Sveiflur í bráðnun Grænlandsjökuls

Grænlandsjökull við ströndina, myndin tengist ekki fréttinni.

Í nýrri grein sem birtist í Nature Geoscience er sagt frá rannsókn þar sem mældar hafa verið árstíðabundnar sveiflur í hraða í skriði jökuls á Suðvestur Grænlandi. Niðurstaðan er sú að á sumrin er hraðinn allt að 220% miðað við hraðann að vetri. Niðurstöðurnar þykja mikilvægar fyrir skilning á því hvernig jöklar munu bregðast við aukinni hlýnun – þ.e. viðbrögð hans við yfirborðsbráðnun og breytingar í vatnskerfi við botn jökulsins.

Jökulbreiða Grænlandsjökuls inniheldur nægilega mikið vatn til að hækka sjávarstöðu hnattrænt um 7 m. Hins vegar er massajafnvægi jökulbreiðunnar illa þekkt og þar með á hvaða hraða jökullinn mun bráðna. Aukin massarýrnun við ströndina hefur orðið samhliða auknum hraða í skriði jökla. Yfirborðsvatn rennur niður að botni jökulsins og talið er að það auki hraðann.

Ian Bartholomew og félagar notuðu GPS móttakara á um 35 kílómetra sniði inn eftir vesturhluta jökulbreiðu Grænlands og mældu þannig hraða jökulsins yfir sumartímann 2008 og veturinn þar á eftir.  Mælingarnar sýndu aukinn hraða, en á sama tíma sýndu mælarnir að yfirborðið reis. Túlka þeir það þannig að vatnsþrýstingur lyfti þannig undir jökulinn og að skriðið aukist vegna þess. Hraðinn jókst einnig smám saman lengra frá ströndinni eftir því sem leið á sumarið.

Ein af niðurstöðum höfunda er að við lengri og heitari sumur, þá muni hraðinn aukast lengra inn eftir Grænlandsjökli og því muni bráðnun jökulsins stigmagnast og ná yfir stærra svæði jökulbreiðunnar. Höfundar vonast eftir að þessar nýju upplýsingar séu enn eitt púslið til að auka skilning á því hvernig Grænlandsjökull mun bregðast við aukinni hlýnun.

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má finna á heimasíðu Nature Geoscience (ágrip):  Ian Bartholomew o.fl. 2010 – Seasonal evolution of subglacial drainage and acceleration in a Greenland outlet glacier

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál