Mýta: Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun (skipta út landi, svæði, héraði eftir því sem við á).
Þessi mýta er sjaldgæf, en virðist miða að því að koma því að hjá fólki að kalt veður eða kuldamet á ákveðnum stað á ákveðnum tíma þýði að ekki sé nein hlýnun um að ræða.
Ég ætla að velta upp spurningu sem virðist stundum koma upp og sérstaklega þegar kalt er. Spurningin er þessi:
Ef það eru miklir kuldar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, afsannar það ekki að um hnattræna hlýnun sé að ræða?
Veðrið er síbreytilegt, það er erfitt að reikna það út og lítil breyting í lægðakerfum jarðar getur orðið til þess að kuldamet eru slegin á ákveðnum svæðum (reyndar einnig hitamet – sem dæmi, þá er mjög kalt í Skandinavíu á meðan óvenju hlýtt er á Vesturströnd Grænlands).
Fréttir af kuldatíð á ákveðnum stað á ákveðnum tíma er einmitt það – fréttir af veðri og skal alls ekki rugla því saman við loftslag – en loftslag er tölfræðileg lýsing á veðurfarslegum þáttum þegar til lengri tíma er litið (oft notast við 20-30 ára tímabil). Það sama á vissulega við um fréttir af hitastigi á Grænlandi síðustu daga – sá hiti segir í raun lítið um loftslag.
Af því leiðir að óvenjulegir kuldar á ákveðnum stað og ákveðnum tíma segja í raun lítið um hnattræna hlýnun, þar sem kuldamet eru einnig slegin þegar hnattræn hlýnun er í gangi. Kuldametin gerast þó færri en hitametin, eins og raunin hefur orðið í t.d. Bandaríkjunum, en þar hefur tölfræði hitameta verið skoðuð undanfarna áratugi – en nú er það svo að hitamet hvers dags síðastliðinn áratug hafa komið um tvisvar sinnum oftar en kuldamet (sjá Frétt: Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum).
Niðurstaða
Niðurstaðan er sú að jafnvel þegar hnattræn hlýnun er í gangi eins og nú, þá geta komið óvenju kaldir dagar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Þeim fækkar þó samanborið við óvenju hlýja daga.
Eitt er áhugavert við þá sem að fjalla mikið um kuldamet og tengja það við að að ekki sé að hlýna. Þetta eru oft sömu mennirnir og neita að viðurkenna að það sé að hlýna og telja að ekkert sé að marka hitamælingar sem notaðar eru til að staðfesta hlýnun jarðar- en taka þarna fegins hendi við upplýsingum um að það sé óvenju kalt á einhverjum stað á ákveðnum tíma.
Ítarefni
Skeptical Science fjallar nokkuð vel um þessa spurningu hér: It’s freaking cold!
NASA fjallar einnig um munin á veðri og loftslagi, sjá hér: What’s the Difference Between Weather and Climate?
Sjá einnig gott myndband eftir Greenman: