Eitt af því sem loftslagsvísindamenn skoða til að átta sig á mögulegum afleiðingum aukinnar losunar CO2 af mannavöldum, er hvaða áhrif samskonar styrkur CO2 hafði á loftslag til forna.
Nú hafa vísindamenn reiknað út fornhitastig fyrir Norðurskautið á Plíósen (tímabil fyrir 2,6-5,3 milljónum ára), en þá var styrkur CO2 sambærilegur og það er nú (um 390 ppm). Hnattrænn hiti er talin hafa verið um 2-3 °C hærri en nú, en þetta er tímabilið áður en ísöld hófst. Það sem kom í ljós er að hitastig á Norðurskautinu virðist hafa verið mun hærra en áður hefur verið áætlað. Vísindamennirnir rannsökuðu sirka 4 milljón ára gömul mósýni frá Ellesmere eyju, til að kanna hvert hitastigið var þegar mórinn myndaðist.
Notaðar voru þrjár viðurkenndar aðferðir við að meta hitastig til forna, þ.e. efnafræði snefilefna í mónum, samsætumælingar í trjáhringjum og gerð steingerðra planta í mónum. Niðurstaðan er sú að á þessum stað var að meðalhitastig ársins á þessum stað og tíma var um -0,5°C, sem er um 19°C heitara en í dag – mun meira en tölvulíkön hafa bent til.
Vísindamennirnir benda á að það gæti tekið aldir fyrir hitastig Norðurskautsins að ná samskonar hæðum í hita – en að þetta sé góð vísbending um hvert stefnir á Norðurskautinu við núverandi losun CO2 út í andrúmsloftið.
Heimildir og ítarefni
Greinina má finna hér: Ballantyne o.fl. 2010 – Significantly warmer Arctic surface temperatures during the Pliocene indicated by multiple independent proxies
Skemmtileg bloggfærsla þar sem meðal annars er fjallað um þessa rannsókn, má finna hér: Obsessing over ice cover
Tengdar færslur á loftslag.is
- Stormar fortíðar sýna vindasama framtíð
- CO2 – áhrifamesti stjórntakkinn
- Hafíslaust yfir sumartímann fyrir 3,3-3 milljón árum
- Spár um lágmarksútbreiðslu hafíss í ár
- Norðurskautsmögnunin
Hann er merkilegur þessi mikli munur á hitastigi dagsins í dag og á Plíósen og bendir til þess að Norður-Íshafið hafi hreint ekki verið neitt íshaf nema væntanlega yfir háveturinn. Mér finnst forvitnilegt að spá í hvort þá hafi köld djúpsjávarmyndun verið eins öflug hér nyrst í Norður-Atlantshafi og nú er. Kannski er samband þarna á milli og þess að á Plíósen hafi verið stöðugt El Nino ástand í Kyrrahafi, eins og þið hafið fjallað um, sem þýðir að enginn kaldur sjór hefur náð upp á yfirborð við miðbaug Kyrrahafsins eins og gerist þegar hið kalda La Nina ástand er ríkjandi.
Þetta eru góðar pælingar hjá þér Emil. Það er allavega ljóst að margt er á huldu enn varðandi Plíósen – en miðað við þessa rannsókn og fleiri, þá erum við að tala um miklar breytingar í loftslagi og veðrakerfum á næstu öldum, jafnvel þótt losun CO2 verði hætt í dag (nema ef mönnum tekst að finna góða leið til að lækka styrk CO2 í andrúmsloftinu aftur).
Er örugglega vitað hvort magn CO2 á Plíosen hafi verið orsök eða afleiðing hinna miklu hlýinda sem þá þá voru? Sennilega hefur það verið beggja blands, en eitthvað hefur orsakað þetta hlýindaskeið. Talað hefur verið um að sjór hefur getið flædd á milli Suður- og Norður-Ameríku og allt hringrásarkerfi sjávar verið öðruvísi en í dag.
Almennt er talað um það, að á Plíósen hafi hitastig farið smám saman lækkandi í kjölfar minnkandi styrks CO2 í andrúmsloftinu. Ég mæli með góðum fyrirlestri sem má finna hér á loftslag.is – CO2 – áhrifamesti stjórntakkinn en þar er þetta útskýrt að mig minnir. Höfum ætlað að fjalla um áhrif CO2 á fornloftslag hér lengi – látum örugglega verða af því við tækifæri.