Villa í sjávarstöðuútreikningum IPCC

Einn af höfundum kaflans um sjávarstöðubreytingar í IPCC skýrslunni, skrifaði áhugaverða færslu á realclimate.org fyrir skemmstu.  

Fyrst býr hann til ímyndaða villu í IPCC skýrslunni- sem, ef hún hefði verið gerð, hefði eflaust valdið uppþoti og fjölmiðlafári. Síðan segir hann frá raunverulegri og vísvitandi villu sem er í IPCC skýrslunni og veltir því fyrir sér af hverju sú villa hefur ekki orðið að fjölmiðlafári, líkt og hin hefði eflaust gert.

Ímyndaða villan

Í síðustu skýrslu IPCC frá 2007, þá spáði IPCC að hámarki 59 sm hækkun í sjávarstöðu í lok aldarinnar. Ímyndaða villan er þessi:

Í fyrsta lagi þá eru efri mörk hlýnunar í lok aldarinnar um 6,4°C, í IPCC skýrslunni, en í ímynduðu villunni er ákveðið að miða sjávarstöðubreytingar við að efri mörk hlýnunar verði 7,6°C. Í öðru lagi, þá ákveða höfundar IPCC að reikna út sjávarstöðubreytingar fram til ársins 2105, frekar en til ársins 2100 – þá til að auka við þá ógn sem stafar af sjávarstöðubreytingum. Það sem veldur síðan mestu skekkjunni er að IPCC veit að sjávarstöðubreytingar síðustu 40 ár hafa verið 50% meiri en útreikningar sýna samkvæmt loftslagslíkönum – samt eru þessi líkön notuð, óleiðrétt, til að segja til um framtíðina. Að lokum er reiknað með mikilli bráðnun stóru jökulbreiðanna – sem er þá í andstöðu við fyrri hegðun jökulbreiðanna.

Við ímyndum okkur að vísindamenn hafi varað við þessu og að það gæti haft alvarleg áhrif á trúverðugleika IPCC, en samt væri ákveðið að nota þessa útreikninga.

Samkvæmt þessu ímyndaða dæmi, þá bætast 31 sm við sjávarstöðuhækkunina, með því að nota hlýnun upp á 7,6°C og með því að reikna fram til ársins 2105 þá er sjávarstöðuhækkunin orðin sirka 150 sm. Þegar bætt er við skekkjan, þar sem líkönin meta sjávarstöðubreytingar 50% hærri en þau í raun og veru eru, þá erum við komin upp í sirka 3 m sjávarstöðuhækkun.

Að ímynda sér viðbrögðin sem þessi villa hefði valdið, er erfitt – en víst er að bloggarar og fjölmiðlar hefðu krafist afsagnar þeirra sem að IPCC stóðu og að öll IPCC skýrslan væri uppspuni frá A-Ö.

Raunverulega villan

Í síðustu skýrslu IPCC frá 2007, þá spáði IPCC að hámarki 59 sm hækkun í sjávarstöðu í lok aldarinnar. Raunverulega villan er þessi:

Í fyrsta lagi þá eru efri mörk hlýnunar í lok aldarinnar um 6,4°C, í IPCC skýrslunni, en í spánni var ákveðið að miða sjávarstöðubreytingar við það að efri mörk hlýnunar verði eingöngu 5,2°C – sem lækkaði mat sjávarstöðubreytinga um 15 sm. Í öðru lagi, þá var ákveðið að reikna út sjávarstöðubreytingar fram til ársins 2095, frekar en til ársins 2100 – til að minnka matið um aðra 5 sm. Það sem olli síðan mestri skekkju er að sjávarstaða síðastliðin 40 ár hefur risið 50% meir en líkönin segja til um – samt eru líkönin notuð óleiðrétt, til að segja til um framtíðina. Að lokum var reiknað með að jökulbreiðan á Suðurskautinu myndi vaxa og þar með lækkka sjávarstöðu, sem er í andstöðu við fyrri hegðun jökulbreiðunnar.

Sumir vísindamenn innan IPCC vöruðu við þessari nálgun og það hún gæti haft alvarleg áhrif á trúverðugleika IPCC, en samt var ákveðið að nota þessa útreikninga.

Þessi villa gefur okkur hæstu mögulega sjávarstöðubreytingu upp á 59 sm, eins og áður segir.

Eðlilegt mat

Við eðlilegt mat á hæstu mögulegu sjávarstöðuhækkun – þ.e. ef miðað er við hæstu mögulegu hlýnun, rétt ár notað sem viðmiðun og það að líkönin vanmeta sjávarstöðubreytingar þá eru 59 sm nokkuð frá því að vera eðlilegt mat á hæsta gildi sjávarstöðubreytinga í lok þessarar aldar.

Við  þessa 59 sm getum við bætt 15 sm til að sjá efri mörkin miðað við 6,4°C hlýnun og 5 sm bætast við ef farið er til ársins 2100. Það eru um 79 sm. Síðan þarf að bæta við 50% til að bæta upp vanmat það sem líkönin gefa okkur og þá erum við komin upp í 119 sm sjávarstöðuhækkun – sem er mun nær því sem að sérfræðingar í sjávarstöðubreytingum reikna með nú (sjá heimildir neðst í þessari færslu).

Með því að skoða þessa tölu í samhengi við þá tölu sem að IPCC gaf út, þá er í sjálfu sér merkilegt að ekki hefur orðið fjölmiðlafár yfir þessari leiðu villu. Líklega er ástæðan sú að fólk sættir sig frekar við vanmat en ofmat. En þetta er samt undarlegt ef tekið er tillit til þess hversu slæmar afleiðingar þessi villa getur haft í för með sér – þ.e. ef verstu afleiðingar hlýnunar jarðar af mannavöldum myndu koma fram.

Heimildir og ítarefni

Færsluna, sem er eftir Stefan Rahmstorf, má finna á Real Climate:  Sealevelgate

Ýmsar skýrslur sem tekið hafa saman núverandi þekkingu á sjávarstöðubreytingum – frá síðustu IPCC skýrslu – reikna með því að sjávarstaða geti hækkað um og yfir einn metra fyrir árið 2100: Þ.e. skýrslur Dutch Delta CommissionSynthesis Report, Copenhagen Diagnosis auk SCAR skýrslunnar. Þetta er einnig niðurstaða nokkurra nýlegra ritrýndra greina: Rahmstorf 2007, Horton o.fl. 2008, Pfeffer o.fl. 2008, Grinsted o.fl. 2009, Vermeer og Rahmstorf 2009, Jevrejeva o.fl. 2010 (í prentun hjá GRL). Eina undantekningin – Siddall o.fl. 2009  var dregin til baka eftir að í ljós koma að útreikningar stóðust ekki (sjá umfjöllun loftslag.is um það mál Að ýta undir efann) .

Sjá einnig fasta síðu loftslags.is um sjávarstöðubreytingar og fyrri umfjallanir um sjávarstöðubreytingar

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál