Samhljóða álit vísindamanna styrkist

Nýlega birtist grein í PNAS (Proceedings of the National Academy of Sciences) þar sem staðfest er samhljóða álit (e. consensus) loftslagsvísindamanna að loftslagsbreytingar séu raunverulegar og séu af völdum manna (Anderegg o.fl. 2010).

Gerð var greining á ritrýndum skrifum 1372 loftslagsvísindamanna og kom í ljós að nánast allir vísindamenn sem eru virkir á sviði loftslagsvísinda telja að loftslagsbreytingar séu af völdum manna. Í ljós kom að um 2% af þeim 50 vísindamönnum sem teljast virkastir í loftslagsvísindum eru ekki sannfærðir um að loftslagsbreytingarnar séu af mannavöldum. Svipað er upp á teningnum þegar skoðaðir eru topp 100 virkustu vísindamennirnir, en þá eru 3% ekki sannfærðir og um 2,5% af topp 200 vísindamönnunum hafa efasemdir um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þá kom í ljós að því meira sem vísindamenn hafa skrifað í ritrýnd tímarit – því líklegri voru þeir til að vera sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Dreifing vísindamanna eftir fjölda ritrýndra greina, eftir því hvort þeir eru sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum (CE) eða ekki sannfærðir (UE).

Höfundar segja enn fremur (lauslega þýtt):

Þrátt fyrir að fjölmiðlar leitist við að sýna báðar hliðar rökræðunnar um loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem getur leitt til misskilnings meðal almennings um hvar sú rökræða stendur, þá eru ekki allir loftslagsvísindamenn jafnir hvað varðar vísindalegan trúverðugleika og sérfræðiþekkingu á loftslagskerfum.

Þá benda höfundar á að þessi umfangsmikla greining á þeim sem eru framarlega í loftslagsvísindum bendi til þess að umræða í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna, sem og almenn umræða, ætti að taka mið af þessu þegar verið er að fjalla um loftslagsmál.

Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir af svipuðu meiði, en Doran o.fl. (2009) komust að svipaðri niðurstöðu,  sjá t.d. mýtuna Vísindamenn eru ekki sammála, en þar segir meðal annars:

Það virðist sem rökræðan um ástæður hnattrænnar hlýnunar og hlutverk mannlegra athafna í henni sé lítil sem engin á meðal þeirra sem eru framarlega í að skilja vísindalegan grunn í langtíma loftslagsferlum. Helsta áskorunin viðist vera hvernig hægt er að koma þeim staðreyndum til yfirvalda og til almennings sem virðist enn halda að það séu enn rökræður um málið meðal vísindamanna. Doran o.fl. 2009

Heimildir og ítarefni

Anderegg o.fl. 2010 – Expert credibility in climate change

Doran o.fl. 2009 –  Examining the Scientific Consensus on Climate Change

Tengt efni af loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál