Súrnun sjávar eykst í Norður Kyrrahafi

Útreikningar líkana og beinar mælingar sýna að aukinn styrkur CO2 í andrúmsloftinu veldur því að sjórinn dregur í sig lofttegundina úr andrúmsloftinu og sýrustig þess eykst (pH gildið minnkar), eins og við höfum áður fjallað um hér á loftslag.is (sjá færslur um súrnun sjávar). Aukning í styrk CO2 í andrúmsloftinu eykur hlutþrýsing CO2, sem myndar ójafnvægi milli uppleysts CO2 í sjónum og CO2 í andrúmsloftinu. Það veldur því að sjórinn dregur í sig CO2, sem myndar efmasambönd sem eykur sýrustig sjávar. Með öðrum orðum – með því að brenna jarðefnaeldsneyti á landi, þá breytum við efnafræði sjávar.

Lífverur sjávar eru taldar verða fyrir neikvæðum áhrifum af súrnuninni vegna þess að erfiðara verður fyrir lífverur að mynda kalkskeljar.

Línurit sem sýnir aukningu í CO2 í andrúmsloftinu og uppleyst í sjónum, auk minnkandi pH gildi sjávar (súrnun). Heimild Doney o.fl 2009

Nákvæmar mælingar yfir stærra svæði hafa þó hingað til verið takmarkaðar á umfangi súrnunar sjávar.

Niðurstöður sýnatöku í Norður Kyrrahafi  sýna svart á hvítu að úthöfin eru að súrna vegna losunar CO2 út í andrúmsloftið á stóru svæði. Greinin sem að birtist í Geophysical Research Letter (sjá Byrne o.fl. 2010) sýnir rannsókn þar sem borið var saman pH gildi úr sýnum tekin í þversniði milli Oahu, Hawaii og Kodiak eyja á árunum 1991 og 2006 (þversniðið fylgdi 152° vestlægri lengdargráðu). Um 2100 sýni voru tekin frá yfirborði og niður að sjávarbotni.

Niðurstaðan sýnir að meðal pH gildið hefur minnkað um 0,023 í efstu 800 m þversniðsins. Þótt þetta sé ekki há tala, þá þýðir það um 6% aukningu í súrnun sjávar. Þetta er í samræmi við aðrar mælingar sem gerðar hafa verið í Atlants- og Kyrrahafi. Talið er að í efri lögum sjávar, þá séu breytingarnar nánast eingöngu af völdum athafna manna – og um helmingur af þeim breytingum sem sjást neðar, samkvæmt höfundum. Súrnun sjávar mun að öllum líkindum halda áfram að aukast með aukinni losun CO2 út í andrúmsloftið af völdum manna.

Frá upphafi iðnbyltingarinnar þá hefur súrnun sjávar aukist um 30%. Þessi aukning er um 100 sinnum hraðari en sjávarlífverur hafa orðið vitni að, síðastliðin 20 milljón ár. Á tímabilum mikillar súrnunar sjávar í fortíðinni, t.d. fyrir 55 milljónum ára – þá varð mikill útdauði sjávarlífvera sem að mynda kalkskeljar (sjá t.d. Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára).

Heimildir og ítarefni

Sjá grein Byrne o.fl. 2010 um súrnun sjávar í Norður Kyrrahafi (ágrip):  Direct observations of basin‐wide acidification of the North Pacific Ocean

Umfjöllun um greinina má sjá á heimasíðu NOAA: Study finds evidence of ocean acidification in North Pacific Ocean

Hér er einnig áhugaverð grein eftir Doney o.fl. 2009, um súrnun sjávar, úr tímaritinu Oceanography – þaðan sem myndin er tekin hér að ofan: Ocean AcidificationA Critical Emerging Problem for the Ocean Sciences

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál