Framtíðin
Það er margt óljóst um loftslag framtíðarinnar, því það er alltaf erfitt að spá um framtíðina með öllum þeim fjölda breyta sem skoða þarf. Breytingarnar verða líka ólíkar eftir því hvar á jörðinni maður drepur niður, t.d. mun á sumum stöðum verða meiri úrkoma en annarsstaðar meiri þurrkur o.s.frv. Það eru margir þættir sem ráða þarf í og erfitt að spá nákvæmlega um hvað gerist á öllum svæðum. Hækkandi hitastig getur því haft margskonar afleiðingar sem nánar er farið í á öðrum síðum þessa vefs. Hér verður fjallað um loftslag framtíðarinnar.
Hitastigshækkun
Lítum fyrst á hversu mikil hitastigs hækkunin er talin geta orðið. Myndin hérundir sýnir nokkrar sviðsmyndir fyrir framtíðina. Í þessum sviðsmyndum er það styrkur koldíoxíðs í framtíðinni sem gefur til kynna hvert hitastigið í framtíðinni getur orðið. Hitastigið er borið saman miðað við ólíkar sviðsmyndir um losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni. Þarna kemur vel fram að hærri styrkur gróðurhúsalofttegunda er talinn hafa bein áhrif á hitastig. En hvað þýðir það að hitastigið hækki og mun hitastigsbreytingin og þessar loftslagsbreytingar hafa sömu áhrif á öllum svæðum?
Samkvæmt spálíkönum mun hitastigið við Norðurpólinn stíga meira en meðaltalið. Myndin hérundir sýnir spár um hækkun hitastigs á ákveðnum tímabilum eftir ákveðnum sviðsmyndum. Líkurnar á því hversu stórar hitastigsbreytingarnar geta orðið eru sýndar til vinstri í myndinni. Sviðsmyndirnar eru unnar eftir sömu framtíðarsviðsmyndum og á myndinni hér að ofan.
Ferill hitastigshækkunar
Það er algengur miskilningur um þessi fræði, að til að kenningin geti verið rétt, þá þurfi hitastig að hækka álíka á milli svæða og jafnt yfir tímabil. Þ.e. að ekki sé pláss fyrir tímabundnar sveiflur eða að um sé að ræða mun á milli svæða. Í myndinni hér að ofan er gert ráð fyrir ákveðnum mun á milli svæða, þ.e. að áhrifin séu mismunandi eftir því hvaða svæði er skoðað. Næsta mynd sýnir dæmi um hugsanlegan feril hitaaukningar. Eins og sjá má er ferillinn skrikkjóttur, sem er afleiðing margskonar náttúrulegra ferla og breytileika sem hafa áhrif á hitastigssveiflur til lengri tíma. Það er lang líklegast að ýmsir náttúrulegir ferlar muni hafa áhrif á hvernig þessi ferill mun líta út í framtíðinni og þessi mynd er tilraun til að sýna fram á dæmi um það (þetta er ekki spá). Það er líka hægt að ímynda sér að ef engin hitastigsbreyting væri, þ.e. að línan væri lárétt, þá myndu einnig koma fram sveiflur vegna náttúrulegs breytileika, en í því tilfelli myndu þær sveiflur verða í kringum lárétta línu.
Úrkoma, þurrkar og veðurfyrirbæri
Spár um úrkomu og þurrka eru einnig mjög breytilegar eftir svæðum. Það er bæði gert ráð fyrir eyðimerkurmyndunum á Spáni og aukinni gróðursæld í Sahara. Af þessu má sjá að það er ekki auðvelt að spá um framtíðina og hækkandi hitastig hefur ólíkar sviðsmyndir eftir því hvar maður er í heiminum og eftir því hvaða sviðsmynd maður skoðar. Á næstu mynd er litið nánar á einstök veðurfarsleg fyrirbæri og líkurnar á því að þau gerist í framtíðinni og hvaða hugsanlegu afleiðingar það gæti haft. Það er talið nánast öruggt að á flestum landsvæðum verði heitara með færri köldum dögum og nóttum, ásamt fleiri heitum dögum og nóttum. Það er talið mjög líklegt að það komi fleiri hitabylgjur en áður á flestum landsvæðum. Fleiri atburðir með stórúrkomu eru taldir mjög líklegir á flestum svæðum. Þetta er hægt að skoða í töflunni hérundir ásamt hugsanlegum afleiðingum á ákveðnum sviðum.
Þegar vísindamenn nota orð eins og nánast öruggt, mjög líklegt og líklegt, þá er verið að tala um líkur á ákveðnum atburðum unnið út frá tölfræði. Á spurningar og svör síðunni má sjá hvað hvert hugtak merkir og tölfræðilegu líkurnar sem liggja á bak við orðin:
Niðurstaða
Helsta niðurstaðan er sú að líklega verður heitara i framtíðinni og hugsanlega með meiri öfgum í veðri. Á sumum svæðum verður meiri úrkoma á öðrum verður meira um þurrka. Hitastigshækkunin er ekki algerlega línuleg heldur munu koma fram náttúrulegar sveiflur eins og hingað til.
Heimildir og frekari upplýsingar:
Skýrsla vinnuhóps 2 Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsmál (IPCC)
Skýrslan “Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi” Umhverfisráðuneytið 2008
Kenningin