Áreiðanleiki mælinga á yfirborðshita Jarðar

Sumir telja að mælingar á hitastigi við yfirborð Jarðar séu óáreiðanlegar, þá sérstaklega vegna lélegra staðsetninga mælitækja og er umræða um það nokkuð sterk í Bandaríkjunum (sjá t.d. Watts 2009). Þær pælingar eru þó óraunhæfar, því að leitni hitastigs er hið sama í þéttbýli og dreifbýli, hvort sem hitastig er mælt með hitamælum á jörðu eða með gervihnöttum.

Þegar hitastigsgögn eru greind, þá taka viðkomandi stofnanir sem vinna að úrvinnslu gagnanna með í reikninginn staðbundnar hitabreytingar sem eru sökum staðsetningar, eins og geta orðið ef veðurstöð er staðsett nálægt byggingu eða þar sem malbik getur hitað upp umhverfið. Það er gert með því að bera veðurstöðvar í þéttbýli saman við þær sem eru betur staðsettar í nágrenninu (oft í nokkurra kílómetra fjarlægð) og leiðrétt út frá þróuninni þar.

Hitastig Jarðar síðastliðna rúma öld - mælt af þremur óháðum stofnunum.

Það sem er aftur á móti mikilvægara, er að þegar verið er að reikna leitni hitastigs, þá skiptir minna máli hvað ein veðurstöð af mörgum sýnir heldur en hver leitnin er þegar búið er að taka saman gögnin. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að villur vegna lélegrar staðsetningar eru ekki nægilegar til að hafa tölfræðileg áhrif á heildar hnattrænu hitaleitnina sem mæld hefur verið (auk þess sem villur eru bæði í átt til kólnunar og hlýnunar).

Að auki er rétt að taka það fram að viðvaranir um hækkun hitastigs – og þar með loftslagsbreytinga – eru ekki eingöngu byggðar á mælingum við yfirborð Jarðar. Aðrar mælingar, t.d. frá loftbelgjum, gervihnöttum – auk mælinga á hitastigi sjávar sýna allar hækkandi hitastig.

Traust á vísindunum sem fjalla um hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingar í heild, byggja á fjölmörgum gagnasöfnum frá mörgum óháðum aðilum, sem sýna sambærilega niðurstöðu, þ.e.  hækkandi hitastig Jarðar.

Heimildir, frekari upplýsingar og tengt efni

Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, þar sem reynt hefur verið að einfalda textann fyrir almenna lesendur. Einnig er til upprunalegur texti um það sama og bendum við á þá færslu með frekari heimildir. Að lokum er færsla á skeptical science þar sem farið er ýtarlega í sama efni.

Góður inngangur að sögu og greiningu á yfirborðsmælingum hitastigs má sjá í færslu Tamino:  “Tales from the Thermometer”

Farið er yfir leiðréttingar sem NASA gerir hér. Tamino útskýrir það einnig á einfaldari hátt:  “Best Estimates”

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál