COP16 – Loftslagsráðstefnan í Kankún, Mexíkó

Hvað er COP16?

Loftslagsráðstefnan í Kankún, Mexíkó fer fram dagana 29. nóvember til 10. desember. Þetta er 16. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, einnig kölluð COP16.

Á fyrri COP ráðstefnum hafa verið aðilar frá næstum 1.500 fjölmiðlum. Það verða haldnir fjöldinn allur af blaðamannafundum á meðan á COP16 stendur. UNFCCC mun halda utan um allt sem viðkemur fjölmiðlum og dagsskrá verður ávalt tiltæk á meðan á ráðstefnunni stendur.

Fulltrúar frá 194 löndum koma saman til að ræða um losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig megi draga úr losun og hvaða leiðir hægt er að nota til þess að nálgast minni losun. Á síðasta ári fór ráðstefnan fram í Kaupmannahöfn, sjá COP15 og lesa má um helstu niðurstöður þeirrar ráðstefnu hér, en niðurstaða COP15 var alls ekki í takt við væntingar og ekki voru gerðir skuldbindandi samningar um losun gróðurhúsalofttegunda í það skiptið.

Hverjar eru væntingarnar núna?

Það eru ekki miklar væntingar varðandi niðurstöðuna almennt. Nokkur lönd og aðilar sem spila lykilhlutverk á ráðstefnunni, hafa komið fram með ummæli um að þau eigi ekki von á bindandi samning í ár, þar á meðal er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon.

Helsta vonin virðist vera að hægt verði að umbreyta Kaupmannahafnaryfirlýsingunni í einhverskonar framkvæmdaplagg, sem hægt verði að nota sem grunn að samkomulagi fyrir nýjar umræður árið 2011. Einnig er vonast eftir því að það verði smám saman hægt að ná samkomulagi um fjármögnun frá ríkari til fátækari landa.

Hver eru lykilatriðin í ár?

Eitt af stóru atriðunum verður nú sem fyrr “skipting byrðarinnar”. Minnst þróuðu löndin, smá eyríki og lönd í Afríku, vilja fá fullvissu um að samningsniðurstaða muni verða þeim til góða. Það er búist við því að ríkari þjóðir taki einhverskonar ábyrgð á því að aðstoða fjármögnun þróunarþjóða í átt til frekari sjálfbærni og frekari notkunar á endurnýtanlegri orku. Iðnvæddar þjóðir þurfa líka að sýna fram á frumkvæði í því að draga úr losun heima við. Spurningar varðandi fjármögnun er mikilvægt atriði sem talið er öruggt að muni koma upp á fleiri vegu.

Er einhver ástæða til bjartsýni?

Fáein atriði eru talin jákvæð og geta ýtt undir bjartsýni. Samningsaðilar gætu vel haft gagn af þeim litlu væntingum sem eru gerðar til ráðstefnunnar í Kankún. Þar sem þjóðarleiðtogar hafa verið að vinna í því að draga úr eftirvæntingum, þá munu sendinefndir þjóðanna ekki vera undir jafnmiklum þrýstingi um að ná saman. Samninganefndir frá þróunarlöndunum eru taldar reiðubúnar til að reyna að fá sem mest út úr viðræðunum.

Umfjöllun um COP16 á loftslag.is

Á síðasta ári skrifuðum við nokkuð ítarlega um COP15, og mun stefnan verða sett á að skrifa eitthvað um COP16 einnig og vonandi gefst okkur tækifæri og tími til að gera það eins ítarlega og á síðasta ári.

Ítarefni:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.