Hitabylgjur í Evópu

Róm er ein þeirra borga þar sem áhrif á heilsu eru talin verða hvað mest af völdum loftslagsbreytinga í Evrópu.

Ný rannsókn bendir til þess að hitabylgjur í Evrópu muni reynast sérstaklega erfiðar þeim sem búa á láglendum dölum og í strandborgum við Miðjarðarhafið.

Fischer og Schär (2010) notuðu bæði hnattrænt og svæðisbundið loftslagslíkan til að spá fyrir um breytingar á tíðni og lengd hitabylgja í Evrópu á þessari öld. Þeir notuðu einskonar miðspágildi bæði hvað varðar þróun á loftslagi og efnahagsvexti á þessari öld. Mismunandi keyrslur líkanana gáfu mikinn breytileika í alvarleika hitabylgja, en jafnframt frekar stöðugar niðurstöður um það hvar helst mátti eiga von á verstu afleiðingunum.

Hiti ásamt miklum raka getur valdið krampa, örmögnun, hitaslagi og í verstu tilfellum dauða. Aldnir og smábörn eru viðkvæmust. Hitabylgjan sem reið yfir Evrópu árið 2003 olli beint og óbeint dauða um 70 þúsund manns og tjóni í landbúnaði og skógrækt sem nam um 13,1 milljarða evra.

Hár hiti veldur minna heilsutjóni þegar loftið er þurrt, en líkönin spá því að fólk muni verða fyrir bæði auknum hita og háu rakastigi – sérstaklega í dölum og borgum við Miðjarðarhafið.

“Láglendar og votar sléttur, líkt og í kringum fljótið Po í Norður Ítalíu, og strandborgir líkt og Aþena, Róm og Marseilles, eru líkleg til að verða fyrir alvarlegum áhrifum hitabylgja og meira en hálendari og þurrari svæði” segir Fischer, annar höfunda.

Rannsóknirnar benda til að við lok aldarinnar þá munu íbúar sumra þessara svæða upplifa allt að 40 óbærilega heita daga á hverju ári – samanborið við að meðaltali tvo daga á ári milli áranna 1961 og 1990.

Í þessari rannsókn var ekki tekið með í dæmið áhrif af loftmengun og borgarhlýnun (e. urban heat islands) sem eykur á hita í borgum. Báðir þættirnir gætu aukið á afleiðingar hitabylgja á heilsu. Rannsókn frá því fyrr í mánuðinum (McCarthy o.fl. 2010) bendir til að við heitt loftslag, þá séu áhrif borgarhlýnunar tvöfalt meiri en ella. 

Árið 2008 þá áætlaði Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin (WHO) áhrif hitabylgja á heilsufar í 15 evrópskum borgum. Samkvæmt þeirra mati, þá þýðir hver 1°C aukning í reiknuðu hitastigi (reiknuðu út frá áhrifum hita og raka), um 3% aukningu í dauðsföllum í borgunum við Miðjarðarhafið (Beccini o.fl. 2008).

Heimildir og ítarefni

Grein Fischer og Schär (2010) er í Nature Geoscience (ágrip): Consistent geographical patterns of changes in high-impact European heatwaves

Grein McCarthy o.fl. (2010) er í Geophysical Research Letters (ágrip): Climate change in cities due to global warming and urban effects

Grein Beccini o.fl. 2008 er í tímaritinu Epidemiology:  Heat Effects on Mortality in 15 European Cities

Unnið upp úr frétt í NatureNews: Mediterranean most at risk from European heatwaves

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál