Að ýta undir efann

Það er svo að þegar íslenskir fjölmiðlar fjalla um loftslagsmál þá er það oftast á þann veginn að það verður að leiðrétta villur í þeirra fréttaflutningi, helst tvisvar (sjá hér og hér – en þessir tenglar vísa í blogg þar sem tengt er við viðkomandi fréttir af mbl.is – það er víst bannað núna að vísa beint í fréttir af mbl.is). Þó að margir hafi eflaust rekið sig á þennan fréttaflutning, þá er rétt að halda þessum undarlegheitum til haga. 

Þessar fréttir birtust sitt hvorn daginn og greinilegt að annað hvort talast þeir ekki við sem að skrifa fréttir á mbl.is eða þá að þeir hafa ákveðið að hamra á þessu og bæta aðeins við (hver svo sem tilgangurinn með því hafi verið). 

Fyrri fréttin sagði lítið, en var þó ekki vísvitandi villandi.  Vísindamenn þurftu að draga grein til baka um sjávarstöðubreytingar (sjá hér) – vísindagrein sem hafði á sínum tíma tekið undir spár IPCC um hækkandi sjávarstöðu (sjá Siddall 2009). Útreikningar í greininni reyndust rangir. 

Seinni fréttin birtist hálfum sólarhring síðar – og strax við fyrirsögnina er ljóst í hvað stefnir með þá frétt – en fyrirsögnin var: 

Loftslagsskýrsla afturkölluð

Hér hefur mbl.is annað hvort sjálft misskilið eitthvað eða gert sitt til að mistúlka þetta. Eins og kemur fram hér að ofan, þá var um vísindagrein að ræða – ekki loftslagsskýrslu. Miðað við umræðuna undanfarnar vikur – þá læðist að manni sá grunur að hér vilji mbl.is að fólk haldi að um eitthvert opinbert plagg hafi verið að ræða – hver veit? Eitt sem bendir til þess að hér sé verið að gera atlögu að IPCC er að í sjálfri fréttinni er þess getið að þessi grein studdi við spár IPCC – því er rökréttasta ályktun flestra sem að lesa greinina og vita ekki betur, að spár um hærri sjávarstöðu séu brostnar – að allt verði í fína lagi. Aftur á móti þeir sem lesa bara fyrirsögnina hugsa eflaust að ekkert sé að marka loftslagsskýrslur – eða eitthvað á þá leið. 

Vísindagreinin sjálf 

Það sem mér finnst merkilegast við þessa fyrrnefnda vísindagrein er að efasemdamenn um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa bent á hana sem eitthvað sem staðfesti að alvarleiki hlýnunar og þá sjávarstöðuhækkana væri ýktur – þ.e. að greinin benti til þess að mun minni sjávarstöðubreyting verði í framtíðinni en það sem aðrir hafa bent á. Þeir spáðu hækkun sjávarstöðu um 7-82 sm við lok þessarar aldar. Nú þegar búið er að draga þessa grein til baka – þá sýnist mér að efasemdamenn ætli að nota það sem sönnun þess að hlýnunin og sjávarstöðuhækkanir séu ýktar og jafnvel að það verði engin sjávarstöðubreyting – sem er fjarri lagi. 

Aðrir vísindamenn höfðu endurtekið rannsóknina, en reiknað rétt og fengið út sjávarstöðuhækkun um 75-190 sm í lok aldarinnar (sjá Vermeer & Rahmstorf 2009) og er á svipuðu róli og það sem flestir vísindamenn hallast að í dag. T.d. er önnur rannsókn á dínamík kelfandi jökla sem að spáir sjávarstöðuhækkun á milli 80 sm og 2 m í lok aldarinnar (Pfeffer 2008). 

Það sem hefur hvað helst sannfært vísindamenn um að bæði spá IPCC og þessarar greinar (sem hefur nú verið afturkölluð) hafi verið rangar, er að fyrir 125 þúsund árum var hitastig um 2°C hærra en í dag – spár benda til að hitastig verði jafnvel enn hærra um næstu aldamót. Þá var sjávarstaðan um 6 m hærri en nú. Sú sjávarstöðuhækkun gerist þó ekki endilega á þessari öld – en ef spár um hitastig gengur eftir, þá er líklegt að sjávarstaða verði um 2 m hærri í lok aldarinnar – hún muni þó fyrir rest hækka upp í 6 m hærri sjávarstöðu en í dag – hvort það taki aðra öld eða fleiri er erfitt að spá fyrir um.

Á það skal bent að spár IPCC um sjávarstöðuhækkanir, hafa sýnt sig að vera of hógværar hingað til og hafa sjávarstöðuhækkanir verið við efri mörk þess sem þeir hafa spáð. Enda tók IPCC ekki með í reikninginn mögulega aukningu á hraða bráðnunar jöklanna á Grænlandi og Suðurskautinu. IPCC spáði um 18-59 sm sjávarstöðuhækkun í lok þessarar aldar. 

 

Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár. Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.

Að lokum er bent á að við höfum nokkuð fjallað um sjávarstöðubreytingar hér á loftslag.is: Afleiðingar Sjávarstöðubreytingar og Sjávarstöðubreytingar Archive

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál