Loftslag.is á afmæli – eitt ár liðið

Það er ótrúlegt til þess að hugsa fyrir okkur á ritstjórn að nú er komið eitt ár síðan loftslag.is fór í loftið. Okkur hefur fundist tíminn líða full geyst, því ekki hefur okkur gefist færi á að skrifa um nærri því allt það efni sem við hefðum viljað gera skil. Ein helsta ástæða þess er sú að síðan er í raun áhugamál okkar og ekki endilega alltaf í forgangi hvað varðar tíma (vinna, skóli og fjölskylda hefur ávalt haft forgang eins og gefur að skilja). Til upprifjunar eru opnunarpistlar okkar listaðir í ítarefninu, ef einhver vill rifja þá upp 🙂

Þrátt fyrir takmarkaðan tíma, þá er ýmislegt sem við höfum áorkað á þessu eina ári og teljum við okkur hafa staðið okkur ágætlega í því að kynna fyrir lesendum ýmis atriði sem skipta máli varðandi loftslagsmál. Einnig teljum við okkur hafa lært mikið um efnið og ekki síst á helstu tilsvör lesenda varðandi loftslagsmál. Fyrir nýja lesendur og þá sem hafa rétt litið yfir efni síðunnar á hundavaði, þá er rétt að benda á Leiðakerfi síðunnar – en eins og sjá má þar, þá er gnótt af efni á síðunni og seint full lesið allt það sem hér stendur.

Frá því loftslag.is hóf göngu sína, þá hefur magn CO2 í andrúmsloftinu haldið áfram að aukast jafnt og þétt og ekki er útlit fyrir breytingu þar á samanber niðurstöðu COP15 í lok síðasta árs, en það virðist ætla að reynast flókið að gera Samninga þjóða á milli um minni losun CO2. Hitastig heldur áfram að aukast (Lofthiti og Sjávarhiti), þrátt fyrir minni Sólvirkni. Náttúrulegar sveiflur loftslags hafa haldið sýnu striki samanber t.d. El Nino og La Nina. Á sama tíma koma ýmsar fréttir af Afleiðingum þessarar hitaaukningar, auk Nýrra rannsókna og er það ekki allt dans á rósum sem þar kemur fram. Hafís á Norðurskautinu minnkar, Jöklar um allan heim bráðna og þar á meðal stóru jökulbreiðurnar á Grænlandi og Suðurskautinu, en samfara aukinni hlýnun og bráðnun jökla, þá hækkar einnig Sjávarstaða. Hlýnunin hefur því margvísleg áhrif á  Lífríki og Vistkerfi Jarðar m.a. hér á Íslandi. Aðrar afleiðingar aukinnar losunnar manna á CO2 er svokölluð Súrnun sjávar – en það er oft kallað hitt vandamálið og er síður en svo vægt vandamál.

Þrátt fyrir að út komi Greinar og Skýrslur og haldnar séu Ráðstefnur og Fyrirlestrar sem styrkja vísindamenn í því að loftslag Jarðar sé að breytast vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, þá eru sífellt í gangi Mýtur meðal þeirra sem að Afneita því sem vísindamenn segja. Ýmis “Heit málefni” koma reglulega fram þar sem reynt er að bera brygður á það sem loftslagsvísindamenn segja, en oftar en ekki er lítill fótur í þeim – svo reyndist einnig raunin hvað varðar Climategate sem margir kannast kannski við. Flestar af tilraunum “efasemdamanna til að draga Umræðuna á dreif virðast fyrst og fremst miða að því að halda í horfinu í stað þess að vinna að Lausnum til að koma í veg fyrir þá óvænlegu Framtíðarsýn sem vísindamenn telja að geti átt sér stað.

En það er engin ástæða til að örvænta, við vonumst til að geta komið upplýsingum varðandi þessi mál og skrifað Hugleiðingar um Lausnir sem koma fram í umræðunni. Nýlega byrjuðum við að setja inn Mánaðargögn þar sem að við skoðum m.a. gögn frá NASA og NOAA varðandi Hitastig og Hafís. Fastir liðir á síðunni hafa m.a. verið Myndbönd, m.a. frá þeim félögunum Greenman3610 og Potholer54 ásamt fleira efni. Með því að fara í samstarf við Skeptical Science höfum við fengið aðgang að enn meira efni, sem m.a. var gott innlegg í mýtusafnið okkar.

Við viljum einnig nota tækifærið og þakka gestapistlahöfundum sérstaklega fyrir fróðlega Gestapistla á þessu fyrsta ári. Við vonumst til þess að fá enn fleiri í framtíðinni. Við höldum því áfram inn í nýtt tímabil sem vonandi mun innihalda mörg Blogg, kannski eitthvað um Fornloftslag og hugsanlega eilítið Léttmeti einnig. Loftslag.is er í stöðugri þróun og vonumst við til að geta kynnt nýjungar til sögunnar í framtíðinni.

Við viljum enda á að þakka hinum fjölmörgu lesendum fyrir sinn þátt – Takk fyrir okkur!

Ítarefni á loftslag.is, frá opnuninni fyrir ári síðan:

Athugasemdir

ummæli

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is