Minni bráðnun jökulbreiðanna

Nýjar rannsóknir benda til þess að bráðnun jökulbreiðanna á Grænlandi og Vestur-Suðurskauti sé minni en áður hefur verið áætlað.

Grænlandsjökull við ströndina, myndin tengist ekki fréttinni.

Fylgst hefur verið með jökulbreiðunum með gervihnettinum GRACE frá árinu 2002, en hann nemur litlar breytingar í þyngdarsviði Jarðar. Þessar breytingar eru tengdar breytingum í massa Jarðar, þar með talið ís og vatn. Þegar ís bráðnar í jökulbreiðunum þá hefur það áhrif á þyngdarsviðið.

Með þetta að hliðarljósi, þá hafa fyrri áætlanir á bráðnun Grænlandsjökuls verið um 230 gígatonn á ári – sem samsvarar um 0,75 mm hækkun í sjávarstöðu á ári. Fyrir Vestur-Suðurskautið voru fyrri tölur um 132 gígatonn á ári. Samkvæmt nýju mati, þá virðist sem þessar fyrri niðurstöður hafi ekki notað rétt mat á fargbreytingum við bráðnun jökulbreiðanna (e. glacial isostatic adjustment), en við bráðnun jökulbreiðanna þá lyftist landið upp vegna fargléttunar. Það mat hefur töluverð áhrif á heildarniðurstöðuna.

Til að styrkja mat á fargbreytingum lands við bráðnun jökulbreiðanna, þá notuðu vísindamenn nákvæmar GPS mælingar á landi og þrýstingsmæla á sjávarbotni og tengdu það við fyrrnefnd gögn frá GRACE gervihnettinum. Með því móti fengu vísindamennirnir betra mat á breytingum í jarðskorpunni á Grænlandi og Vestur-Suðurskautinu og niðurstaðan er sú að bráðnun fyrrnefndra jökulbreiða er um helmingur á við fyrri áætlanir. Það hefur einnig áhrif á þátt jökulbreiðanna í sjávarstöðubreytingum undanfarinna ára.

Hvað þetta þýðir á eftir að koma í ljós, en ef rétt reynist þá eru jökulbreiðurnar ekki eins viðkvæmar fyrir hlýnun og áður hefur verið talið. Eitt er þó víst, að vísindamenn eiga eftir að halda áfram að fínstilla tölurnar um hver bráðnun jökulbreiðanna er í raun og veru. Enn sem komið er bendir þó flest til að bráðnun jökulbreiðanna haldi áfram – þótt menn geti andað eilítið léttar eftir þessi tíðindi.

Heimildir og ítarefni

Greinin birtist í Nature Geoscience og er eftir Wu o.fl. 2010 (ágrip): Simultaneous estimation of global present-day water transport and glacial isostatic adjustment

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál