Í umræðunni um hlýnun jarðar er stundum minnst á að ekkert hafi hlýnað á jörðinni undanfarin ár. Gjarnan er þá sagt að ekkert hafi hlýnað frá árinu 1998 enda er það samkvæmt ýmsum gögnum talið vera hlýjasta árið sem komið hefur á jörðinni frá því mælingar hófust. Samkvæmt þessari skilgreiningu á hlýnun, þá tölum við ekki um að það sé að hlýna á einhverju tímabili ef hlýrra ár er að finna á undan. Allt gott um það að segja enda ekki hægt að toppa eitthvað fyrr en það hefur verið toppað. Alvöru hlýnunartímabil eru því skilgreind hér í þessum pistli, sem tíminn frá því að fyrra hitamet hefur verið jafnað og þangað til kólna fer á ný.
Nú er það svo, að það eru nokkrir aðilar sem taka saman gögn um hitafar jarðar. Þar af eru tveir aðilar (UAH og RSS) sem byggja á gervihnattamælingum á lofthjúpnum frá árinu 1979 og svo eru aðrir rannsóknaraðilar sem byggja á hefðbundnum athugnum á jörðu niðri (t.d. GISS og HadCRUD) en þær gagnaraðir ná vitanlega mun lengra aftur í tímann. Öllum þessum athugunum ber saman um helstu aðalatriði, en vegna óvissu sem alltaf er og breytilegra aðferða er röðin á heitustu árunum ekki alltaf sú sama. GISS gagnaröðin hefur þá sérstöðu að vera ósammála öðrum um að árið 1998 hafi verið heitasta árið á jörðinni og setur 2005 í fyrsta sætið. GISS tekur meira tillit til pólasvæðanna en aðrir og vegna minnkandi ísþekju á Norður-Íshafinu hin síðustu ár þarf þessi munur ekki að vera óeðlilegur.
En burt séð frá því hvort gögn frá GISS gefa raunhæfari mynd af hitaþróun jarðar eða ekki, þá nota ég GISS tölur í línuritinu hér að neðan en því er ætlað að varpa ljósi á það sem ég var að reyna að segja í innganginum. Tímabilin sem merkt eru rauð eiga það sameiginlegt að akkúrat þá hafði ekki verið hlýrra á jörðinni áður (a.m.k. frá aldamótunum 1900) og skilgreinast því sem hlýnunartímabil. Bláu tímabilin eiga það hinsvegar sameiginlegt að hlýrra hefur verið áður og skilgreinast því sem tímabil þar sem hlýnun er ekki í gangi.
Ef línuritið er skoðað með tilliti til þessara tímabila sést að þrátt fyrir alla þá hlýnun sem á að hafa verið á jörðinni, þá eru rauðu tímabilin í rauninni undantekning frekar en regla, sem þýðir, svo undarlegt sem það má vera, að það er mjög sjaldan að hlýna. GISS-gögnin sýna fram á að það hafi kólnað frá árinu 2005 og jafnvel hefur kólnað frá árinu 1998 samkvæmt öðrum gögnum. Það sem greinilega einkennir hitaþróunina allt frá aldamótunum 1900, eru kólnunartímabil eða tímabil stöðnunar í hitafari jarðar og því kannski ekki furða að kólnunarumræðan sé eins hávær og raunin er.
En svo má í ljósi nýjust upplýsinga velta fyrir sér hvar við erum stödd nákvæmlega í dag. Árið 2010 er efnilegt hlýnunarár og svo gæti jafnvel farið að við þurfum ekki lengur að velta fyrir okkur hvort kólnað hafi frá árinu 1998 eða 2005. Kannski mun nefnilega nýtt óumdeilanlegt kólnunartímabil hefjast strax á næsta ári en ómögulegt er að spá í hversu lengi það mun vara.
Mér finnst þetta skemmtilegar pælingar. Áhugaverðara væri þó að sjá líka þau tímabil kólnunar sem eru á þessu tímabili samkvæmt þinni skilgreiningu.
Er það ekki rétt hjá mér að samkvæmt þeirri skilgreiningu þá hefur ekki kólnað frá árinu 1918 um það bil?
Það var kaldast á 20. öld árið 1917 og því má líta svo á að ekki hafi kólnað síðan þá en einnig að það hafi oft kólnað eftir það. Það er margt í mörgu og línurit geta sýnt fram á ýmislegt.
Pælingin hjá mér var miðuð út frá skilgreiningu þinni: Alvöru hlýnunartímabil eru því skilgreind hér í þessum pistli, sem tíminn frá því að fyrra hitamet hefur verið jafnað og þangað til kólna fer á ný.
Ef við setjum það eins upp fyrir kulda, þá hefur ekki orðið alvöru kólnunartímabil frá árinu 1917.
Það má því eiginlega segja að það hafi ekki kólnað í næstum heila öld og að það þurfi að kólna ansi mikið áður en hægt sé að tala um að nýtt kólnunartímabil sé byrjað 🙂
Ég átti reyndar ekki von á að þið gleyptuð við þessari vafasömu speki möglunarlaust.
Þegar talað er um hlýnun eða kólnun þarf auðvitað alltaf að miða við einhvern upphafspunkt. Hitasveiflur eiga sér stað þó að það sé að hlýna á löngum tíma og ef miðað er við síðasta hitamet þá er niðurstaðan alltaf kólnun nema akkúrat á þeim árum sem hitamet eru bætt.
Vegna breytileika í hita erum yfirleitt stödd í tíma þar sem hlýrra hefur verið áður og því getum við ekki verið viss um að langtímahlýnun sé ennþá í gangi. Ef síðan mörg ár er liðin frá síðasta meti er auðvelt að ímynda sér að hlýnunin hafi stöðvast. Þetta væri öðruvísi ef hlýnunin ætti sér stað jafnt og þétt og í smáum skrefum í einu.
Það er því ekki að ástæðulausu að notast er við „trend lines“ eða leitnilínur í svona línuritum, sem augljóslega vantar í myndina hér. Svoleiðis línur útiloka þó ekki þá tilfinningu að leiðin geti legi niðurávið á ný ef síðustu punktarnir eru áberandi undir leitnilínunni.
Þetta eru að mínu mati fróðlegar vangaveltur, á báða vegu. Það segir okkur líka eitthvað að þessi endurteknu hlýnunartímabil eigi sér stað og að á sama tíma sé næstum öld síðan kaldast hefur verið.
Ég skil þetta þannig hjá þér Emil að þú sért að velta upp, hversu auðvelt er að sjá þessi kólnunartímabil, þar sem hækkunin standi yfir í stuttan tíma samkvæmt þessum vangaveltum. Þar af leiðandi muni einhverjir sjálfsagt horfa á toppinn og færa fyrir því rök að þegar toppinum sé náð í hvert og eitt skipti, sé “kólnun í gangi”. Það er í raun það sem við höfum upplifað að einhverju leiti í sambandi við þennan 1998 topp sem sumir hafa verið duglegir að benda á (þó svo GISS tölur hafi topp árið 2005).
En ég tek undir með þér, að það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig hitastig mun þróast á þessu efnilega hlýnunarári.