Áhrif loftslagsbreytinga á Brúnfiðrildi

Í fyrsta sinn, telja vísindamenn sig hafa fundið bein orsakatengsl milli loftslagsbreytinga og tímasetningu náttúrulegra atburða – þ.e. hvenær Brúnfiðrildi (e. brown butterfly – l. Heteronympha merope) birtast fyrst að vori í Melbourne, Ástralíu. 

Hingað til hefur fundist góð fylgni milli loftslagsbreytinga og ýmissa atburða í hinu reglubundna lífi lífvera, líkt og far fugla og blómgun plantna (sjá t.d. Árstíðarsveiflur í náttúrunni að breytast), en hingað til hefur verið erfitt að finna bein orsakatengls þar á milli.

Í nýrri rannsókn sem að birt var í tímaritinu Biology Letters, voru borin saman hitagögn í Melbourne og fyrstu brúnfiðrildin sem sjást að vori, en gögnin ná aftur til fimmta áratug síðustu aldar. Á hverjum áratug birtast fiðrildin að meðaltali 1,6 dögum fyrr en á áratugnum þar á undan og að meðaltali eykst hitastigið um 0,14°C.  Nú birtast fiðrildin um 10,4 dögum fyrr en þau gerðu á fimmta áratugnum. Höfundar telja sig nú finna greinilegt munstur orsaka og afleyðinga, þar á milli.

Til að finna orsakatengsl, þá tóku þeir egg fiðrildisins og settu í hólf þar sem hægt var að stjórna hitastiginu og komust að því að þroskaferill frá eggi og í lirfu stjórnaðist að miklu leiti af hitastiginu – þ.e. hvert stig þolir vissa árstíð best. Þá bjuggu þeir til stærðfræðilíkan þar sem tengd voru saman lífeðlisfræðilegir þættir sem hafa áhrif á þroskaferilinn og tengdu við loftslagsgögn. Líkanið sagði síðan fyrir um það hvenær fiðrildin myndu birtast.

Að auki notuðu höfundar mismunandi loftslagslíkön til að kanna hvort náttúrulegur breytileiki hefði áhrif á hlýnunina í Melbourne og fundu út að hlýnun af mannavöldum hefðu helst áhrif á loftslagsbreytingar á þessum slóðum.

Þá er það spurningin, mun þessi fiðrildategund þola frekari loftslagsbreytingar? Kvendýrið bíður þar til í lok sumars að verpa eggjunum, til að lirfustigið hitti á rétta árstíð. Samkvæmt höfundum, þá þýða lengri sumur það að fiðrildin þurfa að bíða lengur með að verpa og það er óljóst hversu lengi þau geta lifað til að hitta á rétt hitastig. Að auki er óvíst hvort það verði of hlýtt til að fiðrildið geti klárað lirfustigið.

Skordýrafræðingurinn Myron Zalucki segir þetta vera áhugaverða rannsókn, en setur spurningamerki við það hversu nákvæm gögnin eru um vorbirtingu fiðrildanna og að það sé ákveðið ósamræmi í því hvað líkönin spá og hvað gerist í raun og veru. Einnig setur hann spurningamerki við það hvort að fiðrildin sjáist í raun og veru fyrr eða hvort að fólk sé almennt séð meira vakandi við að fylgjast með þeim.

Heimildir og ítarefni

Greinin sem birtist í tímaritinu Biology Letters má finna hér (áskrift): Kearney o.fl. 2010 – Early emergence in a butterfly causally linked to anthropogenic warming

Þessi umfjöllun er unnin upp úr frétt á heimasíðu NewScientist: Global warming changes natural event: first causal link

Lesa má um íslensk fiðrildi á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands: Fiðrildi (Lepidoptera)

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál