Það er ekki ofsögum sagt að margt sé í gangi núna í loftslagsumræðunni og reyndar ómögulegt að fylgjast nógu vel með, til að halda því öllu til haga. Hér er minnst á nokkur atriði.
IPCC og Pachauri
Það sem fer hæst í fjölmiðlum er sjálfsagt nýuppgötvaður áhugi efasemdamanna á ritrýningaferlinu og gloppum sem hafa fundist í skýrslu IPCC frá 2007 (vinnuhóps 2*). Þar fór hæst umfjöllun um jökla Himalaya (efasemdarmenn kalla það Glaciergate) og hvernig í ósköpunum óritrýnt efni gat endað í skýrslu IPCC (sjá: Jöklar Himalaya og álitshnekkir IPCC og Vangaveltur varðandi mistök IPCC). Efasemdarmenn hafa verið duglegir við að skoða heimildir IPCC undanfarið og t.d. reynt að búa til Amazoniangate (sjá Skeptical science: What the IPCC and peer-reviewed science say about Amazonian forests) og mögulega Coralgate (sjá Climate Shifts: Much ado about nothing. Líklega verður maður loks að hrósa efasemdamönnum fyrir að vera loks búnir að uppgötva mikilvægi ritrýndra greina, en það hlýtur að teljast undarlagt hvað þeir vilja skeita orðinu gate (ísl. hlið) aftan við hvert mál sem þeir telja að sé hneyksli.
* Það helsta sem verið er að gagnrýna IPCC fyrir, er í kafla um afleiðingar og áhrif á samfélög. Þar er þekkingin götótt og svo virðist vera sem að inn í skýrslu vinnuhóps 2 (wg2) hafi ratað heimildir sem ekki eru ritrýndar – oft skýrslur sem unnar eru upp úr ritrýndum greinum, en þar hefur greinilega slæðst inn villa varðandi jökla Himalaya. Skýrsla vinnuhóps 1 (wg1) sem fór í gegnum ástand jarðarinnar, vísindalega og ritrýnt, hefur sýnt sig að er byggð á ansi góðum grunni – þótt eflaust megi gagnrýna mat þeirra á sumu – t.d. má benda á að jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru að bráðna hraðar en búist var við í skýrslunni (og samfara var vanmat á hækkun sjávarstöðu) – einnig hefur bráðnun hafíss verið hraðari en búist var við af IPCC og fleira má nefna.
Forsvarsmenn IPCC hafa viðurkennt mistökin varðandi jökla Himalaya og á bak við tjöldin er verið að vinna að því að breyta verklagi til að þetta endurtaki sig ekki.
Á bak við önnur tjöld er mikil maskína að reyna að koma Pachauri frá sem framkvæmdastjóri IPPC fyrir þessi mistök, sem hann segir að séu ekki sín. Efasemdarmenn halda jafnframt því fram að Pachauri hafi grætt á þessum mistökum (Sjá Guardian: No apology from IPCC chief Rajendra Pachauri for glacier fallacy). Það er ekki nóg með það, heldur eru efasemdarmenn einnig komnir í hlutverk bókmenntagagnrýnenda – en fyrir stuttu kom út rómantísk skáldsaga eftir Pachauri (Return to Almora). Auðvitað er það næstum frámunalega furðulegt að Pachauri skuli skrifa rómantíska skáldsögu – en það sem er enn furðulegra er að efasemdarmenn skuli nota skáldsöguna til að kasta rýrð á Pachauri.
Hvernig sagan um Pachauri endar á eftir að koma í ljós – en hvernig sem hún endar, þá mun næsta skýrsla IPCC verða betur skrifuð og laus við þessar meinlegu villur sem að komið hafa fram.
CRU og Climategate
Annars er það helst í fréttum núna að blaðamaður Guardian, Fred Pearce, er þessa dagana að skrifa margar og ítarlegar fréttaskýringar um tölvupósta CRU og Climategate. Í skýringum hans kemur fram villa sumra vísindamanna og bæði hvernig þeir hafa reynt að koma í veg fyrir birtingu greina um loftslagsmál, meintar falsanir þeirra – en um leið upplýsist hvernig efasemdamenn hafa unnið skipulega að því að kasta rýrð á vísindamennina. Þar upplýsist einnig hvernig vísindamennirnir öfundast út í hvern annan, eru keppinautar og skipta sér í marga hópa (tribalism) – sem fær mann til að íhuga hvernig efasemdarmenn geta haft hugarflug í að búa til einhvers konar samsæri þeirra á milli – eins og oft er gefið í skyn.
En allavega virðast fréttaskýringar Fred Pearce ansi góðar og keppast bæði efasemdamenn og þeir sem halda á lofti hlýnun jarðar af mannavöldum um að vitna í brot úr hans skrifum (báðir aðilar eru þó sekir af því að velja það sem hentar þeirra málstað betur að því er virðist vera).
Yfirlit yfir fréttaskýringar hans má sjá hér: Fred Pearce – en við mælum með að fyrsta skýringin í þessari seríu sé lesin fyrst en hún er frá 1. febrúar og heitir How the ‘climategate’ scandal is bogus and based on climate sceptics’ lies. Þrátt fyrir nafnið á þessari fréttaskýringu, þá koma nokkrar sem eru ansi gagnrýnar á CRU og Phil Jones og fleiri nöfn eru nefnd til sögunar í síðari fréttaskýringum (t.d. Briffa og Mann).
Það er áhugavert viðtal við Pachauri í The Economist