Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.
Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.
Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.
Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.
Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.
Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.
Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.
Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!
Takk fyrir ádrepuna!
Mér finnst vanta uppá eða hef allavega ekki séð rökstuðninginn fyrir því, að yfirborð hafsins muni hækka við hlýnandi loftslag. Áður, þegar loftslag var hlýrra, benda setlagarannsóknir utan við Suðurskautslandið til þess, að ísinn á því mikla meginlandi hafi verið miklu meiri en nú er og því borist lengra út í sjó með skriðjöklum, þegar loftslag var hlýrra. Þetta var skýrt með því, að hlýrra andrúmsloft rúmar meiri raka en kaldara loft. Því verði meiri úrkoma á Suðurskautslandinu, þegar loftslag hlýnar. Í dag er talsverður hluti þessarar köldu álfu íslaus vegna þurrka, líkt og sumar helkaldar eyjar norðan við Kanada. Ergo: Með hlýnandi loftslagi ætti meira vatn að bindast í íshettunni á Suðurskautslandinu, enda mun mestöll úrkoma þar eftir sem áður falla sem snjór, þótt loftslag hlýni um nokkrar gráður. Hið sama ætti að gilda um Grænlandsjökul, enda virðist hann nú skríða lengra út í sjó og meira vera um borgarís en áður. Jafnframt komust vísindamenn frá Nansen stofnuninni að því fyrir nokkrum árum, að a.m.k. ákveðinn hluti skriðjökla út úr Grænlandsjökli hafa þykknað á síðustu áratugum. Aðrir hafa skilst mér komist að gagnstæðum niðurstöðum, þ.e. mælt þynningu skriðjökla á Grænlandi.
Ef meira vatn verður bundið á Suðurskautinu og jafnvel á Norður-Grænlandi (sem er íslaust í dag), þá vegur það á móti öðrum öflum, sem stuðla að því að hlýnun andrúmslofts og þar með efstu laga sjávar hækka sjávarborð. Heitari sjór tekur meira rými en kaldari sjór og þannig veldur þetta lögmál hækkun sjávarborðs. Hve langt niður í djúpin nær hlýnun sjávar? Um það hef ég hvergi séð neinar tölur, en þætti vænt um ef einhver getur bent mér á vísindalegar heimildir, sem þetta varða. Ég geri ráð fyrir, að mestur hluti þess vatns, sem í sjónum er, sé í einhvers konar jafnvægisstöðu og við hitastig, þar sem eðlisþyngd vatns með það seltustig, sem þar ríkir, er hvað mest. Kaldari sjór og hlýrri sjór ættu að fljóta þarna ofaná. Aukin hiti í sjónum nær því ekki takmarkalaust niður í djúpin, nema einhver lögmál tengd mismunandi seltustigi valdi lóðréttum straumum langt niður í djúpið. En slíkir lóðréttir straumar hljóta að heyra til undantekninga.
Annað: Hversu mikið hækkar yfirborð 100 m hárrar vatnssúlu við hverja gráðu, sem vatnið hitnar um?
Ég man ekki eftir heimildum um að jökulbreiður Suðurskautsins hafi verið meiri á hlýrri tímabilum jarðsögunnar – hér væri gott að fá nánari heimildir.
Hitt er annað að maður hefur heyrt hugleiðingar um að jöklar geti aukist við hlýnandi loftslag og það hefur verið staðfest staðbundið bæði á Grænlandi og á Suðurskautinu – í heild eru þessar jökulbreiður þó að missa massa (töluverðan ef marka má helstu heimildir – sjá t.d. Er ís á Suðurskautinu að minnka eða aukast? og Massatap Grænlandsjökuls til 2010 og valda hækkun sjávarstöðu (sjá t.d. Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar).
Varðandi hversu langt niður í djúpin hlýnun sjávar nær, þá gæti verið að hluti af svarinu sé að finna í þessari frétt: Hlýnun djúpsjávar og sjávarstaða. Hlýnun hefur allavega verið mæld niður fyrir 1000 metrana ef marka má þessa rannsókn.
Svar við lokaspurningunni hef ég ekki á reiðum höndum – og bið lesendur um að hjálpa mér ef þeir geta.
Takk fyrir góðar spurningar, vonandi hafa svörin gagnast þér eitthvað.