Magnandi svörun (e. positive feedback) er hugtak sem er frekar mikið notað í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á hinn bóginn getur afleiðing myndað dempandi svörun (e. negative feedback) á móti orsökinni og dregið úr henni.
Magnandi svörun
Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun. Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp.
Annað þekkt ferli er hið svokallaða Ice-Albeido effect þ.e. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira og meiri hafís bráðnar.
Eitt af þeim ferlum sem valda mönnum hvað mestum áhyggjum er bráðnun sífrera (á landi og í sjávarsetlögum) á norðurslóðum, en í honum er mikið magn kolefnis (Metan) sem hætt er við að losni út í andrúmsloftið. Það getur haft geigvænleg áhrif og aukið hraða hlýnunarinnar.
Annað þekkt ferli sem menn hafa áhyggjur af, er að hæfni sjávarlífvera til að vinna kolefni úr sjónum og þar með að binda hið sívaxandi kolefni minnkar töluvert við hlýnun sjávar. Sjórinn súrnar sem minnkar enn möguleika sjávarlífvera að vinna kolefni úr sjónum.Það veldur því að hafið tekur við minna af CO2 og því mun CO2 í andrúmsloftinu aukast hraðar sem því nemur og auka þar með á hlýnun jarðar.
Hvað með skýin?
Í inngangnum minntist ég á dempandi svörun, þar sem afleiðingin vinnur á móti orsökinni. Hingað til hefur það verið talið allt eins líklegt að aukin skýjamyndun vegna hlýnunar jarðar geti unnið á móti hlýnuninni (þó menn hafi ekki verið sammála um það frekar en margt annað). Nýlega birtist grein í Science sem bendir til þess að þessu sé öfugt farið. Þ.e. að aukin hlýnun sjávar minnki lágský sem hafa hingað til verið talin líklegust til að dempa hlýnunina. Hér er því mögulega komið nýtt ferli sem veldur magnandi svörun.
Það skal þó tekið fram að þetta er umdeilt eins og allt sem tengist skýjum hvað varðar loftslag, en við munum fylgjast með þessu og skrifa um það hér ef nýjar rannsóknir birtast.