Síðbúið vetrarhámark hafíssins á norðurhveli

Tvisvar á ári sýna menn hafísnum á norðurslóðum meiri áhuga en venjulega. Annarvegar er það á haustin þegar hafísinn er í lágmarki eftir sumarbráðnunina og hinsvegar síðla vetrar þegar útbreiðslan nær sínu árlega hámarki – oftast snemma í marsmánuði. Þessir árlegu vendipunktar eru síðan notaðir sem mælikvarðar til að meta ástand og þróun hafíssbreiðunnar til lengri tíma.

Hafíssveifla síðustu ára. Mynd frá Nansen rannsóknastofnunni í Noregi

Að þessu sinni kom upp sú óvenjulega staða eftir að hafísinn virtist hafa náð sínum árlega toppi snemma í mars, að í stað þess að dragast saman þá tók útbreiðslan að aukast á ný uns nýju hámarki var náð um mánaðarmótin mars og apríl sem er síðbúnasta vetrarhámark hafíssins sem vitað er um frá upphafi gervihnattamælinga árið 1979. Þetta þýddi einnig að nú í byrjun apríl var meiri hafís á norðurhveli en verið hafði á sama tíma í mörg ár og því erfitt að halda því fram að ísinn væri í krítísku ástandi miðað við útbreiðsluna sem þarna var allt í einu komin upp í meðallag. En hvaða ályktanir má draga af þessu? Má nú halda því fram að hafísnum sé hér með borgið?

Íshafið og jaðarsvæði

Til að reyna að skilgreina ástand hafíssins vil ég skipta heimskautasvæðunum í tvo hluta eftir aðstæðum. Í fyrsta lagi er það Norður-Íshafið sjálft ásamt heimskautasvæðum Kanada. Þar er hinn eiginlegi heimskautaís sem bráðnar ekki nema að hluta til á sumrin en er alltaf hulinn 100% ísþekju á veturna, alveg óháð því hversu óvenjumiklar eða litlar frosthörkur eru á veturna. Í öðru lagi eru það jaðarsvæðin fyrir utan, svo sem Berings- og Barentshafið ásamt ýmsum öðrum norðlægum strandsvæðum þar sem allur hafís hverfur á sumrin á meðan vetrarúrbreiðslan er háð tíðarfari hverju sinni. Það eru sem sagt þessi jaðarsvæði sem skipta máli þegar rætt er um vetrarútbreiðslu hafíssins, þótt sum þeirra séu varla í neinum tengslum við Norður-Íshafið sjálft.

Sumarútbreiðslan í september 2009 og vetrarútbreiðslan í mars 2010. Meðalútbreiðslan sýnd til viðmiðunnar. Myndir frá National Snow and Ice Data Center, Bandaríkjunum.

Í vetur hafa aðstæður verið þannig að hiti hefur verið yfir meðallagi víðast á Norður-Íshafinu og þá sérstaklega á norðurhjarasvæðum Kanada. Samt sem áður er allt þar helfrosið eins og gengur og gerist á veturna.

Á jaðarsvæðunum hafa hafa aðstæður verið misjafnari. Mjög lítill ís hefur verið á við Nýfundnaland og tengist það hlýindum í Kanada. Hinsvegar hefur meiri ís en venjulega verið í Beringshafinu milli Síberíu og Alaska og það er aðallega kuldakast á þeim slóðum síðustu vikurnar sem hefur haldið aftur af heildarrýrnun hafíssins undanfarið, því þarna mun nýr hafís hafa verið að myndast allan marsmánuð. Á Barentshafinu munu kaldir vindar einnig hafa blásið síðasta mánuð með tilheyrandi nýmyndun á hafís. Þessi nýmyndaði ís verður þó varla langlífur frekar en annar ís sem myndast svona síðla vetrar og þarf því ekki að vera vísbending um afkomu heimsskautaíssins næstu misseri.

Einnig má hafa í huga að síðla vetrar er hafísinn sumstaðar farinn að brotna upp og dreifast út frá jaðarsvæðunum þegar norðlægir vindar blása, þannig getur aukin útbreiðsla því einnig þýtt veikari og opnari hafísbreiðu.

Hafísin að brotnar upp undan ströndum Síberíu, landfastur ís er hægra meginn á myndinni.

Hafísinn brotnar upp undan ströndum Síberíu. MODIS-gervitunglamynd frá 9. apríl.

Sumarhorfur

Til að meta sumarhorfurnar þarf fyrst og fremst að velta fyrir sér kjarnasvæðinu sjálfu þ.e. Norður-íshafinu, enda mun ísinn á jaðarsvæðunum bráðna hvort sem er. Á norður-Íshafinu skiptir aldur og þykkt íssins máli og þar hefur langtímaþróunin verið sú að ísinn hefur verið að þynnast og yngjast. Sérstaklaga var það áberandi eftir metbráðnunina 2007. Nýliðinn vetur er sagður hafa verið frekar hagstæður fyrir ísinn, ekki þá vegna kulda heldur frekar vegna hagstæðra veðurskilyrða sem tengjast óvenju neikvæðri heimskautalofthringrás (Arctic Oscillation) sem þýtt hefur hærri loftþrýstings og minni lægðargang. Það er sagt hafa valdið því að minni ís hafi borist út frá heimskautasvæðinu en annars, en aðalútgönguleið undankomuleið hafíssins liggur um Fram-sund milli Grænlands og Svalbarða. Þetta gæti þýtt traustari ís sem minnkar líkur á metbráðnum sem slær út sumarið 2007. Við sjáum þó til með það.

Hinsvegar gæti verið athyglisvert að fylgjast með hvað gerist á heimskautasvæðum Kanada eftir óvenju mildan vetur þar. Á þessum slóðum hefur ísinn ekki horfið að fullu svo lengi sem menn hafa þekkt svæðið. Þarna liggur hin svokallaða norðvestur-siglingarleið sem galopnaðist eftirminnilega síðsumars 2007 en annars hefur einungis verið hægt að sigla þar í gegn með miklum herkjum einstaka ár. Kannski er raunhæft að spá hraðri bráðnun þarna í sumar og greiðfærum siglingarleiðum áður en vetrarísinn leggst svo aftur yfir á ný.

– – – – –

Nánari og vísindalegri úttekt á stöðu hafíssins má finna hér: http://nsidc.org/arcticseaicenews/

Athugasemdir

ummæli

About Emil Hannes Valgeirsson

Emil Hannes Valgeirsson er áhugamaður um veður og loftslagsmál og hefur skrifað fjölda pistla um þau mál á bloggsíðum Mbl.is. www.emilhannes.blog.is