnar saman mjög afgerandi upplýsingar um loftslagsbreytingar, ástæður þeirra og líklegar afleiðingar ef ekki yrði dregið úr losun.

Síðan skýrslan kom út hafa ítarleg gögn sýnt framhald loftslagsbreytinga og samningaviðræður hafa haldið áfram um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þær viðræður leiddu þó ekki til afdráttarlausrar niðurstöðu í Kaupmannahöfn í desember, en þeim verður haldið áfram á þessu ári. Þetta gerist í moldviðri brigslyrða um svik og pretti og háværri gagnrýni á vísindin. Í fyrirlestrinum verður rætt um stöðuna í loftslagsmálum á nýju ári.

Hér er krækja á Fasbókarsíðu viðburðarins.

askja_HI

Fyrirlesturinn verður í Öskju, sal 132

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.