RIFF – Nýr heimur – Hverfult haf

Reykjavík International Film Festival (RIFF) hófst í gærkvöldi með pompi og prakt. Af heimasíðu RIFF kemur eftirfarandi fram um hátíðina í ár:

Á hátíðinni í ár verða um 140 kvikmyndir sýndar, og koma þær myndir frá 29 löndum. Alls verður um u.þ.b. 350 kvikmyndasýningar að ræða á þeim 11 dögum sem hátíðin fer fram. Þá verða fimm málþing haldin í tengslum við hátíðina, sjö masterklassar og umræður, fernir tónleikar og átján sérviðburðir af ýmsu tagi.

Myndunum er skipt niður í 14 mismunandi flokka, en þar ber keppnisflokkinn Vitranir hæst. Þar keppa 12 myndir um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllta lundann. Einn flokkur á hátíðinni er nýr af nálinni, en sá nefnist Betri heimur og í honum eru sýndar myndir sem fjalla um mannréttindamál með einum eða öðrum hætti.

Við í ritstjórn höfum sérstakan áhuga á einum flokki á hátíðinni sem nefnist Nýr heimur (e. World Changes). Það er mikil gróska í kvikmyndum sem fjalla um umhverfismál á einhvern hátt. En núna er þriðja árið í röð sem RIFF veitir þessum flokki sérstaka athygli og munu verða veitt verðlaun fyrir bestu myndina í flokknum. Ein kvikmynd í þessum flokki er okkur í ritstjórn ofarlega í huga og nefnist hún Hverfult haf (e. A Sea Change) og fjallar um súrnun sjávar. Í dagskránni sem nálgast má á heimasíðu RIFF (þessi flokkur er á bls. 54-56) má lesa eftirfarandi um myndina:

Ímyndið ykkur veröld án fiska. A Sea Change er fyrsta heimildarmyndin sem gerð er um hækkun sýrustigs hafsins, sem kalla má hina hliðina á hnattrænni hlýnun. Í myndinni ferðast Sven Huseby um heiminn og leitar svara við því hvernig megi hægja á eða stöðva þessa ógn. Þess á milli heimsækir hann barnabarn sem erfir höf framtíðarinnar.

Hér undir má sjá stutt myndbrot úr myndinni.

Myndin verður sýnd í fjögur skipti á eftirtöldum tímum og stöðum:

25.9…Hafnarhúsið…kl. 18:00
27.9…Bíó Paradís 3..kl. 18:00
27.9…Háskólabíó 2..kl. 22:00
28.9…Hafnarhúsið…kl. 20:00

Aðrar myndir í flokknum Nýr heimur, eru Borgin yfir hafinu (e. Oil Rocks – City Above the Sea), Blóð rósarinnar (e. The Blood of the Rose), Plasthöf (e. The Mermaid’s Tears: Oceans of Plastic), Verndarar Jarðar (Earth Keepers) og Vindar sandsins, konur grjótsins (e. Winds of Sand, Women of Rock). Nánari upplýsingar um sýningartíma og annað á heimasíðu RIFF, dagskráin síður 54-56. Nálgast má miða á hátíðina í Eymundsson ásamt á sýningarstöðum.

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.