Það fer ekki framhjá neinum að mikið eldgos er nú í Eyjafjallajökli og einhverjir fjölmiðlar eru byrjaðir að velta því fyrir sér hvort þetta eldgos geti haft áhrif á loftslag, eins og sum eldgos hafa vissulega gert. Eflaust er það ótímabært að vera með einhverjar pælingar um það hvort þetta gos sé slíkt, að það geti valdið breytingum í hnattrænum hita – en til þess þarf það að aukast til muna og eðli þess að breytast nokkuð. Við ætlum þó aðeins að fjalla um það hvaða stærðargráðu eldgosið þarf að ná til að það hafi áhrif á loftslag eða veðurfar.
Við höfum áður fjallað um áhrif eldgosa á loftslagbreytingar til forna, en þar segir meðal annars:
Stór eldgos geta valdið snöggum breytingum í stuttan tíma og þá til kólnunar (ár eða nokkur ár), t.d. eldgosið í Mount Pinatubo árið 1991 sem lækkaði hitastig jarðar tímabundið um sirka 0,4°C . Þau tímabil í jarðsögunni þar sem eldvirkni hefur verið mun meiri en nú, hafa þó getað valdið töluverðri kólnun þann tíma. Þess lags eldvirkni verður þó einungis nokkrum sinnum á hverjum hundrað milljón árum og veldur gríðarlegum loftslagsbreytingum í milljónir ára með tilheyrandi útdauða lífvera. Eldfjöll gefa frá sér CO2 í nokkuð miklu magni en það er þó einungis 1/130 af því sem menn losa á ári eins og staðan er í dag.
Mögnuðustu eldgosin spúa ösku og brennisteinsríkum lofttegundum (SO2) í miklu magni út í andrúmsloftið, sem dreifir sig um veðrahvolfið (troposphere) og alla leið upp í heiðhvolfið (stratosphere) en mörkin eru í um 10-12 km hæð. Þar dreifa þau sig sem ský um lofthjúp jarðar á nokkrum vikum. Við það dregur úr inngeislun sólar sem nær yfirborði jarðar og meðalhiti jarðar lækkar.
Gott dæmi um þetta er eldgosið í Pinatubo 1991 í Filippseyjum, en eldfjallið gaus 12. júní 1991 og gosmökkurinn náði í allt að 20 km hæð. Það framleiddi um 5 rúmkílómetra af dasíti (ísúr-súr gosefni) og 20 milljón tonn af lofttegundinni SO2 (brennisteinsdíoxíði) mesta magn sem mælst hefur. Lofttegundin fór upp í heiðhvolfið og var búin að umlykja hnöttinn á þremur vikum.
Við það minnkaði inngeislun sólar um heil 10% á Hawaii og hitastig jarðar er talið hafa lækkað hnattrænt séð um 0,5°C í 2-4 ár vegna þess.
Oft er það þrennt sem nefnt er sem ráðandi um áhrif eldvirkni á loftslag:
- Eðli eldgossins. Því öflugra eldgos og því meiri sprengivirkni sem er því meiri kólnun. Það er þá sérstaklega ef það er ísúr eða súr gosefni sem hafa mest áhrif – en þá getur sprengivirknin valdið því að hin fínu gosefni nái hærra upp í lofthjúpinn og þá frekar upp í heiðhvolfið, en þar hafa þau langmest áhrif.
- Framleiðsla brennisteinsdíoxíðs: Magn þess skiptir miklu máli til kólnunar, en áhrif til kólnunar er mest vegna endurkasts sólarljóss af völdum þess.
- Staðsetning: Eldgos á hærri breiddargráðum dreifa öskunni og brennisteinsdíoxíðinu ekki eins vel og eldgos staðsett á lægri breiddargráðum. Því þarf gosið að verða því meira til að það hafi áhrif. Við miðbauginn þá dreifast þessi gosefni um um mun stærra svæði vegna háloftavinda til suðurs og norðurs og því meiri endurgeislun sólarljóss.
Til þessa er lítið vitað um efnasamsetningu eldgossins í Eyjafjallajökli (jafnvel talið að það sé basískt), né heldur hvort það eigi eftir að verða nógu öflugt til að ná upp í heiðhvolfið – hingað til bendir fátt til þess (mér skilst að gosmökkurinn nái upp í um 8-10 km hæð – erfitt að átta sig á því, misvísandi tölur og svo eru sumir sem tala bara í fetum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum). Þá er ekki vitað hversu mikið brennisteinsdíoxíð það er eða mun framleiða. En þetta á allt saman eftir að koma í ljós – það er allavega vel fylgst með gosinu á öllum vígstöðvum.
Einnig er kannski rétt að geta þess að afleiðingar af gosum sem að valda kólnun, eru yfirleitt gríðarlegar á annan hátt nærri eldstöðvunum, öskufall og í þessu tilfelli jökulhlaup, sem og fjarri eldstöðvunum samanber röskun á flugsamgöngum – þannig að það er ekki eins og það sé forgangsatriði að spá í þær afleiðingar sem þetta eldgos getur haft á loftslag – margt annað er brýnna nú um stundir eins og fréttir benda til.
Ítarefni
Fróðlegt viðtal var við Harald Sigurðsson í síðdegisútvarpinu í gær (15 apríl), en þar minnist hann á eðli gosa sem hafa áhrif á loftslag (eftir miðja upptökuna). Þar er einnig viðtal við Helga Björnsson jöklafræðing, sem var mjög áhugavert.
Mjög ítarlega er fjallað um eldgos og loftslag á heimasíðu Wunderground.com
Þá viljum við benda á nýja íslenska heimasíðu um eldgos sem eflaust á eftir að verða gullnáma fyrir áhugamenn um eldvirkni: eldgos.is
Mjög ítarlegar og fræðilegar umfjallanir um eldgosið í Eyjafjallajökli má finna á heimasíðu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnun Háskólans.
Ein erlend bloggsíða fylgist vel með eldgosinu í Eyjafjallajökli (ásamt fleirum eldgosum víða um heim): Eruptions
Tengt efni á loftslag.is
- Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
- Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag?
- Mýta: Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg (eldvirkni eða sjórinn)
Nú er komið í ljós að gosið er ísúrt, sjá blogg Haraldar Sigurðssonar