Það er eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig rökfærslur þeirra sem kenna sjálfa sig við “efasemdir”, varðandi hlýnun jarðar af mannavöldum, breyta endalaust andmælunum og rökfærslum sínum. Ein afleiðing þess, er að þeir komast oft í mótsögn við sjálfa sig. Einn daginn er röksemdarfærslan sú, að núverandi hlýnun sé vegna sólarinnar, næst að hlýnun sé vegna “náttúrulegra sveiflna”, þar næst að plánetan sé að kólna og daginn eftir koma svo kannski rök um að það sé svo mikil óvissa í hitastigsmælingum að við vitum hvort sem er ekki, hvert hnattrænt hitastig er. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því mikla magni af mýtum sem hægt er að finna t.d. hér á loftslag.is.
Það ætti að vera nokkuð augljóst að rökfærslur “efasemdarmanna” eins og þær koma fram hér að ofan eru í mótsögn hvorar við aðrar, en samt eru þau oft sett fram af sömu aðilum. Sem dæmi má nefna alþekktan “efasemdarmann” að nafni Fred Singer sem færði fyrir því rök árið 2003 að plánetan væri ekki að hlýna, en það kom þó ekki í veg fyrir að hann færði rök fyrir því, í bók sem hann gaf út árið 2007, að plánetan væri að hlýna vegna náttúrulegrar sveiflu sem tekur 1.500 ár. Það er ekki hægt að hafa þetta á báða vegu!
Það virðist vera merki um styrk kenningarinnar, um hækkun hitastigs af völdum losunar manna á CO2, að “efasemdarmennirnir” geta ekki komið sér saman (ekki einu sinni innra með sjálfum sér persónulega) hver andmælin eiga að vera. Ef það væri raunverulegur veikleiki í kenningunni, þá ættu “efasemdarmenn” að geta bent á þann veikleika og komið með mótsagnarlaus rök. Þeir virðast frekar ætla að notast við núverandi aðferðafræði sína, sem er að fleygja öllu mögulegu fram sem rökum, í óljósri von um að eitthvað af þeim haldi vatni. Það myndi auðvelda verulega allar umræður við “efasemdarmenn” ef þeir myndu ákveða hver andmæli sín varðandi kenninguna væru, í stað núverandi ástands þar sem rökfærsla dagsins virðist ráða för, alveg óháð því hver rök gærdagsins voru og hugsanlegra mótsagna í rökfærslunum.
Svo annað dæmi sé tekið, þá er ekki hægt að færa rök fyrir því hvoru tveggja, að sólin valdi hnattrænni hlýnun og að jafnvægissvörun loftslags sé lág. Útgeislun sólar hefur aukist um aðeins u.þ.b. 0,1% á síðastliðinni öld (og svo minnkað eitthvað á síðustu áratugum aftur) og aðeins er hægt að útskýra miklar hitastigsbreytingar vegna hennar ef jafnvægissörun loftslags er ekki lág, því jafnvægisvörunin er einskonar margföldunarstuðull, ef svo má að orði komast. Þannig að eina aðferðin sem gengur upp ef einhver vill halda því fram að áhrif sólarinnar séu mikil er sú að jafnvægissvörunin sé há. Það er einfaldlega ekki hægt að halda hvorutveggja fram! Ef jafnvægissvörun loftslags er lág, á það ekki aðeins við varðandi gróðurhúsalofttegundir, heldur væri hún líka lág varðandi útgeislun sólar, varðandi breytingar á sporbaug jarðar, varðandi áhrif eldgosa o.s.frv. Ef jafnvægissvörunin er lág, þá gæti sólin ekki hafa valdið meira en u.þ.b. 0,1°C af þeirri 0,8°C hitastigsbreytingu sem orðið hefur frá byrjun síðustu aldar. Að sama skapi þá eru rökin um lága jafnvægissvörun í mótsögn við þau rök að loftslag hafi breyst mikið áður, sjá t.d. mýtu um miðaldahlýnunina. Sem sagt, ef jafnvægissvörun loftslags er of lág, þá hefði það komið í veg fyrir meiri háttar loftslagsbreytingar alveg sama hver orsakavaldurinn er talinn vera, hvort sem það er af mannavöldum, vegna sólarinnar eða vegna annarra náttúrulegra þátta.
Ef “efasemdarmenn” vilja eða ætla að færa rök fyrir því að hlýnunin sé af völdum náttúrulegra sveiflna, þá væri gott ráð fyrir þá að finna hvaða náttúrulegi þáttur á að vera orsakavaldur og rannsaka þar á eftir málið gaumgæfilega. Þeir þurfa einnig að vera alveg vissir um að það sé vísindalegur grunnur fyrir rökfærslunni. Til dæmis, þá er ekki hægt að færa rök fyrir því að hlýnunin sé vegna 1.500 ára náttúrulegrar sveiflu hitastigs, þegar plánetan var ekki að hlýna fyrir 1.500 árum síðan! Það er því einnig mikilvægt, að komast ekki í mótsögn við eigin rök með því að fullyrða síðan að plánetan sé ekki að hlýna daginn eftir. Þess konar hringavitleysur er algengar á bloggsíðu Anthony Watts (sem einhverjir lesendur þekkja væntanlega), sem gekk meðal annars í gegnum eftirfarandi hálfs árs mótsagnartímabil:
- Júní 2009: hnattræn hlýnun var sögð vera vegna sólarinnar
- Júlí 2009: þá kom í ljós að hnattræn hlýnun var vegna áratugasveiflna í hafinu (El Nino)
- September 2009: aftur var það sólin
- Desember 2009: nei bíðið nú við, nú kom í ljós að sökudólgurinn er CFC
- Janúar 2010: já sæll, við erum aftur komin að El Nino sem aðal orsakavaldi
Ofantalið eru hlutir sem haldið er á lofti á síðu Watts, þegar hann er ekki of upptekinn við að færa rök fyrir því að mælingar á hitastigi jarðar séu það ómarktækar að við vitum ekki einu sinni hvort að jörðin sé að hlýna eða þá þegar hann dregur þessi gögn fram sem eiga að sýna fram á kólnun.
En þangað til “efasemdarmenn” verða samkvæmir sjálfum sér í rökfærslum sínum, þá mun verða hægt að finna pöruð mótsagnarkennd rök “efasemdarmanna” á heimasíðu Skeptical Science og þannig er reynt að fá smá skipulag í óreiðuna – listinn er reyndar að verða óþægilega langur, vonandi verður reynt að flokka þetta enn betur í náinni framtíð.
Að lokum má svo skoða orðið sem ég hef sett innan gæsalappa í færslunni, en hvers vegna ætli það sé nú? Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:
- Samsæriskenningar
- Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
- Fals sérfræðingar
- Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
- Almennar rökleysur
Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Það er erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, mótsagnirnar o.s.frv. koma aftur og aftur upp í umræðunni. Rökleysur og mótsagnir þar sem fullyrðingar eru hugsaðar sem hluti þess að henda eins mörgum fullyrðingum fram og vona að eitthvað standist nánari skoðun og þetta er gert að því er virðist án gagnrýnnar hugsunar. Innantómt málskrúð, mótsagnir og aðrar rökleysur sem oft einkenna umræðuna, virðist því til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja. Þ.a.l. finnst mér það algerlega óviðeigandi að kalla þá sem stunda það sem lýst er hér að ofan efasemdarmenn, enda eru efasemdir og gagnrýnin hugsun ein bestu tæki sem sérhver vísindamaður getur haft í farteskinu við störf sín. Alvöru efasemdarmenn eru tilbúnir að móttaka rök og skipta um skoðun ef gögnin sýna fram á nýja nálgun, en þeir sem beita nálgun afneitunar er nokk sama um rökin og komast meira að segja í mótsögn við sjálfa sig ef þeim hentar eins og dæmin sýna.
Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við athugun á vísindum:
- Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
- Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverjir sem vinna við fræðin)
- Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
- Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
- Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun
Það er ósk mín að loftslagsumræðan komist á hærra plan í framtíðinni, þar sem við skoðum loftslagsvísindin á málefnalegan hátt og beitum til þess gagnrýnni hugsun og sanngjörnum heimildum byggðum á mælingum og rannsóknum vísindamanna en ekki mótsagnakenndum upphrópunum þeirra sem afneita vísindunum.
Heimildir:
- The contradictory nature of global warming skepticism
- Global Warming Skeptic Contradictions (paraður listi yfir mótsagnir)
Tengt efni á loftslag.is:
- Rökleysur loftslagsumræðunnar
- Helstu sönnunargögn
- Mýtusíðan
- Mýta – Það var hlýrra á miðöldum
- Mýta – Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar
- Mýta – Jafnvægissvörun loftslags er lág
Já, þetta er magnað mál hreint út sagt. Sannleikurinn virðist vera það sem maður sjálfur kýs að trúa í þessu máli. Það er hægt að trúa því sem hér er skrifað, en að sama skapi er flest það sem þessi síða notar til að rökstyðja sinn boðskap hrakið í spað á öðrum netsíðum.
Maður getur ekki annað en spurt sig, úr því að þetta á allt að vera satt, afhverju þurftu “sérfræðingar” við East Anglia háskólann í Englandi að aðlaga mæligögn og sleppa öðrum óheppilegum til þess að fá rétta útkomu í “sinn” sannleika?
Ég held að flestir geti verið sammála um að það er eitthvað að breytast í veðurfari heimsins. En hvort það er af mannavöldum eða ekki veit ég ekkert um. Það eina sem ég veit er það að þið vitið ekkert um það heldur.
Jæja, Heimir geturðu bent á einhverja síðu eða jafnvel það sem betra er vísindalegar heimildir sem styðja það að það sem við skrifum (eftir vel skjalfestum heimildum) sé “hrakið í spað” einhversstaðar..?
Það væri fróðlegt að fá eitthvað meira um það, í stað innihaldslausra fullyrðinga um eitthvað sem ekki virðist standast frekari skoðun. Þú virðist heldur ekki skilja mikið um hvernig sérfræðingar við East Anglia háskólann í Englandi vinna gögn sín eða hvað það mál sem þú ert að vísa í fjallaði um…sjá nánar climategate.
Þess ber að geta að við ræðum þessi mál út frá því sem vísindin hafa um málið að segja.
Sæll vertu Sveinn
Til þess að svara spurningu þinni þess efnis hvort ég geti bent á einhverja síðu sem er að þínu mati nógu vísindaleg til þess að þú takir hana trúanlega, þá hlýtur svarið að vera nei, þar sem ég les það úr orðum þínum að þú munt aldrei taka neitt trúanlegt sem ekki er stutt “vísindalegum” rökum.
En að sama skapi minni ég þig á að fyrir nokkrum sekúndum í jarðvísindalegri sögu þá þóttust menn færa fyrir því vísindaleg rök að jörðin væri flöt. Sekúndubrotum síðar sannfærðust menn um annað, en færðu um leið vísindaleg rök fyrir því að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Í seinni tíð hafa stjarneðlisfræðingar sveiflast pólanna á milli (vegna hinna ýmisu vísindalegu raka sem stangast á við hver önnur) hvort svarthol séu til eða ekki. Veltur á því hvort óreiðukenningin velti kenningunni um hinn svokallaða “singularity” úr sessi eður ei. Það hefur síðan orðið til þess að á síðustu 30-40 árum eða svo hafa menn annaðhvort trúað eða ekki trúað á mikla hvells kenninguna. Allt stutt eða fellt með “vísindalegum rökum”
Ég held að það færi þér betur að tala um líkindi en ekki staðreyndir, þegar þú notar vísindaleg rök til þess að styðja þitt mál.
Það eru líka “vel skjalfestar heimildir” sem segja okkur að John F. Kennedy hafi verið skotinn af Lee Harvey Oswald og að kúlan sem drap hann hafi tekið eina eða tvær 180°beygjur á leiðinni (single bullet theory). Einnig var mér kennt í barnaskóla að það hafi verið (svo gott sem) einn vondur maður í þýskalandi sem drap 6 milljón gyðinga, en það er ekki þarmeð sagt að ég sé svo barnalegur að trúa því.
En gangi þér sem best í því að sannfæra aðra um þína skoðun.
Kveðja
Heimir Arnar Birgisson
Sæll Heimir og takk fyrir málefnalega athugasemd
Fyrst langar mig að taka fram að ég bað um að fá að vita hvaða síður þetta væru eða jafnvel rök studd vísindalegum gögnum. En hvað um það, ég mun skoða þær síður sem þú telur að hafi “hakkað okkar rök í spað” með gagnrýnum huga (ef það kemur upp á borðið), tel mig þó hafa séð flest í þeim efnum, sjá m.a. mýtusíðuna.
Ég veit nú ekki hvaða vísindalegu rök þú ert að tala um varðandi það að jörðin væri flöt, það voru jú vísindaleg rök sem hröktu þau “sannindi” (sem alls ekki var allsráðandi skoðun meðal allra). Það voru líka vísindaleg rök sem felldu hugmyndir um jarðmiðjukenningu, þegar Gallileó m.a. gerði mælingar sem sýndu fram á annað (mælingar á vísindalegum grunni). Þau vísindalegu gögn komu þó ekki í veg fyrir að rökum hans var hafnað á trúarlegum, hugmyndafræðilegum, persónulegum og öðrum þeim “grundvelli” sem hafa lítið með vísindi að gera. Í sambandi við svartholin, þá eru taldar nokkuð góðar líkur (við erum að tala um líkur en ekki 100% vissu) á að þau séu til, væntanlega hægt að finna góð rök um annað líka – en það er þó ekki mitt svið.
Þú hefur væntanlega ekki kynnt þér loftslagsfræðin ýkja vel, ef þú telur að við séum að ræða þær sem staðreyndir. Það er rætt um líkindi, óvissu og annað. En þó ber þess að geta að það eru mjög gott samræmi á milli rannsókna og mælinga í þessum fræðum, þannig að við getum orðið sagt með töluverðri vissu (s.s. lítil óvissa, en ekki 100% staðreynd) að það eru tengsl á milli hitastigs og styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Í sambandi við afleiðingar þess að hitastig hækki, þá er einnig verið að tala um líkur á því að ákveðin atburðarrás geti orðið. T.d. sýna rannsóknir að hitstig geti hækkað á bilinu 2°-4,5°C við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu. Það má orða það svo að flest öll líkön og gögn, benda til lágmarks hækkun hitastigs um 2°C við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu, þar sem líklegasta talan er um 3°C og möguleiki á allt að 4,5°C hækkun (jafnvel meiri). Þarna er m.a. verið að ræða líkur, það sama má líka segja um líkur þess um hversu mikið sjávarstaða hækki o.s.frv.
Takk fyrir það, ég er þó ekki að reyna sannfæra nokkurn um “mína skoðun” – ég segi einfaldlega frá því sem rannsóknir og mælingar vísindamanna sýna okkur. Stundum tökum við líka fyrir þær mýtur sem eru uppi varðandi þessi vísindi…og það ósamræmi og mótsagnir sem sjá má hjá þeim sem kenna sig við “efasemdir” – sjá færsluna hér að ofan sem dæmi.