Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

Óvenjulangar hitabylgjur og óvenjumikill hiti gæti orðið algengur í Bandaríkjunum á næstu 30 árum, samkvæmt nýrri rannsókn.

Við rannsóknina voru notaðar umfangsmiklar keyrslur á þriðja tug mismunandi loftslagslíkana, þar sem könnuð var sú sviðsmynd að losun CO2 í andrúmsloftinu myndi auka hnattrænt hitastig jarðar um 1°C frá 2010-2039 – sem þykir frekar líklegt samkvæmt IPCC. Höfundar greindu hitagögn fyrir Bandaríkin milli áranna 1951-1999. Markmið þeirra var að finna lengstu hitabylgjurnar og heitustu árstíðina fyrir seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þær greiningar voru keyrðar í loftslagslíkönum, meðal annars inn í RegCM3 sem er loftslagslíkan með mikilli upplausn og líkir eftir hitastigi frá degi til dags á litlu svæði (25×25 km).

Samkvæmt niðurstöðunni, þá munu hitabylgjur – svipaðar og þær lengstu á tímabilinu 1951-1999 – verða allt að fimm sinnum milli áranna 2020-2029 á hluta vesturstrandar og miðríkja Bandaríkjanna. Á milli 2030-2039 verða þær enn viðameiri og algengari.

Höfundar spá einnig mikilli aukningu í óvenjulegu árstíðabundnu hitastigi á áratugnum sem nú er hafinn, en hitastig sem jafnast á við heitustu árstíðina frá 1951-1999 gæti orðið allt að fjórum sinnum fram til ársins 2019 yfir stóran hluta Bandaríkjanna. Auk þess töldu höfundar líklegt að dagleg hitamet verði tvisvar sinnum algengari á fjórða áratug þessarar aldar en milli áranna 1980-1999.

Fyrir áratuginn 2030-2039, gæti stór hluti Bandaríkjanna orðið vitni að allavega fjórum árstíðum á áratug, sem verða jafn heit og heitasta árstíðin á tímabilinu 1951-1999. Í Utah, Colorado, Arizona og Nýju Mexíkó gætu mjög heitar árstíðir á áratug orðið allt að sjö.

Einn aðalhöfunda segir um niðurstöðuna: “Á næstu 30 árum, gætum við séð aukningu á tíðni hitabylgja líka þeirri sem gengur nú yfir Austurströnd Bandaríkjanna (byrjun júlí) eða líka þeirri sem reið yfir Evrópu árið 2003 og olli tugum þúsunda dauðsfalla. Hitabylgjur sem þær, valda einnig töluverðu álagi á ræktun korns, sojabauna, baðmullar og vínberja, sem getur valdið uppskerubrest.” Við þetta bætist að líklegt er talið að breytingar í úrkomu og raka jarðvegs eigi eftir að versna til muna þegar líður á öldina og muni það magna upp afleiðingar hitabylgjanna – þ.e. að meira verði um þurrka og skógarelda í náinni framtíð.

Miðað við fyrrnefnda sviðsmynd, yrði hnattrænn hiti eftir 30 ár um 2°C heitari en fyrir iðnbyltinguna. Margir hafa talið það ásættanlegt markmið til að komast hjá verstu afleiðingum hlýnunar Jarðar (sjá Tveggja gráðu markið). Samkvæmt þessari rannsókn þá munu svæði í Arizona, Uta, Colorado og Nýju Mexíko verða fyrir allavega 7 hitabylgjum á tímabilinu 2030-2039 – hitabylgjum jafn heitum og þær verstu frá árinu 1951-1999. Þar með telja höfundar að mörg svæði Bandaríkjanna muni verða fyrir alvarlegum afleiðingum hlýnunar Jarðar, þrátt fyrir að tveggja gráðu markið myndi nást.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr frétt af heimasíðu Stanford háskólans: Heat waves and extremely high temperatures could be commonplace in the U.S. by 2039, Stanford study finds

Greinin er óbirt: Diffenbaugh, N.S. and Ashfaq, M., Intensification of hot extremes in the United States, Geophysical Research Letters, doi:10.1029/2010GL043888, in press.

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál