Næstkomandi laugardag (20. febrúar) mun Jón Ólafsson haffræðingur flytja erindi í fyrirlestraröðinni Vísindaeyjan: Landnám, loftslag og haf. Þetta er fjórði og síðasti fyrirlesturinn sem haldinn er af tilefni 10 ára afmæli Vísindavefsins.
Þessi fyrirlestraröð er lofsvert framtak og höfum við á loftslag.is haft bæði gagn og gaman að – þótt við höfum ekki komist á alla fyrirlestrana. Hér fyrir neðan er lýsing á fyrirlestrinum, en hægt er að tilkynna komu sína á facebook (það er þó ekki skilyrði fyrir mætingu – líklega frekar til hægðarauka fyrir stjórnendur til að halda utan um það hvað það muni mæta margir) og skoða t.d. myndband: sjá Sjór, súrnun og straumar
—
Í tilefni af tíu ára afmæli Vísindavefsins verður almenningi boðið á fjóra fyrirlestra um vísindi, fjóra laugardaga í röð.
Fyrirlestrarnir verða í sal 132 í Öskju og hefjast kl. 13:00.
Síðasti fyrirlesturinn verður haldinn laugardaginn 20. febrúar. Þá mun Jón Ólafsson, prófessor í haffræði við HÍ, flytja erindið Sjór, súrnun og straumar.
Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Vísindaeyjan: Landnám, loftslag og haf.
Höfin þekja um 70% jarðarinnar og í samspili við lofthjúpinn miðla þau sólarorku um hnöttinn. Flestir hafa heyrt getið um hnattræna hlýnum sem afleiðingu notkunar manna á jarðefnaeldsneyti (kolum, gasi og olíu). Höfin taka upp koltvíoxíð úr lofti, dágóðan hluta þess sem því berst vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, sementsframleiðslu og við eyðingu skóga.
Ef ekki nyti hafsins við væri koltvíoxíðstyrkur í lofti mun hærri en raun ber vitni og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar öfgafyllri. En binding koltvíoxíðs breytir sýrustigi sjávar og áhrif þess á kalkmyndandi lífverur verða mjög neikvæð.
Hér verður einkum fjallað um heimaslóð, Norður-Atlantshafið, og greint hvort vísbendingar séu um breytingar á sjó, hafstraumum og vistkerfum.
Í leiðinni viljum við minna á að á Loftslag.is er viðburðadagatal sem ekki hefur fengið mikla athygli hjá okkur hingað til. En ef vel er athugað má sjá viðburðina neðst í hliðarstikunni til hægri. Við höfum bent á áhugaverða viðburði tengda loftslagsmálum sem við höfum heyrt af eða rekist á, auk þess sem við fáum stundum beiðni um að skýra frá sérstökum viðburðum. Við hvetjum alla sem heyra af einhverju áhugaverðu að hafa samband í gegnum netfangið loftslag@loftslag.is
Leave a Reply