Visthæfar reykistjörnur eru sjaldgæfar

Hér fyrir neðan er þýðing á ágætum pistli eftir Dr Andrew Glick, sem að birtist áður á heimasíðunni Climate Shift. 

Dr Andrew Glick er jarð- og fornloftslagsfræðingur frá Australian National University.

Losun á meira en 320 gígatonnum af kolefni úr jarðlögum mynduðum af fyrri lífhvolfum (þ.e. sem lífverur til forna mynduðu), hefur bætt við meira en helming af upprunalegu magni andrúmsloftsins (~590 gígatonn af kolefni) út í kerfi andrúmslofts og sjávar. Það hefur sett af stað ferli sem breytir efnasamsetningu andrúmsloftsins um sirka 2 ppm aukningu á styrk CO2 á ári, sem er aukning sem á sér ekki samanburð í sögu jarðar, ef frá eru taldir atburðir eins og árekstur loftssteina við jörðina. 

Nýlegar rannsóknir á fornloftslagi með mismunandi aðferðum (þ.e.  kolefni δ13C úr jarðvegi, hlutfalli borons/kalsíum og forn laufblöð), benda til þess að núverandi styrkur CO2 – sem er 388 ppm og jafngildisstyrkur CO2  upp á 460 ppm (jafngildisstyrkur reiknar þá einnig áhrif metans í andrúmsloftinu) – muni auka lofthita umfram það sem hann var fyrir iðnbyltinguna um 3-4°C í hitabeltinu og allt að 10°C á heimskautunum [1]. Það myndi þýða íslaus jörð.  

Þannig aðstæður ríktu á Plíósen (tímabil fyrir 5,2 -2,8 milljónum ára), á þeim tíma sem Australopithecine frummaðurinn var að taka sín fyrstu skref út úr hitabeltisskógum Afríku [2]. Loftslag á Plíósen breyttist smám saman og frummenn fluttu sig um set. Sá staður er ekki til, sem að þær 6,5 milljarðar nútímamanna sem nú fylla heiminn, geta flust til. Ekki þýðir að ræða að flýja Jörðina til þeirra reykistjarna sem geimvísindastofnanir heims hafa kannað hingað til, fyrir fé sem er mun hærra en það fé sem fengist hefur í umhverfisrannsóknir [3]. 

Það virðist erfitt að útskýra það fyrir almenningi og stjórnmálamönnum að, við 460 ppm CO2 jafngildisstyrk, sé loftslagið á góðri leið með að komast yfir stöðugleikamörk jökulbreiðunnar á Suðurskautinu – en það er skilgreint sem um það bil 500 ppm [4]. Þegar komið er yfir þau mörk, þá munu engar aðgerðir okkar mannanna ná að endurskapa sömu aðstæður fyrir freðhvolfið. Freðhvolfið er einskonar hitastillir Jarðar – þaðan sem kaldir sjávar- og loftstraumar koma – og hjálpa til við að halda svæðum á lægri breiddargráðum köldum. Þegar ísinn hverfur, þá munu veðrakerfi jarðar skipta yfir í gróðurhúsaástand – líku því ástandi sem var hér á fyrri tímabilum jarðsögunnar – t.d. mestan part krítartímabilsins  (fyrir 141-65 milljónum ára) og fram í mið Míósen (fyrir 15 miljónum ára, en á fyrrnefnda tímabilinu voru einu spendýrin lítil og bjuggu neðanjarðar. 

Fyrir um 2,8 milljónum ára, á mið Plíósen, var hitastig allavega um 3°C hærra en það sem það var fyrir iðnbyltinguna og sjávarstaða var um 25 ± 12 m hærri en nú [5]. Fyrir um 15 milljónum ára var styrkur CO2 um 500 ppm, en þá var hnattrænt hitastig um 4°C hærri en fyrir iðnbyltingu og sjávarstaða um 40 m hærri en nú. Frá byrjun 20. aldarinnar þá hefur sjávarstaðahækkunin aukist frá því að vera um 1 mm á ári og upp í 3,5 mm á ári í lok aldarinnar [6] (frá 1993-2009 hefur sjávarstöðuhækkunin verið um 3,2 ± 0,4 mm á ári (mynd 1). 

Mynd 1: Hækkun sjávarstöðu milli áranna 1993-2009, mælt með Topex og Jason gervihnöttunum. University of Colorado, 2009 (http://sealevel.colorado.edu/)

Jörðin er í einskonar millibilsástandi, þegar afleiðingar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum og eyðing skóga eru að verða sífellt augljósari – með aukinni varmaorku sem flæðir um lofthjúpinn og keyrir áfram fellibyli – og er um leið að færa loftslagsbelti jarðar nær Heimsskautunum, með tilheyrandi eyðimerkurmyndunum á tempruðum svæðum, þ.e. í suður Evrópu, suður Ástralíu og suður Afríku. Þurrir skógar verða skógareldum að bráð, líkt og í Viktoríu fylki í Ástralíu og í Kaliforníu. 

Hlýnun jarðar er í óðaönn að endurstilla ENSO hringrásinu, þar á meðal hið tiltölulega kalda La-Nino stig (mynd 2). Sumt fólk sem afneitar loftslagsbreytingum og vill láta kalla sig “efasemdamenn”, notar þessa hringrás til að fullyrða um að nú sé í gangi “hnattrænn kólnun” [7]. Í mótsögn við grundvallareðlisfræðilögmál sem lýsa hvernig gróðurhúsalofttegundir gleypa og endurgeisla innrautt ljós, telja efasemdarmenn að hin skammlífa gróðurhúsalofttegund, vatnsgufa (sem er að meðaltali í 9 daga í lofthjúpnum áður en hún þéttist og fellur til jarðar) hafi mestu áhrif til hlýnunar, en hunsa að mestu langtímaáhrif CO2 og N2O. Hin aukna tíðni El Nino er á góðri leið með að komast á það stig að það verði varanlegur El Nino – sem eru svipaðar aðstæður og voru fyrir um 2,8 milljónum árum síðan [8] (mynd 3).

Mynd 2: Þróun hitastigs frá 1975–2009 og ENSO hringrásin - þar sem sjá má hvernig áhrif El-Nino og La Nina leggjast ofan á leitni undirliggjandi hlýnunar.

Núverandi loftslagsbreytingar hafa áhrif jafnt á kolefnisjarðlög sem og núverandir lífhvolf. Styrkur CO2 í andrúmsloftinu eykst um 2 ppm/ári sem er hraðari breyting en þekkist í jarðsögunni, en mesta styrkbreyting sem vitað er um var um 0,4 ppm/ári – á Paleósen-Eósen mörkunum fyrir um 55 milljónum árum síðan, þegar um 2000 gígatonn af kolefni losnaði út í andrúmsloftið og olli útdauða fjölmargra dýrategunda [4].

Mynd 3: Þróun ENSO (El Nino Southern Oscillation) frá Pliósen (5.2 – 1.8 milljónir ára) og til nútímans, sem sýnir hvernig sjávarhiti í Austur Kyrrahafi (blá lína) fjarlægist sjávarhita í Vestur Kyrrahafi (rauð lína).

Væntingar um bindandi samkomulag í Kaupmannahöfn, sem lýst var sem “langmikilvægasta fund í sögu mannkyns.” (Joachim Schellnhuber) og möguleikanum á nýjum “messía” í formi forseta sem sveifla átti töfravendi sínum, hrundu í desember 2009, vegna hagsmunapots og flokkadrátta.

Hið alþjóðlega kerfi sem ætlast er til að verndi líf verðandi kynslóða er að bregðast. Samkvæmt tölum frá Global Carbon Project þá náði “Losun kolefnis frá útblæstri vegna bruna jarðefnaeldsneytis og landnotkunar næstum 10 milljörðum tonna árið 2007” [9]. Þeir sem að afneita raunveruleika hnattrænna loftslagsbreytinga hafa nú beint spjótum sínum að óvissu í framtíðarspám, líkt og tímasetningu á því hvenær Himalayajöklarnir bráðna eða Amazon skógurinn eyðist. Það gerir lítið úr þeim vísbendingum um hvert loftslag Jarðar stefnir, þar sem óvissa er um nákvæma tímasetningu framtíðaratburða, líkt og bráðnun Himalayajöklanna. Ætli fullyrðingar um “samsæri” vísindamanna, eigi einnig við um frumkvöðla í skilningi á eðlisfræði lofthjúpsins (Joseph Fourier, John Tyndall, Svante Arrhenius og Guy Chalendar) og þeirra sem skilgreindu grundvallarlögmál í varmafræði gróðurhúsalofttegunda (Stefan, Bolzmann, Kirschner)? 

Flestir þeir sem gagnrýna IPCC hundsa þá staðreynd að fram til þessa hafa IPCC skýrslurnar vanmetið bráðnun jökla, sjávarstöðubreytingar, ferli magnandi svörunar og nálægð vendipunkta í loftslagi – sérstaklega yfirvofandi hættu á að hundruðir gígatonna af metani losni úr sífrera, botnseti stöðuvatna og mýra.

Ríkisstjórnir heims halda áfram að dæla pening sem kemur frá minnkandi auðlindum, í stríð (1,4 billjónir bandaríkjadala árið 2008) og til að bjarga bönkum (0,7 billjónir bandaríkjadala). Afþreying og fjölmiðlar kosta gríðarlegar upphæðir og áætlað að muni kosta um 2 billjónir bandaríkjadala árið 2011. Milli áranna 1958 og 2009 eyddu Bandaríkin sem samsvarar 823 milljarða bandaríkjadala í geimkannanir þar sem meðal annars var verið að leita að vatni og örverur á öðrum hnöttum [10]. Nú hefur fundist vatn á Mars og Tunglinu, á sama tíma og pH gildi sjávar lækkaði um 0,075 stig frá árinu 1751-1994 (8,179-8.104) [11], sem ógnar fæðukeðju sjávar.

Heimildir sem vísað er í

  1. Pagani M. o.fl. 2010. http://www.nature.com/ngeo/journal/v3/n1/abs/ngeo724.html
  2. deMenocal P.B. 1995. http://www.sciencemag.org/cgi/content/abstract/270/5233/53
  3. http://en.wikipedia.org/wiki/NASABudget#Annual_budget.2C_1958-2008;
  4. Zachos J.C. o.fl. 2008 http://www.nature.com/nature/journal/v451/n7176/full/nature06588.html
  5. Haywood M. og Williams M. 2005. http://www3.interscience.wiley.com/cgi-bin/fulltext/118652116/PDFSTART
  6. Rahmstorf S. 2007. http://www.sciencemag.org/cgi/content/abstract/1135456 og http://sealevel.colorado.edu/
  7. Easterling D.R. og Wehner M.F. 2009. http://www.agu.org/pubs/crossref/2009/2009GL037810.shtml
  8. http://www.sciencemag.org/cgi/content/abstract/sci;312/5779/1485
  9. http://www.abc.net.au/news/stories/2008/09/26/2374776.htm
  10. http://features.csmonitor.com/innovation/2009/09/24/nasa-finds-water-ice-in-mars-craters/ 0g http://features.csmonitor.com/innovation/2009/09/24/new-evidence-of-water-on-the-moon/ 
  11. http://en.wikipedia.org/wiki/Ocean_acidification

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál