Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál – IPCC

Hér verður fjallað um IPCC. Farið verður yfir helstu hlutverk, verksvið og verklag nefndarinnar.

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC – The Intergovernmental Panel on Climate Change) er nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem eins og nafnið bendir til hefur með loftslagsmál að gera. Hlutverk nefndarinnar er að taka saman tiltækar vísinda-, tækni-, félags- og efnahagslegar upplýsingar er varða þekkingu og rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nefndin vinnur reglulegar skýrslur (úttektir) um þá vísindalegu þekkingu sem er til staðar um loftslagsbreytingar í heiminum, þær afleiðingar sem þessar breytingar hafa í för með sér og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við breytingunum.

ipcc-cartoon

Nefndin stundar ekki beinar rannsóknir, hún heldur utan um og skoðar fræðileg gögn (ritrýnd gögn) um loftslagsmál. Þannig heldur nefndin utan um gögnin og miðlar upplýsingunum til þeirra sem ráða stefnumörkun varðandi loftslagsmál heimsins. Það eru fyrst og fremst stjórnmála- og embættismenn sem ráða stefnunni í þessum málum. Það er m.a. þess vegna sem áætlanir og stefnur í loftslagsmálum geta verið lengi að mótast. Það má því kannski segja að pólítíkin geti flækt ákvarðanatökuna.

Nefndin útgefur reglulega matsskýrslur um ástand loftslagsmála. Til dagsins í dag hafa verið gefnar út 4 matsskýrslur, sú síðasta árið 2007. Svo koma einnig ýmsar aðrar skýrslur á milli þess sem matskýrslurnar eru gefnar út, þannig að vinnan stoppar aldrei.

Árið 1990 kom út fyrsta matsskýrslan, 1995 sú næsta, árið 2001 sú þriðja og svo 2007 sú fjórða. Von er á fimmtu matsskýrslunni árið 2014. Það er hægt að segja að með hverri skýrslu hafi tónninn verið skerptur gagnvart þeim vanda sem um er að ræða. Þar að auki hefur vísindalegum rannsóknum fjölgað jafnt og þétt og þ.a.l. þarf að leggja mikla vinnu í þetta mat. Að fjórðu matsskýrslunni vann fjöldi fólks frá 130 löndum. Meðal þessa fólks voru yfir 2500 ritdómarar með bakgrunn sem sérfræðingar á sviði vísinda, um 800 sem tóku þátt í skrifunum að einhverju leiti sem og 450 sem leiddu skrif skýrslunnar.

Ragendra_Pachauri

Rajendra K. Pachauri formaður IPCC

Undir þessari nefnd vinna margir hópar og aðilar að því að halda utan um þá þekkingu sem til er um þessi mál í heiminum. Formaður nefndarinnar er Rajendra K. Pachauri. Hann er m.a. með PhD. gráður í verkfræði og í viðskiptafræði. Undir nefndina heyra m.a. 3 svokallaðir vinnuhópar (WG). Sem kallaðir eru vinnuhópar 1, 2 og 3. Svið þessara hópa er ólíkt og eru margir sem koma að vinnu þeirri sem fram fer í þeim.

Vinnusvið vinnuhóps 1 er að halda utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps er kannski mest kunn, þar sem hún hefur fengið mikla umfjöllun.

Vinnuhópur 2 hefur það verksvið að leggja mat á tjónnæmi félags-, náttúru- og efnahaglegra kerfa með það fyrir augum að kanna afleiðingar loftlagsbreytinga (bæði jákvæðar og neikvæðar) og kanna aðlögun þessar þátta við loftslagsbreytingar.

Þriðji vinnuhópurinn hefur það verksvið að leggja mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar leiðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

About the Author

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.