Spár um lágmarksútbreiðslu hafíss í ár

Undanfarin ár hafa nokkrir vísindamenn og áhugamenn um hafís Norðurskautsins gefið út spár um það hvernig útbreiðsla hafíss verður háttað í lok sumarbráðnunar. Þetta er meira til gamans gert en alvöru, en einnig er þetta nokkur keppni milli þeirra sem taka þátt – til að sýna fram á að þeirra aðferð til að spá um hafísútbreiðslu sé best. Þess ber að geta að sá sem þetta skrifar hefur ekki mikla trú á slíkum spám – því allt of mikið getur gerst sem hefur áhrif á útbreiðsluna – en það er gaman að prófa og sjá spádómsgáfurnar.

Hér fyrir neðan er nýjasta spáin, sem gefin var út 22 júní síðastliðinn, en lesa má um spána hér – September Sea Ice Outlook: June Report

Spár um hafísútbreiðslu (mynd frá http://www.arcus.org/search/seaiceoutlook). Smelltu á myndina til að stækka.

Þess ber að geta að til að taka þátt í þessari spá, þá þurftu menn að senda inn tölur í lok maí, en síðan þá hefur margt gerst og bráðnun hafíssins komist á mikið skrið.

Flestir virðist spá því að útbreiðslan verði mitt á milli þess sem hún var árið 2008 (um 4,7 milljónir ferkílómetra*) og 2009 (5,4 milljónir ferkílómetra), en fyrir þá sem ekki vita þá var lægsta útbreiðsla sem mælst hefur árið 2007 (um 4,3 milljónir ferkílómetra).

Hér má sjá þróunina undanfarin ár:

Hafísútbreiðsla í september frá 1979-2009 sýnir stöðuga hnignun (mynd National Snow and Ice Data Center - NSIDC).

Til að setja hámarksútbreiðsluna undanfarna áratugi í sögulegt samhengi þá er hér línurit sem sýnir útbreiðsluna undanfarna hálfa öld eða svo – sumarútbreiðslan er neðsti hluti hverrar árstíðasveiflu á línuritinu:

Það er því greinilegt að það eru miklar sveiflur á milli ára og margt getur gerst á stuttum tíma.

Staðan þegar þetta er skrifað er sú að útbreiðslan í dag er minni en hún var metárið 2007, fyrir sömu dagsetningu:

Hafísútbreiðsla 24 júní 2010

Að auki er rúmmál hafíssins það lægsta sem hefur verið undanfarna áratugi, samkvæmt útreikningum Polar Science Center:

Rúmmál hafíss Norðurskautsins samanber útreikninga fyrir 18 júní 2010. Smella á mynd til að stækka.

Hvað gerist í framhaldinu er óljóst, vindar og skýjahula spila mikla rullu – auk hitastigs sjávar og lofts þar sem hafísinn er. Þykkt og dreifing ræður miklu og óteljandi þætti hægt að taka inn í spárnar.

Mín spá:

Ég ákvað lauslega áður en ég hóf að skrifa þessa færslu að líta eingöngu á eitt og miða mína spá út frá því – þ.e. leitninni undanfarna þrjá áratugi. Ef ég hefði gert það þá hefði spá mín orðið sú að lágmarksútbreiðsla eftir sumarbráðnun yrði sirka svipuð og í fyrra (5,4 milljónir ferkílómetra) – sem er svipað og margir af sérfræðingunum spá. Svo ákvað ég að taka inn í reikningin bráðnunina undanfarinn mánuð og þá staðreynd að útbreiðslan nú er minni en árið 2007 – sem var metárið. Einnig tek ég með í reikninginn að rúmmal hafíssins hefur hreinlega hríðminnkað undanfarna mánuði og því ætti að vera ljóst að það ætti að þurfa minna til að bráðnun nái sér á strik enn frekar. Auk þess erum við stödd núna á ári sem verður mögulega það heitasta frá upphafi mælinga.

Því spái ég hér með að lágmarksútbreiðsla hafíss verði sambærileg við metárið 2007 – þ.e. að það verði í kringum 4,3 milljónir ferkílómetra í lok sumarbráðnunar.

Ég vil að lokum skora á sem flesta til að skrifa spá sína hér fyrir neðan og rökstuðning. Allt í gamni að sjálfsögðu.

*Hér er miðað við tölur frá NSIDC og má búast við lokatölum í október í haust. Bíðum spennt.

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál