Nýjustu og fullkomnustu loftslagslíkönin spá töluverðri hlýnun vegna styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda líkt og koldíoxíð (CO2) í andrúmsloftinu. Líkönin greinir aftur á móti á um hversu mikla hlýnun megi búast við. Sá munur er að mestu leiti vegna mismunar á því hvernig loftslagslíkönin túlka ský. Sum líkönin spá því að skýjahula muni aukast við hlýnun og að sú aukning muni auka speglun á sólargeislum og þar með dempa hina hnattrænu hlýnun. Önnur líkön reikna með að skýjahula muni minnka og þar með muni hlýnunin magnast.
Í grein sem birtist nýlega í tímaritinu Journal of Climate, þá er könnuð færni líkana til að herma eftir skýjum og leggja höfundar fram nýja framsetningu á því hvernig best er að greina þá svörun sem ský veita við hlýnandi loftslag.
Til að greina betur skýin, þá notuðu höfundar líkan sem líkti eftir takmörkuðu svæði yfir Austur Kyrrahafi og landsvæðunum þar í kring. Ský á þessu svæði eru þekkt fyrir að hafa töluverð áhrif á loftslag, en loftslagslíkön eiga í erfiðleikum með að líkja eftir þeim. Þetta svæðisbundna líkan nær aftur á móti nokkuð vel að líkja eftir skýjahulu nútímans, auk skýjabreytinga vegna breytinga í El Nino. Þegar búið var að sannreyna að líkanið hermdi vel eftir núverandi aðstæðum, þá var líkanið keyrt miðað við ætlað hitastig eins og búist er við eftir eina öld. Við það kom í ljós tilhneyging skýjanna til að þynnast og minnka í þessu líkani.
Ef rétt reynist, þá er loftslag í raun viðkvæmara fyrir styrkaukningu á CO2 í andrúmsloftinu en áður hefur verið talið og flest loftslagslíkön að vanreikna mögulega hlýnun – þar sem minnkandi skýjahula myndi magna upp hlýnunina.
Heimildir og ítarefni
Greinin birtist í Journal of Climate, Lauer o.fl. 2010 (ágrip): The Impact of Global Warming on Marine Boundary Layer Clouds over the Eastern Pacific—A Regional Model Study
Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu háskólans á Hawaii: Cloud Feedbacks Amplify Global Warming
Tengt efni á loftslag.is
- Kaldari svæði við hnattræna hlýnun
- Styrkur í stormum framtíðar
- Magnandi svörun í Alaska
- Gróðurhúsaáhrifin mæld
- Hvernig CO2 stjórnar hitastigi Jarðar
Leave a Reply