Árstíðarsveiflur í náttúrunni að breytast

Thumb_blackbirdVor og sumar á Bretlandseyjum byrja fyrr en áður, samkvæmt nýrri rannsókn. Ef miðað er við miðjan áttunda áratuginn, þá endar vetur að meðaltali 11 dögum fyrr nú en þá.

Rannsóknin er fyrsta kerfisbundna tilraunin til vöktunar langtímabreytinga í náttúrufarsfræði (e. phenology – þ.e. fræði árstíðabundna tímasetninga) í vistkerfum sem ná yfir ferskvatn , sjó og land. Grein um rannsóknina birtist í tímaritinu Global Change Biology, en kannaðar voru 25 þúsund leitnilínur breytinga frá 1976-2005, sem samanstóð af 726 tegundum plantna og dýra – allt frá þörungum og yfir í skordýr og spendýr.

Meira en 80% þessara leitnilína sýndu að árstíðabundnar breytingar gerast fyrr. Að meðaltali, þá eru atburðir í lífsferli dýra, t.d.  mökunartímabil, um 11 dögum fyrr en árið 1976 og þessi breyting virðist vera að aukast. Þetta er í fyrsta sinn sem að gögn eru greind sem sýna jafn mikla samkvæmni í  munstri breytinga, í árstíðabundnum tímasetningum milli plantna og dýra. Höfundar telja mikilvægt að fylgjast með þessum breytingum, sérstaklega hjá tegundum sem hafa há efnahagsleg gildi eða verndargildi.

Þessi breyting er rakin fyrst og fremst til breytinga í loftslagi. Þessar breytingar virðast vera hraðastar hjá tegundum sem eru neðarlega í fæðukeðjunni – þ.e. plöntum og grasætum, en plöntur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir breytingum í hitastigi. Breytingar hjá rándýrum eru hægari.

Æxlun eru oft tímasett þannig að fyrstu vikur í ævi afkvæmanna falli sem best að sem mestu fæðuframboði. Sem stendur er ekki vitað hvort dýr sem eru hærra í fæðukeðjunni muni ná að aðlagast þessum breytingum í tímaplani dýra og plantna sem eru neðar í keðjunni. Ef þeim tekst ekki að aðlagast nógu fljótt, þá verður erfiðara fyrir þau að ala upp afkvæmi sín, við skert fæðuframboð.

Heimildir og ítarefni

Fréttin er skrifuð upp úr grein á Planet Earth Online: Springing forward – seasonal change could threaten wildlife

Greinin sjálf er í tímaritinu Global Change Biology: Trophic level asynchrony in rates of phenological change for marine, freshwater and terrestrial environments

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál