Chomsky fyrirlestur – Loftslagsbreytingar af mannavöldum: Ákvarðanir til framtíðar

Ég var að koma í hús frá því að hafa tekið þátt í pallborðsumræðum og hlýtt á fyrirlestur Noam Chomsky í Háskólabíói. Það var fullt út úr dyrum, enda er mikill fengur að fá Noam Chomsky til að flytja fyrirlestur, þó svo það sé gert með hjálp nútímatækni þar sem hann var aðeins viðstaddur á tjaldinu í  bíóinu. Það kom fram í umræðunum að hann er væntanlegur til Íslands að ári, sem hlýtur að teljast fréttnæmt. Chomsky kom með fróðlegar vangaveltur, sem byggja á gagnrýnni hugsun, í umræðuna um efnahags- og þjóðfélagsmál, en einnig komu vel fram hans vangaveltur varðandi loftslags- og umhverfismál. Við vorum fjögur sem tókum þátt í pallborðsumræðunum og voru hin þrjú, Guðni Elísson, Irma Erlingsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir og þótti mér þeirra nálganir fróðlegar, alltaf fróðlegt að hlusta á gagnrýna umræðu. Pistillinn minn sem ég flutti á pallborðinu er hér undir fyrir þá sem vilja lesa hann. Chomsky virtist eftir hans nálgun að dæma, að einhverju leiti vera á sömu línu og ég sjálfur, sem var mjög fróðlegt fyrir mig og okkur hér að loftslag.is. Hann talaði um afneitun á vísindin almennt, einnig ræddi hann þá hættu sem er fólgin í því að gera ekkert varðandi umhverfis- og loftslagsmál, þar sem hann nefndi m.a. ytri þætti (e. externalities) sem eru þættir sem ekki eru taldir með þegar rætt er um kostnað varðandi hluti eins og losun CO2. Losun CO2 er ekki verðlögð beint en hefur þó kostnað í för með sér fyrir alla. En nóg um það í bili, hér undir má lesa pistilinn sem ég flutti, ég hef bætti tenglum með efni sem tengist pistlinum í lokinn á færslunni fyrir þá sem vilja kynna sér málinn enn frekar.

– – –

Loftslagsbreytingar af mannavöldum
– Ákvarðanir til framtíðar

Ágætu gestir

Þegar rætt er um hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingar er gott að líta á stóru myndina. Hvað vitum við með nokkurri vissu?

Í fyrsta lagi, þá sýna mælingar að Jörðin er að hlýna. Í sumar mældist t.d. hlýjasta 12 mánaða tímabil frá því mælingar hófust og það stefnir jafnvel í að árið í heild verði eitt af þeim hlýjustu frá upphafi mælinga. Þessi aukna hlýnun sést m.a. í beinum mælingum á hitastigi um allan heim, svo og í ýmsum náttúrulegum þáttum, samanber t.d. hop jökla, bráðnun hafíss á Norðurskautinu, vorkoman er almennt fyrr á ferð og mælingar sýna fram á hækkandi sjávarstöðu.

Í öðru lagi, þá er ljóst að aukinn styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis. Þessi aukni styrkur hefur verið mældur með beinum mælingum síðan 1958, og einnig með óbeinum mælingum enn lengra aftur í tímann, sem benda til þess að styrkur koldíoxíðs hafi ekki verið eins hár og núna í allavega 650 þúsund ár. Rannsóknir benda til að aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hnattrænt hitastig og þar með loftslag.

Það þykir því nokkuð ljóst að hlýnunin heldur áfram miðað við núverandi losun koldíoxíðs. Og að afleiðingarnar geta mögulega orðið alvarlegar, það er allavega mat flestra vísindamanna. Hversu alvarlegar er óvissa um, en t.d. má áætla að hækkandi sjávarstaða sé ekkert gamanmál fyrir stórar borgir sem staðsettar eru við sjávarmál. Það er væntanlega hægt að finna einhverja jákvæða punkta, sérstaklega kannski fyrir kaldari lönd eins og Ísland, en þessi jákvæðu áhrif virðast því miður ekki vega upp neikvæðu áhrifin. Það má því segja að nettóútkoman fyrir heiminn líti kannski ekki allt of vel út, þó vissulega sé óvissa um einstök atriði.

Reglulega koma upp mótrök þeirra sem vilja sjálfir kalla sig „efasemdarmenn“ um hnattræna hlýnun og hlut manna í því. Þeirra rök eru allt frá því að hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingar hljóti að vera af völdum sólarinnar eða annarra náttúrulegra sveiflna – út í það að efast um mælingar á hitastigi, og jafnvel að segja að það sé að kólna. Á sama tíma og þessir sjálfskipuðu „efasemdarmenn“ gagnrýna mikið allt tal um hugsanlegar afleiðingar sem hræðsluáróður, þá veigra sumir þeirra sér ekki við að lýsa því yfir að Sólin sé að fara í mikin dvala með hugsanlegri ísöld innan fárra áratuga…! Rök þessar sjálfskipuðu „efasemdarmanna“ (eins mótsagnarkennd og þau geta stundum verið) eiga í þeirra augum að útiloka allar þær rannsóknir sem benda til annars, kannski í þeirri von, að þá séum við bara stikkfrí.

En eru einhverjar stórar óleystar spurningar eða er nógu mikil óvissa til að stóra myndin falli saman..? ekki er svo að mínu mati. Stóra myndin lítur þannig út í dag, að Jörðin er að hlýna, losun mannkyns á koldíoxíð er talin vera aðal orsakavaldurinn og það er nokkur hætta fólgin í því að halda áfram á sömu braut, þó svo að það sé nokkur óvissa um atburðarrás framtíðar. Hitt er svo annað mál að sú óvissa sem hugsanlega er fyrir hendi er ekki afsökun fyrir aðgerðarleysi. Í raun má segja að því stærri sem óvissan er, því meiri eru líkurnar á því að áhættusöm atburðarrás geti orðið raunveruleiki framtíðarinnar. Óvissan er nefnilega gædd þeirri vissu að vera í báðar áttir og það er ekki nóg að skoða aðeins neðri hluta óvissunnar. Við þurfum að sjálfsögðu að vinna að því með rannsóknum að minnka óvissuna varðandi framtíðina, en það er líka mjög þýðingarmikið að viðurkenna þá þekkingu sem er til staðar og hvaða spurningum hefur verið svarað á sannfærandi hátt.

Því fyrr sem við tökum á þessum málum, þeim mun einfaldara verður að leysa hugsanleg vandamál sem kunna að koma upp. En það virðist vera ákvarðanafælni í gangi og það á heimsvísu. Þeirri ákvarðanafælni er m.a. viðhaldið af þeim sem vilja ekki taka mark á vísindunum og/eða þeim sem eru bara hræddir við að taka ákvarðanir varðandi þessi mál, vegna þess að ákvörðunum fylgir ábyrgð og ákvarðanir geta haft afleiðingar sem geta t.d. skollið á innan kjörtímabila og ekki er alltaf vilji til þess. Okkur sem almenningi er hætt við að vilja ekki heyra slæmu fréttirnar, það má kannski segja að Hrunið sé einskonar afsprengi þess. Það vildi engin vera fyrstur með slæmu fréttirnar, kannski var bara betra að  vona hið besta. Ef einhver minntist á sprungurnar í lakkinu, þá var hinn sami kallaður furðufugl eða svartsýnispési. En eftir á, þá segja ýmsir, að engar viðvaranir hafi sést eða að engin hafi minnst á veiku hliðarnar, þegar málið var að vísbendingarnar voru til staðar, en samt voru þær hunsaðar. Viljum við það sama varðandi loftslagsmálin…? Vísbendingarnar eru til staðar og þær hlaðast upp…en viljum við opna augun fyrir þeim? Það er kannski sú samviskuspurning sem við þurfum að spyrja okkur sjálf til framtíðar. Gagnrýnin hugsun er sú leið sem við eigum að velja fram á við, bæði varðandi loftslagsmál og efnahagsmál. Þó svo ákvarðanirnar virðist erfiðar núna, þá er best að reyna að hugsa út fyrir kjörtímabil og skammtímahagsmuni þegar við lítum til framtíðar, enda getur verið mikið í húfi.

Þess má geta að við tökum við spurningum hér á eftir, sumum þeirra sem verður beint til mín munum við velja að svara á loftslag.is á næstu dögum, öðrum skal ég reyna að svara hér og nú. Ykkur er einnig velkomið að senda spurningar eða koma með þær á loftslag.is, við svörum gjarnan spurningum tengdum loftslagsfræðunum – þessi pistill fer einnig í loftið á eftir.

Takk fyrir.

– – –

Þess má geta að ekki vannst tími til mikillar umræðu, en við getum samt sem áður tekið við spurningum hér og reynt að svara þeim á næstu dögum. Mig langar einnig að nota tækifærið og benda á leiðakerfið fyrir nýja lesendur.

Ýmsar tengdar færslur á loftslag.is:

Að lokum er hér Heimasíða Noam Chomsky

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.