Undanfarin ár hafa nokkrir vísindamenn og áhugamenn um hafís Norðurskautsins gefið út spár um það hvernig útbreiðsla hafíss verður háttað í lok sumarbráðnunar. Þetta er meira til gamans gert en alvöru, en einnig er þetta nokkur keppni milli þeirra sem taka þátt – til að sýna fram á að þeirra aðferð til að spá um hafísútbreiðslu sé best. Þess ber að geta að sá sem þetta skrifar hefur ekki mikla trú á slíkum spám – því allt of mikið getur gerst sem hefur áhrif á útbreiðsluna – en það er gaman að prófa og sjá spádómsgáfurnar.
Hér fyrir neðan er nýjasta spáin, sem gefin var út 22 júní síðastliðinn, en lesa má um spána hér – September Sea Ice Outlook: June Report
Þess ber að geta að til að taka þátt í þessari spá, þá þurftu menn að senda inn tölur í lok maí, en síðan þá hefur margt gerst og bráðnun hafíssins komist á mikið skrið.
Flestir virðist spá því að útbreiðslan verði mitt á milli þess sem hún var árið 2008 (um 4,7 milljónir ferkílómetra*) og 2009 (5,4 milljónir ferkílómetra), en fyrir þá sem ekki vita þá var lægsta útbreiðsla sem mælst hefur árið 2007 (um 4,3 milljónir ferkílómetra).
Hér má sjá þróunina undanfarin ár:
Til að setja hámarksútbreiðsluna undanfarna áratugi í sögulegt samhengi þá er hér línurit sem sýnir útbreiðsluna undanfarna hálfa öld eða svo – sumarútbreiðslan er neðsti hluti hverrar árstíðasveiflu á línuritinu:
Það er því greinilegt að það eru miklar sveiflur á milli ára og margt getur gerst á stuttum tíma.
Staðan þegar þetta er skrifað er sú að útbreiðslan í dag er minni en hún var metárið 2007, fyrir sömu dagsetningu:
Að auki er rúmmál hafíssins það lægsta sem hefur verið undanfarna áratugi, samkvæmt útreikningum Polar Science Center:
Hvað gerist í framhaldinu er óljóst, vindar og skýjahula spila mikla rullu – auk hitastigs sjávar og lofts þar sem hafísinn er. Þykkt og dreifing ræður miklu og óteljandi þætti hægt að taka inn í spárnar.
Mín spá:
Ég ákvað lauslega áður en ég hóf að skrifa þessa færslu að líta eingöngu á eitt og miða mína spá út frá því – þ.e. leitninni undanfarna þrjá áratugi. Ef ég hefði gert það þá hefði spá mín orðið sú að lágmarksútbreiðsla eftir sumarbráðnun yrði sirka svipuð og í fyrra (5,4 milljónir ferkílómetra) – sem er svipað og margir af sérfræðingunum spá. Svo ákvað ég að taka inn í reikningin bráðnunina undanfarinn mánuð og þá staðreynd að útbreiðslan nú er minni en árið 2007 – sem var metárið. Einnig tek ég með í reikninginn að rúmmal hafíssins hefur hreinlega hríðminnkað undanfarna mánuði og því ætti að vera ljóst að það ætti að þurfa minna til að bráðnun nái sér á strik enn frekar. Auk þess erum við stödd núna á ári sem verður mögulega það heitasta frá upphafi mælinga.
Því spái ég hér með að lágmarksútbreiðsla hafíss verði sambærileg við metárið 2007 – þ.e. að það verði í kringum 4,3 milljónir ferkílómetra í lok sumarbráðnunar.
Ég vil að lokum skora á sem flesta til að skrifa spá sína hér fyrir neðan og rökstuðning. Allt í gamni að sjálfsögðu.
*Hér er miðað við tölur frá NSIDC og má búast við lokatölum í október í haust. Bíðum spennt.
Þetta er erfitt, þar sem margir þættir hafa áhrif á hafísútbreiðsluna. T.d. vindar, hitastig, hafstraumar o.fl, eins og kemur fram í færslunni. Síðustu ár hefur magn hafíss farið minnkandi, þ.e. rúmmál hafíss er að minnka þrátt fyrir að útbreiðslan hafi aukist lítillega til skamms tíma, eða síðustu 2 ár. En leitnin er niður á við, það er klárt í mínum huga. Ég hef það þó á tilfinngnunni að við náum ekki lágmarki útbreiðslunnar eins og hún var 2007, heldur verði útbreiðslan meiri (þrátt fyrir minnkandi rúmmál), en þó ekki eins og á síðasta ári. Til að koma með spánna, þá ætla ég að segja lágmarkið verði aðeins meira en það var í september 2008. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart þó það yrði minna, en það mun tíminn einn leiða í ljós.
Mín spá er því: 4,9 milljón ferkílómetrar.
Ég ætla að spái því að metið frá 2007 verði slegið. Árið 2007 fóru saman mikill hiti, hagstæðir vindar og jafnvel hagstætt skýjafar (þrálát hæð með tilheyrandi heiðríkju hleypti óvenju mikilli sólargeislun inn 2007, las ég einhvers staðar). Þetta þurfti allt að fara saman til að ná svo mikilli bráðnun sumarið 2007.
Árið 2010 hefur rúmmál íssins minnkað frá því 2007. Við sumarsólstöður er bráðnunin 8-10 dögum á undan því sem var 2007. Bara þessir 8-10 sólarhringar, þegar sólin er hæst á lofti og yfir sjóndeildarhring allan tímann, muna miklu í orkubúskap norðurskautsins. Opinn sjór drekkur í sig sólargeislana mun betur en hafís og munar þar tugum watta á hvern fermetra.
Það er ekki skynsamlegt að veðja á jafn hagstæða vinda og skýjafar og 2007. En ætla að gera því skóna að minna rúmmál, ásamt 8-10 daga forskoti, dugi sumrinu 2010 til að ná fyrsta sætinu af 2007.
Mín spá: 4.1 milljón ferkílómetrar
Ég spái því að lágmarksútbreiðslan verði sú næst minnsta frá upphafi. Það hefur verið mjög sólríkt undanfarið við Norður-Íshafið vegna öflugrar hæðar eins og var seinni hluta sumars 2007. Eftir því sem ég best veit þá blésu sumarið 2007 líka mjög hlýir vindar frá Síberíu sem hjálpuðu til við bráðnunina. Færsla ísbreiðunar var einnig mjög ákveðin í átt að Fram-sundi milli Grænlands og Svalbarða þar sem mikið magn af hafís slapp út, mikið af því gamall ís. Annað sem ég hef séð nefnt er að óvenjumikið af hlýjum sjó barst um Beringssund milli Alaska og Síberíu og þetta allt hjálpaði til við að ísinn nánast hvarf á þeim slóðum og langleiðina að norðurpól.
Það er kannski ekki líklegt að öll þessi atriði fari aftur saman í ár. Á móti kemur þynnri ís en í upphafi sumars 2007 og aðeins minni útbreiðsla.
Mín spá skal þá vera: 4,5 milljón ferkílómetrar.
Þetta eru allt saman góðar spár gæti ég trúað. Eitt áhugavert trend hjá okkur er að við við spáum allir milli 4 og 5 milljón rúmkílómetra og með aukastaf sem er oddatala. Það hlýtur að vera mjög pró 🙂
Ég vil benda lesendum að ég rakst á blogg sem að fjallar eingöngu um hafísinn á Norðurskautinu: Arctic Sea Ice.