Norðurskautið á Plíosen

Eitt af því sem loftslagsvísindamenn skoða til að átta sig á mögulegum afleiðingum aukinnar losunar CO2 af mannavöldum, er hvaða áhrif samskonar styrkur CO2 hafði á loftslag til forna. 

Líklegt er talið að svona myndir verði sjaldgæfar í framtíðinni.

Nú hafa vísindamenn reiknað út fornhitastig fyrir Norðurskautið á Plíósen (tímabil fyrir 2,6-5,3 milljónum ára), en þá var styrkur CO2 sambærilegur og það er nú (um 390 ppm). Hnattrænn hiti er talin hafa verið um 2-3 °C hærri en nú, en þetta er tímabilið áður en ísöld hófst. Það sem kom í ljós er að hitastig á Norðurskautinu virðist hafa verið mun hærra en áður hefur verið áætlað. Vísindamennirnir rannsökuðu sirka 4 milljón ára gömul mósýni frá Ellesmere eyju, til að kanna hvert hitastigið var þegar mórinn myndaðist. 

Notaðar voru þrjár viðurkenndar aðferðir við að meta hitastig til forna, þ.e. efnafræði snefilefna í mónum, samsætumælingar í trjáhringjum og gerð steingerðra planta í mónum.  Niðurstaðan er sú að á þessum stað var að meðalhitastig ársins á þessum stað og tíma var um -0,5°C, sem er um 19°C heitara en í dag – mun meira en tölvulíkön hafa bent til.

Vísindamennirnir benda á að það gæti tekið aldir fyrir hitastig Norðurskautsins að ná samskonar hæðum í hita – en að þetta sé góð vísbending um hvert stefnir á Norðurskautinu við núverandi losun CO2 út í andrúmsloftið.

Heimildir og ítarefni

Greinina má finna hér: Ballantyne o.fl. 2010 – Significantly warmer Arctic surface temperatures during the Pliocene indicated by multiple independent proxies

Skemmtileg bloggfærsla þar sem meðal annars er fjallað um þessa rannsókn, má finna hér: Obsessing over ice cover

Tengdar færslur á loftslag.is 

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál