Er að verða hnattræn veðurfarsbreyting?

Það eru nokkrir mánuðir síðan ég ákvað að gera einhvers konar úttekt á öfgaveðri og hvort einhverjar vísbendingar væru um að það væri að verða hnattræn veðurfarsbreyting. Undanfarna mánuði hafa síðan hrannast upp fréttir af hitabylgjum, úrhellisrigningum og þurrkum víða á Norðurhveli Jarðar – auk kuldakasta á afmörkuðum svæðum á Suðurhveli. Öfgarnir hafa þó verið meiri hvað varðar hitann og hitamet hafa fallið af miklum móð.

Til að þessi færsla verði ekki of löng, þá ákvað ég að fjalla bara um hitabylgjuna í Moskvu og eingöngu í stuttu máli. Í fréttum víða um heim hafa menn ekki komist hjá því að – í minnsta lagi – velta því upp hvort hitabylgjan í Moskvu sé að einhverju leiti tengd hlýnun Jarðar.

Loftslagsvísindamenn eru almennt séð frekar varkárir í yfirlýsingum sínum, þó fjölmiðlar eigi það til að blása slíkt upp. Því heyrir maður oft hjá þeim, að ekki sé hægt að tengja einstaka atburði sem þessa við hnattræna hlýnun, þótt keyrslur loftslagslíkana hafi einmitt bent á að slíkir atburðir verði sterkari við aukið hnattrænt hitastig. Tölfræðilega hefur reynst erfitt að henda reiður á það hvort hér sé um að ræða beina afleiðingu hnattrænnar hlýnunar – til þess er náttúrulegur breytileiki of mikill.

Einn tölfræðingur skoðaði hitabylgjuna í Moskvu, þ.e. hitastig í júlí undanfarin 60 ár eða svo og fékk þessa mynd (sjá Red hot):

Það má ljóst vera að júlí 2010 var töluvert heitari en önnur ár á tímabilinu. Reyndar kom í ljós við þessa tilraun að hitastig fyrir daglegan hita í júlí 2010 er um 3,6 staðalfrávik frá meðaltalinu. Fyrir normaldreifð gildi, þá eru líkurnar á öfgunum í Moskvu um 0,0003 – eða um 1 á móti 3000.

Því má álykta sem svo að hér sé mögulega kominn atburður í safnið sem tölfræðilega má álykta að sé beintengdur hnattrænni hlýnun. Það má þó búast við því að loftslagsvísindamenn og tölfræðingar eigi eftir að rýna betur í gögn sumarsins þegar líður nær vetri, en margt bendir til þess að hlýnun Jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda, lítil virkni sólar (og þar með breytingar í vindakerfum) og ENSO Kyrrahafssveiflan hafi allt átt sinn þátt í þessum veðuröfgum.

Líklegt má telja að veðuröfgar þessa árs séu eitthvað sem búast má við að aukist á næstu áratugum og öldum (sjá tengla hér fyrir neðan).

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál