Nýjar rannsóknir á bráðnun Grænlandsjökuls benda til þess að fjarðarbráðnun gegni lykilhlutverki í minnkun Grænlandsjökuls. Tvær greinar um málið birtust fyrir stuttu í Nature Geoscience. Mælingar á hitastigi sjávar í nokkrum fjörðum Grænlands, sýna óyggjandi hversu mikil áhrif hlýnandi sjávarstraumar hafa á jökulinn.
Austur Grænland
Fiammetta Straneo o.fl, gerðu ýmsar mælingar á sjónum þar sem Helheimajökull, einn af stærstu jökulstraumunum á Austur Grænlandi gengur í sjó fram í Sermilik firði. Þeir benda á mjög mikla blöndun á hlýrri sjó af landgrunninu og sjó í lokuðum firðinum og telja líklegt að núverandi hröðun í bráðnun jökulsins hafi farið af stað við miklar breytingar í straumum sjávar og lofthjúps.
Sjór frá hlýrri breiddargráðum nær nú að Grænlandsjökli og hefur sett af stað hraðari bráðnun og massaminnkun hans. Þessi hlýji sjór fer um firði Austur Grænlands nokkuð hratt og nær hann því að flytja hita og bræða jökulsporðana nokkuð örugglega.
Jökulbreiða Grænlands hefur misst massa hraðar og hraðar undanfarin áratug og hefur átt meiri þátt í hækkun sjávarstöðu en spáð var. Bráðnun vegna hærri lofthita er nokkuð sem hefur verið þekkt – en nú fyrst eru vísindamenn að átta sig á þætti hlýrra sjávarstrauma á bráðnun jökla.
Grunur vísindamanna beindist að nýlegum breytingum í sjávarstraumum á Norður Atlantshafi, sem veitir nú hlýjum sjó á hærri breiddargráður en áður. Það sem hefur skort á til að sannreyna þær tilgátur hefur verið skortur á áreiðanlegum mælingar á ástandi sjávar, sérstaklega áður en þessi hröðun byrjaði.
Í júlí og september 2008 fóru fram umfangsmiklar mælingar á ástandi sjávar í Sermilik firði á Austur Grænlandi. Sermilik fjörður er 100 kílómetra langur og tengir Heilheimajökul við Irmingerhafið.
Djúpt inn í firðinum fundu vísindamennirnir sjó sem var allt að 4°C. Vísindamennirnir notuðu einnig hitamælingar út frá hitamælum sem festir höfðu verið við 19 blöðruseli og tengdir við gervihnetti – er mældu dýpi og hita á þeim slóðum sem selirnir voru. Þær mælingar sýndu að hitinn jókst milli júlí og desember, en að tiltölulega heitt var þó allt árið í kring.
Þetta er fyrsti rannsóknarleiðangurinn í þessa firði sem sýnir hversu öflugir hafstraumar við Austur Grænland er við varmaflutning og að stórar breytingar í sjávarstraumum Norður Atlantshafsins eru að hafa töluverð áhrif á bráðnun jökla á því svæði.
Vestur Grænland
Eric Rignot o.fl. rannsökuðu þrjá jökulfirði á Vestur Grænlandi og fundu að bráðnun jökuls frá heitum sjó væri svipað að mælikvarða og massalosun vegna borgarísjakamyndana – en það var þó mismunandi milli jökla.
Með nákvæmum mælingum á sjávarstraumum, hita og seltu fundu vísindamennirnir út að samtals væru jöklarnir að missa massa mun hraðar við mörk sjávar og jökuls undir yfirborði sjávar, en á yfirborði sjálfs jökulsins. Þetta bendir til þess að heitari sjór sé mikilvægur ef ekki mikilvægasti þátturinn í hinni auknu hopun jökla á Vestur Grænlandi – en hingað til hefur mest verið horft til yfirborðsbráðnunar, en einnig á aukinn skriðhraða og kelfingu í sjó fram, vegna meira vatns við botn jöklanna.
Þetta passar vel við niðurstöður rannsókna Fiammetta Straneo o.fl sem minnst var á hér ofar, á Helheimajökli, en einnig passar þetta vel við niðurstöður rannsókna á sjávarhita sem birt var í Nature Geoscience árið 2008 (Holland o.fl).
Á síðustu árum hafa vísindamenn mælt aukinn hraða bráðnunar Grænlandsjökuls, en aukinn lofthiti hefur aukið á massaminnkun á yfirborði – á meðan snjókoma hefur aukist lítillega. Þetta ásamt fyrrnefndri bráðun við jökulsporðinn hefur þrefaldað massalosun Grænlandsjökuls milli áranna 1996 og 2007.
Bráðnun jökla undir yfirborði sjávar býr til iðustrauma kalds ferskvatns frá jöklinum og hlýs sjávar úr neðri lögum sjávar, þannig að það verður meiri blöndun, sjórinn við jökulinn hlýnar og bræðir meira. Sjór sem er 3°C heitur, getur brætt nokkra metra á dag – eða hundruðir metra yfir heilt sumar.
Rignot segir að þessi rannsókn bendi til þess að þetta samspil hlýrra sjávarstrauma og jökla verði að bæta við í loftslagslíkön – eigi þau að spá fyrir um afdrif Grænlandsjökuls við hlýnandi loftslag. Hingað til hafa loftslagslíkön átt erfitt með að gera grein fyrir þeirri hröðu atburðarrás sem hefur verið í gangi varðandi bráðnun Grænlandsjökuls og mögulega vanmetið áhrif hans til sjávarstöðubreytinga framtíðar.
Heimildir og ítarefni
Greinin um Helheimajökul á Austur Grænlandi (áskrift): Straneo o.fl. 2010 – Rapid circulation of warm subtropical waters in a major glacial fjord in East Greenland
Umfjöllun um grein Straneo o.fl: Team finds subtropical waters flushing through Greenland fjord
Greinin um jökulfirðina á Vestur Grænlandi (áskrift): Rignot o.fl. 2010 – Rapid submarine melting of the calving faces of West Greenland glaciers
Umfjöllun um grein Rignot o.fl: NASA Finds Warmer Ocean Speeding Greenland Glacier Melt
Greinin eftir David Holland o.fl (2008): Acceleration of Jakobshavn Isbræ triggered by warm subsurface ocean waters
Aðrar umfjallanir tengdar Grænlandi á loftslag.is má finna hér: Grænland
Sjórinn spilar alltaf stórt hlutverk en svo virðist vera sem magn hlýsjávar hafi aukist í Norður-Atlantshafi undanfarin ár sem tengist væntanlega því hversu hlýtt hefur verið á Íslandi á sama tíma. En spurningin er svo hvort þetta sé komið til að vera.
Það er stóra spurningin. Ætli framtíð Grænlandsjökuls ráðist ekki af því? Líklega hjálpar ekki til að undanfarin ár hefur sjávarhiti verið sá hæsti frá því mælingar hófust.