Gestapistill – Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands
Inngangur
Ártalið 2035 hefur verið mjög til umræðu í dagblöðum og vefmiðlum um víða veröld frá því í nóvember sl. Skyndilega komst í hámæli að margumrædd loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hefði spáð því í viðamikilli skýrslu sinni að jöklar Himalayafjalla bráðnuðu svo ört í hlýnandi loftslagi að þeir yrðu líklegast með öllu horfnir árið 2035. Það mundi þýða að um 4.000 rúmkílómetrar jökulíss, sem er ámóta og samanlagt rúmmál allra jökla á Íslandi, bráðnuðu úr fjöllunum á komandi aldarfjórðungi og rynnu til sjávar um stórfljót á borð við Ganges, Indus og Brahmaputra. Þessi frægu fljót má kalla lífæðar hundraða milljóna manna í Asíulöndum og hafa menn haft að því nokkrar áhyggjur að bráðnun jöklanna gæti breytt rennslisháttum þeirra verulega og þarmeð lífsskilyrðum á Indlandi og víðar.
Varla er ofmælt að gagnrýni á umrædda spá og fleira í starfi nefndarinnar hafi gengið Himalayafjöllunum hærra í heimspressunni að undanförnu og verður nánar að því máli vikið síðar í þessum pistli. En hugum fyrst að stuttu yfirliti um snjó- og ísþekju í þessum mesta fjallgarði Jarðar, sem stundum hefur verið nefndur Himinfjöll á íslensku.
Staða þekkingar á Himalayajöklum
Jöklar í Himalayafjöllum (1. mynd) skipta þúsundum og er samanlagt flatarmál þeirra yfir 30.000 ferkílómetrar [1]. Flestir eru smáir dal- eða hvilftarjöklar sem svipar til jöklanna á Tröllaskaga. Stærstur er Siachen-jökullinn (700 km2), um 70 km langur daljökull sem á upptök sín í nær 6000 m hæð. Liggur hann í þeim hluta Kashmírhéraðs sem Indverjar og Pakistanar hafa deilt um og í mörg ár hafa hermenn þessara þjóða staðið þar andspænis hverjir öðrum, gráir fyrir járnum. Alloft hafa orðið þar skærur og mun með réttu mega kalla jökulinn hæsta vígvöll Jarðar.
Af Himinfjallajöklum sem teljast til Indlands mun Gangotri-jökullinn vera þekktastur meðal almennings á þeim slóðum, enda á meginkvísl hins heilaga Gangesfljóts þar upptök sín. Hopaði Gangotri mjög á 20. öld líkt og fjallajöklar mjög víða um Jörð (2. mynd) en heimildir eru um að hægt hafi á hopinu frá árinu 2007 og það jafnvel stöðvast alveg [2]. Reglulegar mælingar á legu jökulsporða gagnast vel ásamt loftmyndatöku og könnun gervitunglamynda til að fylgjast með breytingum á flatarmáli jöklanna, þótt sums staðar sé reyndar erfitt að greina útlínur þeirra nákvæmlega vegna þykkrar aurkápu. Til mats á rúmmálsbreytingum og árlegu afrennsli leysingarvatns þarf viðameiri mælingar á jökulafkomu; er þá vetrarákoman mæld með snjóborunum og gryfjugreftri að vori og mælistikum eða vírum komið fyrir í borholunum. Af þeim er svo sumarleysingin lesin að hausti og má að því loknu gera upp heildardæmið með því að leggja saman ákomu og leysingu jökulársins, sem venjulega er reiknað frá hausti til næsta hausts.
1. mynd – Indlandsskagi og Himalayafjöll. Fjöllin eru sem kunnugt er mynduð við flekahreyfingar, þ.e. við árekstur Indlandsflekans og Evrasíuflekans. Á hverju ári færist Indlandsflekinn 7 cm norður á bóginn og fjöllin hækka um 5 mm. Rauðu punktarnir marka legu þeirra jökla, sem nefndir eru í texta greinarinnar. Erfitt er að koma nákvæmri heildartölu á jökla í fjöllunum, en þeir munu vera um 15.000 talsins. Fjöllin og þar með jöklarnir skiptast niður á landsvæði Indlands, Pakistans, Kína, Tíbets, Nepals, Bútans og Sikkims (sem nú telst hérað í Indlandi).
2. mynd – ASTER gervihnattarmynd af Gangotri skriðjöklinum (NASA). Á myndina eru dregnar útlínur jökultungunnar árin 1780, 1935, 1956, 1964, 1971 og 2001. Nýjustu gögn benda til að hægt hafi á hopi jökulsins eftir árið 2001 og hopaði hann nánast ekkert milli áranna 2007 og 2009 [2].
Sé litið til mældra jöklabreytinga um alla jörð þá má sjá af 3. mynd að þróunin er mjög á einn veg skv. gögnum sem margumrædd milliríkjanefnd SÞ leggur til grundvallar; þ.e. eindregið hop jökulsporða í fjalllendi um víða veröld sl. 100-150 ár. Mælingar á afkomu jökla eru strjálli og eiga sér skemmri sögu en þó hefur rúmmál jökla farið minnkandi á flestum eða öllum helstu fjallasvæðum á liðnum áratugum. Rýrnunin er mjög eindregin eftir 1995 og á það ekki síst við hér á landi, því afkoma allra meginjökla miðhálendisins hefur verið neikvæð frá því ári. Til dæmis má nefna að rúmmál Hofsjökuls hefur rýrnað um nálægt 5% á árabilinu 1995-2009.
3. mynd – Jöklabreytingar um alla jörð skv. sporðamælingum á 169 jöklum. Dregin eru meðaltöl fyrir mismunandi heimshluta og sýnir lóðrétti ásinn legu jökulsporða miðað við stöðuna árið 1950 (= 0). Allir fara ferlarnir lækkandi frá 1830 og hörfun jökla er ör á 20. öld. Rauði ferillinn sýnir meðaltalsferil fyrir svæðin sem liggja að N-Atlantshafi (jöklar á Íslandi, S-Grænlandi, Svalbarða, Jan Mayen og Skandinavíu). Vegna aukinnar snjókomu í Vestur-Noregi eftir 1990 rís sá ferill lítillega við lok 20. aldar en hefur fallið á ný eftir 2000. Asíuferillinn byggist á mælingum í Kákasus og Mið-Asíu, þ.á.m. fáeinum Himalayajöklum. Heimild: Oerlemans (2005) [3] – sjá einnig Fig. 4.13 bls. 357 í 1. hefti IPCC skýrslunnar [4].
Hvernig skyldi nú vera ástatt um jöklana í Himalayafjöllum í þessu samhengi? Því er til að svara að þekking manna á þeim er enn takmörkuð því jöklarnir liggja hátt yfir sjávarmáli í torfarnasta fjallgarði Jarðar og eru flestir mjög óaðgengilegir. Örfáir jöklar í fjöllunum hafa verið afkomumældir og mæliraðir eru slitróttar. Í tveimur nýlegum skýrslum, sem sennilega veita nýjasta og ítarlegasta yfirlit, sem unnið hefur verið um jöklabreytingar á Jörðinni á 20. öld [5,6], er t.d. fjallað um mæligögn frá 287 jöklum í öllum heimsálfum; þar af eru aðeins 8 í Indlandshluta Himalayafjalla og 3 í Nepal. Mælingar á afkomu þessara 11 jökla eru flestar frá því fyrir 1990, engin mæliröð nær áratug að lengd og eftir árið 2000 er í ritheimildum aðeins getið um mælingar á einum þessara 11 jökla, Chhota Sigri jöklinum í Himachal Pradesh fylki Indlands (sjá 1. mynd). Lítum nú aðeins á niðurstöður þessara nýjustu mælinga, sem franskir jöklafræðingar og indverskir samstarfsmenn þeirra birtu í tímaritinu Journal of Glaciology árið 2007 [7].
Dæmi um nýlegar afkomumælingar á Himalayajökli
Chhota Sigri jökullinn er 9 km langur daljökull í Himachal Pradesh. Hann nær upp í tæplega 6300 m hæð yfir sjávarmáli og skríður til norðurs eftir rúmlega kílómetrabreiðum dal. Sporðurinn nær niður í 4050 m hæð og var afkoma jökulsins mæld árlega í 20-30 punktum á árunum 2002-2006.
4. mynd – Reiknuð úrkoma og lofthiti í Himachal Pradesh (skv. NCEP/NCAR veðurlíkani). Sýnd eru meðaltöl fyrir árabilið 1980-2006. Gráu súlurnar sýna mánaðarúrkomu í reiknipunkti 105 km frá Chhota Sigri jöklinum, svörtu súlurnar í punkti 173 km frá jöklinum. Línuritið sýnir reiknaða árssveiflu lofthita í svipaðri hæð og jökullinn (loftþrýstingur 600 hPa). Gögn skv. Wagnon o.fl. (2007) [7].
Veðurmælingar eru fáar og strjálar í þessum hluta fjallanna og til að glöggva sig á loftslagi svæðisins nýttu vísindamennirnar gögn úr NCEP/NCAR veðurlíkaninu, reiknuð fyrir árabilið 1980-2006.
4. mynd sýnir reiknaða árstíðasveiflu úrkomu í tveimur reiknipunktum líkansins ekki allfjarri jöklinum. Í ljós kemur að árstíðaskipting úrkomu er þarna með nokkuð öðrum hætti en við eigum að venjast hér á norðurslóðum. Hér á landi þekst hálendið og jöklarnir snjólagi á veturna, sem svo leysir (a.m.k. að hluta) að sumri og svona er þetta einnig í vestasta hluta Himalayafjalla, þótt veturinn sé þar styttri en hér. Í austurhluta fjallanna og inn á það svæði, sem hér ræðir um, gætir hins vegar mjög áhrifa monsúnvindanna, sem blása úr suðvestri seinni hluta sumars. Snjóar þá á jöklana á frá júlí fram í september (sjá einkum gráu súlurnar á 4. mynd) en mun þurrara er síðan til ársloka. Síðan kemur annað ákomutímabil á stuttum vetri frá janúar fram í apríl.
Hitaferillinn á 4. mynd er reiknaður fyrir svipaða hæð yfir sjávarmáli og jökullinn liggur í og sýnir hann að leysingartímabilið, þegar lofthiti er að meðaltali yfir frostmarki, nær þarna frá maí fram í september líkt og algengast er hérlendis.
Lítum næst á niðurstöður Wagnon og félaga úr mælingum á afkomu jökulsins á árabilinu 2002-2006. Í 5500 m hæð ofarlega á jöklinum mældist vatnsgildi árlegrar afkomu minnst 600 mm en mest 1900 mm; samsvarar seinna gildið um 4 m þykku snjólagi sem einnig er nokkuð dæmigert gildi vetrarákomu á allstórum svæðum á meginjöklum Íslands. Til samanburðar við niðurstöðurnar frá Chhota Sigri jöklinum setjum við hér niðurstöður afkomumælinga á Þjórsárjökli jökulárið 2007-2008 (sjá 5. og 6. mynd).
5. mynd – Niðurstöður afkomumælinga á Þjórsárjökli, þ.e. suðausturhluta Hofsjökuls, jökulárið 2007-2008. Hæð jafnvægislínu er þar sem svarti ferillinn sker lóðlínu frá núllpunkti lárétta ássins, þ.e. 1200 m þetta árið. Í þeirri hæð bráðnar að sumri nákvæmlega allur sá snjór, sem á jökulinn féll um veturinn, en ekkert meira. Punktar sýna mæligildi á stikum, ferningar meðalgildi fyrir hvert 100 m hæðarbil. Heimild: [8].
6. mynd – Ársafkoma Chhota Sigri jökulsins í Himalayafjöllum. Ferlarnir sýna tvær meðaltalslínur, sem dregnar eru gegnum niðurstöður mælinga jökulárin 2003-2004 (ferill t.h.) og 2004-2005 (ferill t.v.). Hæð jafnvægislínu er nálægt 5000 m. Heimild: Wagnon o.fl. (2007) [7].
5. mynd sýnir að snjókoma (blái ferillinn) fer jafnt og línulega vaxandi með hæð á Hofsjökli úr um 1000 mm neðst upp í rúmlega 3000 mm efst. Leysing (rauði ferillinn) hegðar sér með öðrum hætti því brot kemur á ferilinn rétt ofan við 1200 m hæð. Stafar þetta af því að neðan jafnvægislínu leysir smám saman allan vetrarsnjó yfir sumarið og kemur þá bert yfirborð jökulíssins undan snjónum. Jökulísinn endurkastar mun síður sólarljósi en hvítur snjórinn og skýrir það breytinguna á halla línunnar; leysingin eykst hraðar með minnkandi hæð neðan jafnvægislínunnar. Marga metra af ís og snjó leysir neðst á Hofsjökli á sumri hverju. Svarti ferillinn sýnir svo ársafkomuna, sem fengin er með því að leggja saman vetrar- og sumarafkomu og gætir nokkuð á henni áhrifa brotsins á rauðu línunni. Þennan svarta feril skulum við nú bera saman við ferlana tvo á 6. mynd, en þeir sýna einmitt ársafkomu Chhota Sigri jökulsins, reiknaða út frá mælingum 2003-2005. Tölur um árlega ákomu og leysingu eru nokkuð svipaðar og á Hofsjökli, ársafkoman er jákvæð efst (breytileg eftir árum) og líkt og á Þjórsárjökli kemur brot (eða beygja) á ferilinn nálægt jafnvægislínunni. Við 4700 m hæð sveigja ferlarnir báðir hins vegar niðurávið og þar fyrir neðan eykst leysing ekki jafn ört er neðar dregur. Stafar þetta af aurkápu á Chhota Sigri jöklinum, sem sumsstaðar er svo þykk að hún hindrar að geislar sólar nái að skína á sjálfan jökulísinn og bræða hann. Slíkar aurkápur eru mjög algengar neðan til á Himinfjallajöklum, enda eru fjöllin að verulegu leyti byggð upp af setlögum og molna ört undan veðrun. Þær veita jöklunum því nokkra vernd gagnvart hlýnandi loftslagi.
Ársafkoma Chhota Sigri jökulsins í heild mældist að meðaltali um –1.0 m (vatnsgildi) á árabilinu 2002-2006, þ.e. verulega neikvæð (sjá töflu 2 í [7]). Mörg fleiri dæmi má nefna um hörfandi jökla í fjöllunum og sýnir 7. mynd eitt þeirra. Lónið á þeirri mynd sýnir einnig ljóslega þá hættu, sem íbúum fjalldala neðan jöklanna getur verið búin vegna flóða úr lónum við jökulsporða.
7. mynd – Lónið á myndinni er framan við Tsho Rolpa jökulinn í Nepal og hefur farið stækkandi vegna hörfunar jökulsins sl. hálfa öld. Lónið liggur innan jökulgarðs sem myndaðist við fyrri framrás jökulsins en ekki virðist þessi náttúrulegi stíflugarður mjög traustlegur. Manntjón hefur orðið í Himalayafjöllum við hlaup úr lónum af þessu tagi. Ljósmynd: P.K. Mool (2000), fengin úr [9].
Himalayajöklar og loftslagsskýrsla IPCC
Gagnasöfn um afkomu jökla og legu jökulsporða í Himalayafjöllum eru fátækleg í samanburði við gögn um jökla í Alpafjöllum, í Skandinavíu og hérlendis. Ennfremur er vöntun á vandlega reiknuðum spám um framtíðarþróun Himinfjallajökla í loftslagi, sem flestir vísindamenn telja að fara muni hlýnandi þegar á öldina líður. Á árinu 2007 kynnti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, íslenskum jöklafræðingum hugmyndir sínar að samvinnuverkefni íslenskra, indverskra og bandarískra fræðimanna um auknar rannsóknir á Himalayajöklum. Bandaríski Carnegie sjóðurinn tilkynnti haustið 2008 myndarlega styrkveitingu til þessa verkefnis en jafnframt var ákveðið að styrkurinn yrði í vörslu Carnegie þar til áætlanir um verkefnið væru fullmótaðar. Þreifingar hófust um samstarf við TERI stofnunina í Delhi (The Energy and Resources Institute), sem stýrt er af formanni IPCC, Rajendra Pachauri. Svo sem alþjóð heims er nú kunnugt, hefur sú stofnun og yfirmaður hennar mátt þola nokkurt stormviðri að undanförnu vegna ásakana, sem fram hafa komið um ónákvæmni í skýrslunni. Ennfremur hafa sumir höfundar hennar sætt óvæginni gagnrýni vegna framsetningar tiltekinna gagna. Margt virðist óréttmætt í þeirri gagnrýni, svo sem rakið er í pistli þeirra Tómasar Jóhannessonar og Halldórs Björnssonar á vef Veðurstofu Íslands [10], sjá:
http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1805
Ónákvæm umfjöllun um Himalayajökla hefur hins vegar orðið IPCC nokkur álitshnekkir. Á bls. 493 í 2. hefti IPCC skýrslunnar [11] standa þessi orð, sem hér eru birt óþýdd:
“Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world (see Table 10.9) and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate. Its total area will likely shrink from the present 500,000 to 100,000 km2 by the year 2035 (WWF, 2005).”
Þessi setning olli miklum umræðum á alþjóðlegum tölvupóstlista jöklafræðinga (og mun víðar!) fyrir jól. Bent var á að ekki væri vísað í neina frumheimild varðandi ártalið 2035 en sumir röktu það til skýrslu alþjóðlegrar vinnunefndar um Himalayajökla á vegum ICSI-samstarfsins (International Commission of Snow and Ice). Sú skýrsla fannst hins vegar ekki þótt leitað væri í hverjum krók og kima. Í ofangreindri setningu er líka rangt farið með tölur og einkennilega; ekki er ljóst til hvers orðið “its” vísar og auk þess fer því fjarri að samanlagt flatarmál Himalayajökla sé 500,000 km2. Og reyndar segir í sömu IPCC skýrslu (bls. 481) að þessi tala eigi við flatarmál jökla á Tíbethásléttunni.
Nú upphófst mikil leit og fannst þá skýrsla útgefin 1996, rituð af rússneska jöklafræðingnum V.M, Kotlyakov á vegum UNESCO [12].
Þar segir á bls. 66:
“The extrapolar glaciation of the Earth will be decaying at rapid, catastrophic rates – its total area will shrink from 500,000 to 100,000 km² by the year 2350.”
Þessi tala var byggð á einföldum reikningum og sýnist ekki ýkja óraunhæf, þótt vandi sé að spá svo langt fram í tímann. En þarna er orðið “its” í réttu samhengi og varðar réttilega samanlagt flatarmál jökla á jörðinni utan heimskautasvæðanna. Einnig er þarna ártal sem líkist ártalinu fræga 2035; ályktuðu því sumir að ártalið hefði verið mislesið og þannig ratað inn í IPCC skýrsluna.
Síðar hefur hins vegar komið í ljós að ártalið 2035 birtist árið 1999 í viðtali sem blaðamaður vísindafréttaritsins New Scientist átti við indverskan fræðimann, Syed Hasnain [13]. Ekki er að sjá að spáin hafi byggst á ítarlegum rannsóknum, frekar mun hann hafa nefnt ártalið í viðtalinu án verulegs rökstuðnings. Hasnain, sem undanfarin ár hefur starfað við TERI stofnunina, hefur staðhæft að undanförnu að sér þyki of langt seilst að gera sig ábyrgan fyrir því að ártalið birtist í IPCC skýrslunni.
Loftslagsnefndin hefur nú viðurkennt með nýlegri yfirlýsingu [14] að ekki hafi verið nógu vel vandað til umfjöllunar um Himalayajöklana. Þessi mistök mega teljast bagaleg, því almennt treysta vísindamenn því að skýrslurnar séu svo vandlega unnar að vitna megi beint í texta þeirra án þess að rýna í sjálfar frumheimildir skýrslunnar; þ.e. ritrýndar vísindagreinar sem vonandi eru í langflestum tilfellum byggðar á vönduðum rannsóknum. En þarna var semsagt ekki um neina raunverulega frumheimild að ræða.
Stormviðrið sem geisað hefur um milliríkjanefndina og TERI stofnun Rajendra Pachauri hefur enn tafið áætlanir um að hleypa af stokkunum áðurnefndu samvinnuverkefni íslenskra, indverskra og bandarískra jöklafræðinga. Nokkrar ferðir hafa verið farnar til Indlands til könnunar á samstarfsgrundvelli og verður hér í lokin sagt stuttlega frá leiðangri að Himinfjallajökli einum í Kashmirhéraði, sem greinarhöfundur tók þátt í ásamt nokkrum indverskum vísindamönnum í nóvember 2008.
Leiðangur að Kolahoi-jöklinum í Kashmir
Í Kashmir ríkir ótryggt ástand og eru Vesturlandabúar um þessar mundir varaðir við ferðalögum á þær slóðir. Sá er þetta ritar komst þó klakklaust með flugi til borgarinnar Srinagar í Kashmirdalnum og þaðan með bifreið ásamt félögum sínum til fjallabæjarins Pahalgam í 2000 m hæð. Frá smábænum Aru þar í nánd gengu leiðangursmenn síðan á tveim dögum inn Liddardalinn og að Kolahoi jöklinum, sem valinn hafði verið til forkönnunar (8. mynd). Neðsta tunga jökulsins er sýnd á 9. mynd og fer ekki á milli mála að hann hefur látið verulega á sjá á undanförnum áratugum, því greinileg ummerki þykkari jökultungu sjást í hlíðum dalsins. Ljósmyndir af jöklinum teknar um 1940 sýna líka að hann lá þá talsvert lengra fram í dalinn.
Kolahoi-jökullinn er um 12 km2 að flatarmáli og skiptist í tvær álmur, fellur sú hin austari niður af ákomusvæðinu í myndarlegum jökulfossi. Ákomusvæði jökulsins nær upp undir 5000 m hæð en ekki varð þangað komist í þessari atrennu vegna sprungna. Þess í stað voru boraðar niður nokkrar leysingarstikur neðarlega á jöklinum og mæld þversnið yfir jökulinn með GPS tæki, auk þess sem sett var upp veðurstöð. Einnig var hugað að staðsetningu rennslismælis í Liddar ánni, sem frá jöklinum rennur. Hefur verið stefnt að því að mæla afkomu jökulsins árlega, nýta veðurgögn til líkanreikninga á ákomu og leysingarþáttum, auk þess sem framlög jökulvatns, snjóbráðar, rigningar og grunnvatns til vatnsrennslis í Liddar ánni yrðu mæld og reiknuð. Rennsli hennar skilar sér reyndar til sjávar í Pakistan, um stórfljótið Indus, en það skiptir raunar ekki höfuðmáli því niðurstöður frá einu jökulsvæði Himalaya nýtast reikningum sem varða önnur svæði fjallanna.
Forkönnun aðstæðna, borunum og mælingum var lokið á þrem dögum og sneru leiðangursmenn þá aftur til byggða. Indverjarnir hafa vitjað jökulsins aftur á árinu 2009 en fyrstu mæliniðurstöður eru enn óbirtar og þegar þetta er ritað er enn ekki ljóst hvort samstarf verður tekið upp við TERI stofnunina. Samvinnuverkefninu hefur frá upphafi verið ætlað að stuðla að þjálfun indverskra jöklafræðinema, m.a. með náms- og kynnisferðum til Íslands, auk þess sem Himalayajöklar væru kjörinn vettvangur til að nýta reynslu íslenskra jöklafræðinga af afkomumælingum, íssjármælingum og þróun ýmiss konar reiknilíkana. Það yrði því allra hagur að verkefnið kæmist á góðan rekspöl hið fyrsta.
8. mynd – Kolahoi-jökull séður með augum Google Earth í októberlok 2006. Blái punkturinn sýnir legu búða leiðangursins í nóvemberbyrjun 2008.
9. mynd – Neðsta tunga Kolahoi jökulsins. Svörtu örvarnar benda á greinileg ummerki stærri jökultungu (sennilega frá 20. öld), hinar bláu á eldri ummerki mun þykkari jökuls.
Lokaorð
Eitt innlegg í áðurnefnda umræðu um Himalayajökla var skýrsla, sem út kom á vegum indverska umhverfisráðuneytisins á liðnu hausti [2], sjá einnig fréttagrein í Science [15]. Er þar veitt greinagott yfirlit um sögu mælinga og rannsókna á jöklunum og birtar helstu niðurstöður þeirra. Höfundurinn er V.K. Raina, fyrrum varaforstjóri Jarðfræðirannsóknar Indlands (Geological Survey of India). Fengur er að skýrslunni, því hún tekur saman niðurstöður gagna frá indverskum stofnunum, sem ekki hafa verið aðgengilegar vísindamönnum á Vesturlöndum fram til þessa og raunar ekki heldur mörgum indverskum fræðimönnum, því upplýsingar berast oft seinlega milli stofnana í stjórnkerfi hins geysifjölmenna ríkis.
Skýrslan staðfestir að tugir jökulsporða hörfuðu jafnt og þétt á 20. öld og afkomumælingar á síðustu þrem áratugum 20. aldar sýndu rýrnun allra hinna mældu jökla. Höfundurinn er þó ekki þeirrar skoðunar að um mjög óvenjulega hörfun („abnormal retreat“) af völdum hnatthlýnunar sé að ræða og rekur einnig nýleg dæmi um jökla, sem gengið hafa fram nýlega. T.d. mun hinn stóri Siachen jökull tæpast hafa hörfað að ráði sl. hálfa öld.
Ef rétt reynist að rýrnun jökla í Himalayafjöllum sé ekki jafn eindregin og á öðrum jöklasvæðum Jarðar má benda til skýringar á hina miklu hæð fjallgarðsins; áhrif hlýnunar andrúmslofts hljóta að koma fyrr fram á jöklum á hæðarbilinu 0-4000 m heldur en hæðarbilinu 4000-8000 m. Ennfremur ber að nefna að snjókoma getur vel aukist við hlýnun og staðbundnar sveiflur í vetrarákomu á jökla geta verið verulegar. Munu víst fáir vera því ósammála að aukinna rannsókna sé þörf til að skýra þessi mál til frekari hlítar.
Lýkur þá þessu spjalli um jöklana í Himinfjöllum.
Tilvitnanir
1. Dyurgerov, M. B. & Meier, M. F. (1997). Mass Balance of Mountain and Subpolar Glaciers: A New Global Assessment for 1961-1990. Arctic and Alpine Research, 29(4): 379-391.
2. Raina, V.K. (2009). Himalayan Glaciers: A State of Art Review of Glacial Studies, Glacial Retreat and Climate Change. Ministry of Environment and Forests Discussion Paper. Skýrsla útgefin af Umhverfisráðuneyti Indlands 2009.
3. Oerlemans, J. (2005). Extracting a Climate Signal From 169 Glacier Records. Science, 308, 675-677.
4. Climate Change 2007 – The Physical Science Basis. IPCC Fourth Assessment Report (Working Group 1). Cambridge University Press. 996 pp.
5. Dyurgerov, M.B. (2002). Glacier Mass Balance and Regime: Data of Measurements and Analysis. Occasional Paper No. 55. Institute of Arctic and Alpine Research, University of Colorado.
6. Dyurgerov, M.B. & M.F. Meier (2005). Glaciers and the Changing Earth System: A 2004 Snapshot. Occasional Paper No. 58. Institute of Arctic and Alpine Research, University of Colorado.
7. Wagnon, P. og 11 meðhöfundar (2007). Four years of mass balance on Chhota Sigri Glacier, Himachal Pradesh, India, a new benchmark glacier in the Western Himalaya. Journal of Glaciology, Vol. 53 (No. 183), 603-611).
8. Þorsteinn Þorsteinsson (2009). Afkoma Hofsjökuls 2007-2008. Skýrsla VÍ 2009-015. Veðurstofa Íslands. 15 bls.
9. WWF (2005). An Overview of Glaciers, Glacier Retreat, and Subsequent Impacts in Nepal, India and China. World Wildlife Fund (WWF) Nepal Program 2005. 70 pp.
10. http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1805
11. Climate Change 2007 – Impacts, Adaptation and Vulnerability. IPCC Fourth Assessment Report (Working Group 2). Cambridge University Press. 976 pp.
12. Kotlyakov, V.M. (1996). The Future of Glaciers Under the Expected Climate Warming, p. 61-66. In: Kotlyakov, V.M., ed. (1996). Variations of Snow and Ice in the Past and at Present on a Global and Regional Scale. Technical Documents in Hydrology, 1. UNESCO, Paris (IHP-IV Project H-4.1). 78p. [http://unesdoc.unesco.org/images/0010/001065/106523e.pdf].
13. http://www.newscientist.com/article/mg16221893.000-flooded-out.html
14. http://www.ipcc.ch/pdf/presentations/himalaya-statement-20january2010.pdf
15. Bagla, P. (2009). No sign of Himalayan meltdown yet, Indian report finds. Science, 326, 924-925.
http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/1013932/
(Fleira að bráðna en jöklar)
Gunnar, það eru margir sem hafa fjallað um þessi mál, hver með sínu nefi. Það væri þó fróðlegra að fá athugasemd við sjálfan pistilinn, hér að ofan.
Við viljum því hvetja lesendur til að koma með efnislegar athugasemdir við pistla, ef upp koma spurningar eða vangaveltur.