Loftslag.is

Month: November 2010

  • Samkeppnishæfni og orkunýting

    Samkeppnishæfni og orkunýting

    Athyglisvert myndband, þar sem Steven Chu, sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun í eðlisfræði og er núverandi orkumálaráðherra Bandaríkjanna , fjallar um dalandi samkeppnishæfni Bandaríkjanna á sviði nýrrar tækni, þar á meðal í tækni sem mun knýja iðnframleiðsluna inn í nýja öld, þ.m.t. tækni sem stuðlar að betri orkunýtingu og sjáflbæri orkunýtingu sem ekki losar mikið af koldíoxíði.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • NASA | Stórtölvutækni og loftslagslíkön

    NASA | Stórtölvutækni og loftslagslíkön

    Endurbirting

    Í þessu stutta myndbandi er farið yfir stórtölvutækni NASA, á miðstöð NASA fyrir loftslagslíkön (e. NASA Center for Climate Simulation (NCCS)). NCCS hefur getu til að keyra mjög flókin líkön sem m.a. hjálpa vísindamönnum við að fá betri skilning á loftslagi Jarðar. Í myndbandinu er stutt kynning á NCCS og farið er á bak við tjöldin í heim loftslagslíkana. Með notkun stórtölva við vinnslu gagna sem fengin eru m.a. með gervihnattamælingum, eru þessi líkön t.d. notuð við gerð veðurspáa og við að skoða þá þætti sem eru á bak við loftslagbreytingar.

    Til að fræðast nánar um NCCS er hægt að fara á slóðina hér; http://www.nasa.gov/topics/earth/features/climate-sim-center.html

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Ný afstaðið fellibyljatímabil – spár og niðurstöður

    Ný afstaðið fellibyljatímabil – spár og niðurstöður

    Fjöldi fellibylja á ný afstöðnu fellibyljatímabili í Atlantshafi var yfir meðaltali og var það í samræmi við spá NOAA um fjölda fellibylja þetta árið. Á myndinni hér undir, má sjá hvernig tímabilið í ár er í samanburði við fjölda fellibylja í meðalári og einnig við spár síðan í vor.

    Þrátt fyrir þennan fjölda fellibylja þá voru fellibylir ekki mikið í fréttum þetta árið, enda fáir sem náðu landi svo verulegt tjón hlytist af og þar að auki fáir í Bandaríkjunum . Þetta árið voru 19 nafngreindir stormar (10 í meðalári), þar af 11 fellibylir (5 í meðalári), sem þar af voru 5 stórir fellibylir (2 í meðalári). Eins og sést á myndinni varð fjöldi fellibyljar í ár í samræmi við spár NOAA þetta árið.

    Spárnar voru gerðar út frá ýmsum þáttum sem endurspegla ástand í Atlantshafinu sem getur leitt til meiri fellibyljavirkni þar. Þessar væntingar voru byggðar á spám varðandi þrjá þætti loftslags á svæðinu, sem hafa stuðlað að aukinni tíðni fellibylja í sögulegu samhengi. Þessir þrír þættir voru: 1) hitabeltis fjöl-áratuga merkið (e. tropical multi-decadal signal), sem hefur verið áhrifavaldur á tímabilum með mörgum fellibyljum, 2) óvenjulega hátt hitastig sjávar í Atlantshafinu við hitabeltið og í Karíbahafinu og 3) annað hvort ENSO-hlutlaust eða La Nina áhrif í Kyrrahafinu, með meiri líkum á La Nina áhrifum.

    Ítarefni:

    Tengt efni af loftslag.is:

  • Ísbjörn á Langjökli

    Ísbjörn á Langjökli

    Hér undir má sjá stutt myndband með loftslagslistaverkinu á Langjökli. Listakonan Bjargey Ólafsdóttir tekur þátt í fjölþjóðlegum umhverfislistahópi til að vekja athygli á hnattrænni hlýnun af mannavöldum og er verkið af ísbirni. Sjón er sögu ríkari, gjörið svo vel.

    350 Iceland by Cinematographer Bergsteinn Björgúlfsson from 350Team on Vimeo.

    Ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Kaldari svæði við hnattræna hlýnun

    Kaldari svæði við hnattræna hlýnun

    Hin hnattræna hlýnun, gæti aukið á staðbundinn kulda yfir háveturinn á miðlægum breiddargráðum á norðurhveli Jarðar. Hin stöðuga bráðnun hafíss í austurhluta Norðurskautsins gæti breytt vindakerfum lofthjúpsins á svæðinu með fyrrgreindum afleiðingum, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Með hermunum í loftslagslíkunum þar sem áframhaldandi minnkandi hafísútbreiðsla er færð inn í líkönin, þá fundu vísindamenn frá Potsdam stofnuninni það sem þeir kalla “ákveðið ólínulegt viðbragð” (e. “pronounced nonlinear response”) í lofthita og vind í austanverðu Norðurskautinu.

    Sérstaklega er talið að minnkun á vetrarhafís í Barents- og Karahafs svæðunum, norður af Noregi og Rússlandi, gæti haft þau áhrif að veturnir kólni til muna í Evrópu.  Höfundar telja að þessi frávik í hafísútbreiðslu geti þrefaldað líkurnar á óvenju köldum vetrum í Evrópu og norður Asíu.

    Heimildir og ítarefni

    Greinina má finna hér, Petoukhov og  Semenov (2010):  A link between reduced Barents-Kara sea ice and cold winter extremes over northern continents

    Umfjöllun Sciencedaily um greinina: Global Warming Could Cool Down Northern Temperatures in Winter

    Tengt efni á loftslag.is

  • COP16 – Loftslagsráðstefnan í Kankún, Mexíkó

    COP16 – Loftslagsráðstefnan í Kankún, Mexíkó

    Hvað er COP16?

    Loftslagsráðstefnan í Kankún, Mexíkó fer fram dagana 29. nóvember til 10. desember. Þetta er 16. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, einnig kölluð COP16.

    Á fyrri COP ráðstefnum hafa verið aðilar frá næstum 1.500 fjölmiðlum. Það verða haldnir fjöldinn allur af blaðamannafundum á meðan á COP16 stendur. UNFCCC mun halda utan um allt sem viðkemur fjölmiðlum og dagsskrá verður ávalt tiltæk á meðan á ráðstefnunni stendur.

    Fulltrúar frá 194 löndum koma saman til að ræða um losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig megi draga úr losun og hvaða leiðir hægt er að nota til þess að nálgast minni losun. Á síðasta ári fór ráðstefnan fram í Kaupmannahöfn, sjá COP15 og lesa má um helstu niðurstöður þeirrar ráðstefnu hér, en niðurstaða COP15 var alls ekki í takt við væntingar og ekki voru gerðir skuldbindandi samningar um losun gróðurhúsalofttegunda í það skiptið.

    Hverjar eru væntingarnar núna?

    Það eru ekki miklar væntingar varðandi niðurstöðuna almennt. Nokkur lönd og aðilar sem spila lykilhlutverk á ráðstefnunni, hafa komið fram með ummæli um að þau eigi ekki von á bindandi samning í ár, þar á meðal er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon.

    Helsta vonin virðist vera að hægt verði að umbreyta Kaupmannahafnaryfirlýsingunni í einhverskonar framkvæmdaplagg, sem hægt verði að nota sem grunn að samkomulagi fyrir nýjar umræður árið 2011. Einnig er vonast eftir því að það verði smám saman hægt að ná samkomulagi um fjármögnun frá ríkari til fátækari landa.

    Hver eru lykilatriðin í ár?

    Eitt af stóru atriðunum verður nú sem fyrr “skipting byrðarinnar”. Minnst þróuðu löndin, smá eyríki og lönd í Afríku, vilja fá fullvissu um að samningsniðurstaða muni verða þeim til góða. Það er búist við því að ríkari þjóðir taki einhverskonar ábyrgð á því að aðstoða fjármögnun þróunarþjóða í átt til frekari sjálfbærni og frekari notkunar á endurnýtanlegri orku. Iðnvæddar þjóðir þurfa líka að sýna fram á frumkvæði í því að draga úr losun heima við. Spurningar varðandi fjármögnun er mikilvægt atriði sem talið er öruggt að muni koma upp á fleiri vegu.

    Er einhver ástæða til bjartsýni?

    Fáein atriði eru talin jákvæð og geta ýtt undir bjartsýni. Samningsaðilar gætu vel haft gagn af þeim litlu væntingum sem eru gerðar til ráðstefnunnar í Kankún. Þar sem þjóðarleiðtogar hafa verið að vinna í því að draga úr eftirvæntingum, þá munu sendinefndir þjóðanna ekki vera undir jafnmiklum þrýstingi um að ná saman. Samninganefndir frá þróunarlöndunum eru taldar reiðubúnar til að reyna að fá sem mest út úr viðræðunum.

    Umfjöllun um COP16 á loftslag.is

    Á síðasta ári skrifuðum við nokkuð ítarlega um COP15, og mun stefnan verða sett á að skrifa eitthvað um COP16 einnig og vonandi gefst okkur tækifæri og tími til að gera það eins ítarlega og á síðasta ári.

    Ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Staðreyndir og ímyndun varðandi hafísútbreiðsluna

    Staðreyndir og ímyndun varðandi hafísútbreiðsluna

    Í þessu myndbandi tekur Greenman3610 (Peter Sinclair) fyrir hafísútbreiðslu á Norðurskautinu. Hann ræðir ýmsar fullyrðingar sem settar voru fram fyrirfram varðandi sumarbráðnun hafíss svo og það sem gerðist í raun og veru. Ýmiskonar umfjöllun um afleiðingar þess að hafís geti hugsanlega horfið er honum ofarlega í huga…Ísland er m.a. nefnt í þessu myndbandi í því sambandi. En lítum fyrst á hans eigin lýsingu sem fylgdi myndbandinu:

    Í byrjun sumars 2010, upplýsti fals vísinda bloggsíðan, Watts up with that, sínum auðkennandi lesendum að þetta sumar myndi sýna fram á það með óyggjandi hætti að langtíma bráðnun hafís á Norðurskautinu væri á enda.

    Þeir ábyrgðust það.

    Tölurnar eru komnar í hús.

    Já, hann hefur sitt lag á að orða hlutina á kaldhæðin hátt, en nú að myndbandinu.

    Ítarefni

    Hægt er að nálgast fleiri myndbönd eftir Greenman hér á loftslag.is:  Greenman3610.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Vatnsflæði eykur hraða bráðnunar jökulbreiða

    Vatnsflæði eykur hraða bráðnunar jökulbreiða

    Bræðsluvatn sem flæðir um glufur og sprungur jökulbreiða, hraðar hlýnun þeirra meir en líkön höfðu bent til, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Svo virðist sem volgt vatn sem streymir um jökulbreiðurnar – líkt og um æðakerfi – geti hitað upp stór jökulform  líkt og Grænlandsjökul, á áratugum frekar en öldum – ef marka má þessa nýju rannsókn. Líkön sem herma varmaflæði jökla taka venjulega fullt tillit til lofthita, en hingað til þá hefur vantað upp á að herma eftir vatnsflæði um glufur og sprungur jökulbreiðanna. Telja höfundar að slíkt flæði geti hraðað bráðnun jökulbreiða og vísa í bráðnun Larsen íshellunnar sem brotnaði upp árið 2002.

    Heimildir og ítarefni

    Ágrip greinarinnar má lesa hér, Phillips o.fl. 2010 : Cryo-hydrologic warming: A potential mechanism for rapid thermal response of ice sheets

    Unnið upp úr umfjöllun Yale Environment 360: Water Flow Through Ice Sheets Accelerates Effects of Warming, Study Says

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hitastig á heimsvísu í október og þróun fyrir árið 2010

    Hitastig á heimsvísu í október og þróun fyrir árið 2010

    NOAA hefur gefið út mánaðaryfirlit hitastigs í heiminum fyrir október 2010. Mánuðurinn var 8. heitasti október á heimsvísu síðan mælingar hófust árið 1880. Fyrir tímabilið janúar til október er hitafrávikið það hæsta og jafnt sama tímabili fyrir árið 1998 miðað við hitafrávik fyrir bæði haf og land. Ef aðeins er tekið hitastigið yfir landi, þá er hitafrávikið fyrir tímabilið, janúar til október, það næst heitasta, á eftir 2007, en hitafrávik fyrir sjó er það næst hæsta (jafnt 2003) á eftir 1998.

    Eins og vænta má, þá hefur La Nina (sem er náttúrulegt fyrirbæri sem hefur, öfugt við El Nino, almennt áhrif til kólnunar) sett mark sitt til kólnunar hér að undanförnu. Samkvæmt loftslags spá miðstöð NOAA, þá er gert ráð fyrir að La Nina eigi enn eftir að auka styrk sinn og verða viðloðandi allavega fram á vormánuði 2011. Áhrifin á hitastigið á heimsvísu eru talin verða til kólnunar það sem eftir er árs, svipað og gerðist árið 1998.

    Hér undir má sjá þessa keppni ársins við fyrri ár. Athugið hvernig sjá má á myndinni að árið 2010 var líklegt framan af til að setja nýtt hitamet, þar til áhrif La Nina kólnunarinnar byrjuðu að sjást að marki. Það er þó enn ekki loku fyrir það skotið að árið geti orðið það hlýjasta frá því mælingar hófust, sjá t.d. vangaveltur varðandi það í gestapistli eftir Halldór Björnsson, Og árið verður…

    Á þessari mynd má lesa út hitafráviksþróun fyrir nokkur síðustu ár til samanburðar við árið í ár.

    Október 2010 og árið

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn október og tímabilið janúar – október.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir októbermánuð 2010.

    Október Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti ágúst
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0,91°C 6. heitasti 2005(+1,07°C)
    Haf +0,40°C 10. heitasti 2003 (+0,58°C)
    Land og haf +0,54°C 8. heitasti 2003 (+0,71°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,11°C 3. heitasti 2003 (+1,20°C)
    Haf +0,40°C 11. heitasti 2006 (+0,64°C)
    Land og Haf +0,67°C 5. heitasti 2003 (+0,85°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,39°C 21. heitasti 2002 (+1,09°C)
    Haf +0,42°C 9. heitasti 1997 (+0,59°C)
    Land og Haf +0,41°C 11. heitasti 1997 (+0,61°C)

    Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til september 2010:

    Janúar – október Frávik Röð
    (af 131 árí)
    Heitasta/næst
    heitasta tímabilið
    Á heimsvísu
    Land +0,98°C 2. heitasta 2007 (+1,00°C)
    Haf +0,51°C 2. heitasta 1998 (+0,53°C)
    Land og Haf +0,63°C Heitasta 1998 (+0,63°C)

    Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – október eftir árum.

    Samkvæmt tölum frá NASA er tímabilið janúar til október einnig það heitasta frá því mælingar hófust, sjá hér samanburð NASA á milli þriggja heitustu áranna fyrir tímabilið janúar til október.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum, sjá einnig Enn mælist hitastig í heiminum í hæstu hæðum.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is:

  • Beringssund og hitasveiflur síðasta jökulskeiðs

    Beringssund og hitasveiflur síðasta jökulskeiðs

    Lengi vel stóð maður í þeirri meiningu að hvert ísaldarskeið væri samfelld kuldaskeið með sínum ógurlegu jökulskjöldum og freðinni jörð langt suðureftir löndum. Fyrstu hugmyndir vísindamanna á sínum tíma hafa sjálfsagt verið eitthvað svipaðar uns mönnum lærðist að innan hvers jökulskeiðs væru vísbendingar um hlýrri tímabil með mun minni jökulþekju. Það var svo ekki fyrr en eftir borkjarnarannsóknir á Grænlandsísnum að það kom almennilega í ljós hversu óstöðugt loftslag mun í raun hafa verið á síðustu ísöld og hvernig jöklar fóru ýmist hraðminnkandi eða stækkandi með tilheyrandi áhrifum á hæð sjávarborð auk annarra áhrifa á náttúrufar almennt. Sérstaklega hér við Norður-Atlantshaf. Þetta er ólíkt hlýskeiðinu síðustu 10 þúsund árin þar sem loftslag hefur verið mjög stöðugt, en það hefur örugglega haft sitt að segja um velgengni þeirrar dýrategundar sem við teljumst til.

    Loftslag síðustu 100.000 ár samkvæmt borkjarnarannsóknum á Grænlandsjökli. (Rauðu punktarnir tengjast ekki efni færslunnar)

    Þessi óstöðugleiki og loftslagssveiflur innan síðasta jökulskeiðs virðast í fyrstu hafa verið nokkur ráðgáta meðal vísindamanna því þær eiga ekki samsvörun í sveiflum í inngeislun sólar vegna breytilegs möndulhalla jarðar og fleiri atriða sem oftast eru kallaðar Milankovich-sveiflur, sem þó eru í stærra samhengi taldar höfuðorsök lengri jökulskeiða og hlýskeiða.

    Vitað hefur verið að sjávarstraumar við Norður-Atlantshaf geta verið óstöðugir og er þá Golfstraumurinn gjarnan nefndur því án hans væri varla byggilegt á okkar slóðum. Seltujafnvægi sjávar spilar þarna inní og talið að mikil aukning af ferskvatni í norðurhöfin geti stöðvað streymi hlýsjávar hingað norður eins og sumir hafa óttast að gæti gerst með aukinni jökulbráðnun í náinni framtíð. Slík aukning af ferskvatni er þó lítil og hægfara miðað við þá atburði sem áttu sér gjarnan stað þegar jöklar voru að hörfa og risastór jökulvötn ruddu sér leið til út í Atlantshafið ýmist frá Evrópu eða Norður-Ameríku. Þetta atriði þykir geta skýrt ýmislegt og þá sérstaklega það mikla bakslag sem skyndilega varð undir lok síðasta jökulskeiðs fyrir 12.800 árum (Yngra-Dryas) sem tók við af stuttu tímabili sem var nálega eins og hlýtt og hefur verið á nútíma.

    Kenningin um áhrif Beringssundsins

    Í upphafi þessa árs sá ég athyglisverða kenningu um að stóri örlagavaldurinn í ógnarjafnvægi Norður-Atlantshafsins á síðasta jökulskeiði væri fólgin í hinu þrönga Beringssundi á milli Alaska og Síberíu og ef sú kenning er rétt þykir það vera gott dæmi um hvað lítilvæg atriði geta haft mikið að segja. Þessi kenning er annars fengin útfrá fjölþjóðlegri rannsókn á vegum National Center for Atmospheric Research (NCAR) og gengur út á eftirfarandi atriði:

    Þegar loftslag kólnar vegna sveiflna á sporbaug jarðar um sólu, vaxa jöklar á norðurhveli og þar með lækkar sjávarborð nógu mikið til að landbrú myndast við Beringssund milli Asíu og Norður-Ameríku. Kyrrahafssjór sem er í eðli sínu seltulítill streymir þá ekki lengur inn Beringssund og áfram inn í Atlantshafið úr norðri eins og venjan er þegar Beringssund er opið. Við þetta eykst seltustig Norður-Atlantshafs þannig að þungur selturíkur sjór sekkur í ríkara mæli hér í norðurhöfum og eykur á kraft þeirra sjávarhringrása sem dæla suðlægum hlýsjónum norður. Með aukningu á hlýsjó í Norður-Atlantshafi, hlýnar loftslag nógu mikið til að jökulbreiður taka að bráðna á ný. Þótt Kyrrahafið kólni á móti skiptir það ekki máli því jökulbreiður eru ekki þar umhverfis.


    Með bráðnandi jökulhvelum hækkar sjávarborð nægilega til að sjór streymir á ný gegnum Beringssund. Seltuminni sjór berst á ný inn Atlantshafið úr norðri og veikir gangverk hlýsjávarstrauma þannig að kólnun tekur við á ný. Jöklarnir taka því að vaxa aftur og að sama skapi lækkar sjávarborð sem endar á því að Beringssundið lokast og ferlið endurtekur sig á ný.

    Eftir því sem brautarganga jarðar um sólu varð óhagstæðari mögnuðust harðind síðasta ísaldarskeiðs smám saman og fyrir 34 þúsund árum skipti ekki lengur máli þótt Beringssundið væri lokað, jöklarnir höfðu að lokum náð yfirhöndinni og urðu stærstir fyrir um 25-15 þúsund árum. Eftir mikla hlýnun í framhaldi af því og stóra Dryas-bakslagið hefur hlýskeið ríkt hér á jörð. Það hlýskeið á að öllum líkindum tilveru sína að þakka hagstæðri brautargöngu jarðar um sól með aukinni sólgeislun á norðurhveli að sumarlagi og skapar þær aðstæður að ekki skiptir lengur máli þótt Beringssundið sé opið því sá Kyrrahafs-ættaði og seltusnauði sjór sem nú berst til Atlantshafsins úr norðri, nægir ekki til þess að koma á ísaldarástandi.

    – – – – –

    Þannig hljóma þessar kenningar samkvæmt því sem ég skil best og með þeim fyrirvara að rétt sé eftir haft af frétt á ScienceDaily-vefnum sem fjallaði um þetta Beringssundsmál þann 11. janúar á þessu ári.
    Sjá hér: http://www.sciencedaily.com/releases/2010/01/100110151325.htm

    Hitalínuritið að ofan er fengin af vefsíðu Richard A. Muller / brief introduction to the history of climate http://muller.lbl.gov/pages/iceagebook/history_of_climate.html