Fellibyljatímabilið á fullum snúning – tveir 4. stigs fellibylir í gangi

Nú er fellibyljatímabilið komið á fullan snúning og í augnablikinu eru Igor, Júlía og Karl (sem er 11. nafngreindi stormurinn og varð til eftir að byrjað var að skrifa þessa færslu) í gangi. Igor og Júlía hafa náð því að verða 4. stigs fellibylir, en sem betur fer virðast leiðir þeirra ætla að liggja yfir opnu hafi. Það er mjög sjaldgæft að tveir 4. stigs fellibylir séu í gangi á sama tíma.

En hvernig lítur fellibyljatímabilið út miðað við fellibyljaspá NOAA frá því í vor? Til að skoða það skulum við líta á myndina hér undir:

Þess má geta að þegar þessi mynd var gerð, þá var Júlía ekki orðin að stórum fellibyl og Karl var heldur ekki kominn til. Eins og sjá má á þessari mynd þá eru komnir 10 (11 með Karli) nafngreindir stormar, þar af 5 fellibylir og þar af eru 3 stórir fellibylir (4 með Júlíu). Í meðalári eru komnir 6 nafngreindir stormar á þessum tíma, þar af 3 fellibylir og einn stór fellibylur. Það má því segja að árið í ár sé hingað til virkara en í meðalári. Hvort það heldur áfram er ekki gott að segja, en samkvæmt spá NOAA þá bjuggust þeir við 14-20 nafngreindum stormum í ár (sem er yfir meðaltali). Þar af 8-12 fellibylir og 4-6 stórir fellibylir (3., 4. og 5. stigs fellibylir). Það er því ekki langt í að tölurnar fari allar að skríða inn á neðri mörk þeirrar spár. Venjulega er talað um að fellibyljatímabilið nái frá 1. júní til 30. nóvember og virkasti tíminn er talinn vera í ágúst, september og október. Það er því nokkuð eftir af tímabilinu enn þá og margt getur því gerst enn þá.

Á myndinni hér að ofan má sjá spá um hugsanlega braut fyrir bæði Igor (vestar) og Júlíu (austar).

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.