Olíumengunin í Mexíkóflóa – Samanburður

Olíulekinn í Mexíkóflóa er gríðarlegt umhverfisslys. Mér hefur persónulega fundist fréttaflutningur hér á landi (og víðar) vera út frá einhverjum undarlegum vinkli um það hvað BP er alveg að fara að gera… eða næstum búið að koma í veg fyrir… í sambandi við lekann. Það virðist þó að mínu mati hafa orðið einhver breyting á því nýlega, nú þegar umfang olíumengunarinnar er að verða öllum ljós. Það hafa verið misvísandi fréttir af því hversu mikil olía lekur í flóann á hverjum sólarhring. Í fyrstu var talað um “aðeins” 5.000 tunnur á sólarhring og þótti mörgum nóg um. Nýlegar fréttir benda þó til að lekinn úr borholunni á hverjum sólarhring sé um 40.000 tunnur. Hvort það hefur verið svo mikið magn allan tímann skal ósagt látið, fyrir utan svo að það hefur náðst einhver árangur við að draga úr lekanum. Þessi leki mun hugsanlega hafa mikil áhrif á vistkerfi Mexíkóflóa og ströndum sem liggja að honum og jafnvel víðar. Þetta mengunarslys er nú þegar orðið eitt það stærsta í sögunni og engin ástæða til að draga eitthvað úr þeirri staðreynd. Meintur árangur við að draga úr lekanum héðan í frá minnkar ekki þann skaða sem nú þegar er orðin vegna þessa. Vonandi munu aðgerðir þær sem nú eru í gangi bera skjótan árangur, svo hægt verði að koma í veg fyrir að umfang mengunarinnar verði enn meiri en komið er.

Það hafa ýmsir aðilar skoðað lekann í samhengi við aðra hluti. Til að mynda hafa sést ýmsir útreikningar á samanburðinum á losun CO2 á dag í heiminum og svo lekans í Mexíkóflóa á degi hverjum. Til að nálgast þetta má líta til tölunnar 40.000 tunnur á sólarhring. Hver tunna er u.þ.b. 138,8 kg af óunninni olíu, heimild. 40.000 tunnur * 138,8 kg / tunna = 5.552.000 kg af olíu á sólarhring, eða 5.552 tonn, sem verður að teljast nokkuð mikið…

Til samanburðar þá höfum við, með losun koldíoxíðs vegna bruna jarðefnaeldsneytis, bætt 2 ppm af CO2 á ári í lofthjúpinn, sem eru um 15,6 Gt (milljarðar tonna) CO2 á ári. Þarna erum við að tala um magn CO2 í kg, til einföldunar skulum við bera þessa tölu saman við olíulekann. Útreikningur: 15.600.000.000 tonn / 365 dagar / 5552 tonnum af olíu / dag = 7.698 olíulekar á dag…

Til að draga þetta saman, þá þýðir í stuttu máli: Losun CO2 á degi hverjum svarar til u.þ.b. 7.700 olíulekum á degi hverjum…

Þessi útreikningur svarar til þess útreiknings sem er gerður hér. Á RealClimate nefna þeir töluna 5.000 í þessu sambandi, en þeir gáfu ekki upp útreikningana sérstaklega. Hvort sem er réttara, má sjá að losun CO2 er gríðarleg á degi hverjum.

Mannkynið losar mikið magn af CO2…það er nokkuð ljóst og það mun hafa afleiðingar, sérstaklega til lengri tíma litið. Umhverfisslysið í Mexíkóflóa verður þó ekki minna af því og það verður að taka á því máli af styrk til að koma í veg fyrir enn verri afleiðingar en fyrirsjánlegar eru miðað við núverandi olíumengun, það er hið mikilvæga verkefni dagsins…til lengri tíma verðum við svo að draga úr losun á CO2 í lofthjúpinn…við þurfum að átta okkur á því sem fyrst.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.