Hitahorfur fyrir árið 2010 – upprifjun

Hér undir er endurbirting færslu frá því fyrir ári síðan (18. janúar 2010), þar sem farið var yfir hitahorfur ársins sem var framundan þá og skoðaðir þeir þættir sem talið var að myndu hafa áhrif á hitastigsþróun ársins 2010. Það má segja að þessar vangaveltur hafi gengið merkilega vel eftir, þar sem hitastig ársins 2010 endaði sem eitt það heitasta síðan mælingar hófust, sjá t.d. Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS. En gjörið svo vel, fróðleg upprifjun:

[…]

Nú er janúar rúmlega hálfnaður og því eru komin ýmis konar yfirlit yfir síðasta ár og menn byrjaðir að velta fyrir sér árinu sem nú er byrjað.

Hér á loftslag.is höfum við birt yfirlit yfir hvað var helst að gerast í loftslagsfræðunum (sjá Annáll – Loftslagsfræði ársins 2009 í hnotskurn) og um hitastig jarðar og yfirborðs sjávar 2009 samkvæmt NOAA (sjá Frétt: Hitastig ársins 2009). Þá hafa aðrir birt yfirlit fyrir veðurfar Íslands t.d. Veðurstofan,  Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni og Emil Hannes birti einnig athyglisverða kubbamynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var miðað við fyrri ár (sjá Meðalhiti í Reykjavík frá 1901 í kubbamynd).

Hér fyrir neðan eru pælingar mínar varðandi hitahorfur fyrir árið 2010, þetta er mikil einföldun og sjálfsagt mætti bæta við fleiri náttúrulegum sveiflum sem geta haft áhrif á hitastigið í heild (NAO, AO, PDO o.fl).

Hitastig og náttúrulegar sveiflur

Ein mest tilvitnaða hitaröðin, er hitaröð NASA, en samkvæmt þeirra gögnum þá var árið 2009 jafnt í öðru sæti við árið 2007 – en samkvæmt þeim er árið 2005 heitasta árið frá því mælingar hófust. Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir hitastig, bæði hnattrænt og svo fyrir norður-og suðurhvel. Árið 2009 var einmitt heitasta árið á suðurhveli frá því mælingar hófust.

Hansen09_fig1

Gögn frá NASA, vinstra megin fyrir allan hnöttin og hægra megin fyrir norðurhvel (rautt) og suðurhvel (blátt). Hægt er að smella á myndina til að stækka.

Helstu náttúrulegu sveiflur sem vitað er að hafa áhrif á skammtímasveiflur í hitastigi jarðar eru ENSO, sólin og eldgos.

ENSO:

Hlýr sjó við miðbaug Kyrrahafs sýnir El Nino þann 1. desember 2009  (mynd af heimasíðu NASA)

Hlýsjávarfrávik við miðbaug Kyrrahafs sýnir El Nino þann 1. desember 2009 (mynd af heimasíðu NASA)

Eins og kom fram í færslunni um hitastig ársins 209 þá byrjaði árið í neikvæðum El Nino fasa (svokölluðum La Nina) sem hafði haft áhrif til lækkunar hitastigs fyrir árið 2008. Þegar leið á árið, þá náði jákvæður El Nino fasi yfirhöndinni. Umskiptin urðu um mitt árið 2009 og því má eiginlega segja að bæði kólnun og hlýnun af völdum ENSO sveiflunnar hafi haft einhver áhrif á hitastigið og jafnvel spurning hvort þau áhrif hafi þá jafnað sig út og við séum að sjá raunverulegar sveiflulausar hitatölur fyrir 2009 (sagt án ábyrgðar).

Talið er að El Nino haldi áfram fram á vor, en erfitt er að spá fyrir um það, en í hvaða fasa hann er, skiptir miklu máli varðandi hitastig ársins 2010. Hitamet eru yfirleitt sett á El Nino árum, því þó að hlýnun jarðar stjórnist af gróðurhúsaáhrifunum, þá eru sveiflur í hitastigi af völdum El Nino það sterkar að hitamet falla yfirleitt – sú hitun gengur jafnan aftur til baka á La Nina árum og þá heyrast oft háværar raddir um að það sé að kólna.

Sólblettir og sólvirkni:

Lítil virkni sólar undanfarið hefur vakið athygli vísindamanna, en mikil lægð hefur verið í sólblettasveiflum síðustu 2 ár. Alveg frá því í byrjun árs 2008 hafa komið fréttir af því að sólblettasveifla 24 sé byrjuð, en nú hlýtur hún að vera byrjuð.

Spá NASA/ Marchall Space Flight Center um framhaldið í sólblettasveiflu sólarinnar.

Spá NASA/ Marchall Space Flight Center um framhaldið í sólblettasveiflu sólarinnar.

Lítil sólgeislun/sólvirkni (Total Solar Irradiance -TSI)  fylgir fækkunum sólbletta og hefur dregið nokkuð úr henni undanfarna áratugi:

Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn blá lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk blá lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni - TSI (þunn rauð lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk rauð lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn blá lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk blá lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni - TSI (þunn rauð lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk rauð lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

Eins og sést af myndinni hér fyrir ofan þá er virknin niður á við í sólinni, á sama tíma og hiti jarðar hefur aukist.

Árið 2009 fór saman minnsta virkni sólar í um 100 ár og annað heitasta árið samkvæmt NASA. Það má álykta sem svo að sú sveifla hafi eitthvað dregið úr hitastiginu fyrir árið 2009, en greinilegt þó að áhrif sólvirkni á hitastig fer minnkandi, allavega í hlutfalli við þá hlýnun sem að gróðurhúsaáhrifin valda.

Ef litið er á spár fyrir sólvirkni á árinu, þá er óvissan mikil – NASA býst þó við að virknin aukist á árinu og gæti það haft einhver áhrif til hlýnunar fyrir árið 2010. En þó má búast við að þau áhrif verði hverfandi.

Eldgos

Nokkur eldgos urðu á árinu 2009, en ekkert þeirra er talið hafa haft teljandi áhrif á hitastig jarðar og þá til kólnunar. Eins er ómögulegt að spá fyrir um hvort slíkt muni henda á árinu 2010.

Horfur með hitastig 2010

Eins og sést ef skoðaðar eru helstu náttúrulegar sveiflur og spár um þær, þá bendir margt til þess að árið 2010 verði heitara en árið 2009 og jafnvel talið líklegt að það geti orðið heitasta árið frá því mælingar hófust. Ástæðan fyrir því er þá helst talin vera áframhaldandi hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa og líkur á áframhaldandi meðalsterkum El Nino – ef aftur á móti það verða snöggar breytingar í El Nino og nægilega mikil eldvirkni til að valda kólnun, þá eru minni líkur á því að árið 2010 verði það heitasta frá upphafi mælinga.

Tengdar færslur á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál