Um svipað leiti í fyrra þá setti undirritaður niður á blað vangaveltur um hitahorfur fyrir árið 2010. Þetta voru vangaveltur út frá því hvernig hitastig yrði miðað við áframhaldandi hlýnun jarðar af mannavöldum og reynt að meta hvaða áhrif mismunandi náttúrulegur breytileiki í loftslagi myndi hafa fyrir það ár. Þar voru settar á blað þessar pælingar:
Eins og sést ef skoðaðar eru helstu náttúrulegar sveiflur og spár um þær, þá bendir margt til þess að árið 2010 verði heitara en árið 2009 og jafnvel talið líklegt að það geti orðið heitasta árið frá því mælingar hófust. Ástæðan fyrir því er þá helst talin vera áframhaldandi hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa og líkur á áframhaldandi meðalsterkum El Nino – ef aftur á móti það verða snöggar breytingar í El Nino og nægilega mikil eldvirkni til að valda kólnun, þá eru minni líkur á því að árið 2010 verði það heitasta frá upphafi mælinga.
Það hefur síðan komið í ljós að árið 2010 varð heitara en 2009 og heitast eða jafnheitasta árið frá upphafi mælinga – fer eftir hitaröð (sjá t.d. Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS og Árið 2010, heitt og öfgafullt).
Hitabreytingar síðustu öld og áratugi
Ef skoðaðar eru helstu hitaraðir sem sýna breytingar í hitastigi Jarðar, þá kemur þeim mjög vel saman:
Hér að ofan eru sýndar helstu hitaraðir fengnar úr yfirborðsmælingum hitastigs frá veðurstöðvum víða um heim, oft notuð sömu gögnin en með mismunandi úrvinnsluaðferðum. Að auki eru til gervihnattamælingar (RSS og UAH) og útreiknað hitastig úr neðri hluta veðrahvolfsins, en þær mælingar sýna svipaða sögu og yfirborðsmælingar, eins og mælingar síðustu rúma þrjá áratugi bera vitni um:
Ef reiknuð er leitni hitastigs, þá sýna allar hitaraðirnar ákveðna hækkun hitastigs, UAH þó sínu minnsta hækkun.
Hitaröð | Hlýnun (°C/ár) |
GISS | 0.0176 |
NCDC | 0.0171 |
HadCRU | 0.0169 |
RSS | 0.0163 |
UAH | 0.0141 |
Náttúrulegur breytileiki og tregða hans (time lag)
Með tölfræðilegum aðferðum (sjá Tamino) er hægt að draga frá útreiknað geislunarálag hvers náttúrulegs breytileika (þ.e. hvaða áhrif viðkomandi náttúrulegur breytileiki hefur til hlýnunar og kólnunar). Þeir náttúrulegu þættir sem hafa hvað mest áhrif á sveiflur í hitastigi er ENSO sveiflur (þ.e. El Nino-La Nina), eldvirkni og sólvirkni.
Myndin hér að ofan sýnir hvaða áhrif til hækkunar og lækkunar hitastigs, El Nino og La Nina er talið hafa á hitastig – til hækkunar og lækkunar. Sambærilegar myndir eru til sem sýna áhrif eldvirkni og sólvirkni:
En ofangreind áhrif á hitastig gerast ekki samstundist og er það mismunandi eftir hitaröðum hvenær áhrifin koma fram, þ.e. hvort hitaraðir sýna hitastig við yfirborð Jarðar eða í neðra veðrahvolfi (eins og gervihnattagögnin mæla). Tregða (time lag) virðist vera um 3-5 mánuðir fyrir ENSO, sem þýðir að kólnun af völdum La Nina er um 3-5 mánuði að koma í ljós þegar skoðaðar eru hnattrænar hitabreytingar (þau áhrif koma síðar fram í gervihnattamælingunum). Þá tekur það sólvirkni um 2-3 mánuði að hafa áhrif hnattrænt og eldvirkni um 3-9 mánuði (þau áhrif koma fyrst fram í gervihnattamælingum og síðar við yfirborð Jarðar).
Hitabreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda
Þegar búið er að draga frá áhrif náttúrulegs breytileika, eins og minnst er á hér að ofan, þá koma í ljós hin eiginlegu áhrif hlýnunar sem eru af völdum gróðurhúsalofttegunda:
Hér hefur verið stokkið yfir nokkur skref í úrvinnslu og er mælt með að menn lesi Tamino til frekari útskýringa (sjá heimildir). Þegar búið er að draga frá náttúrulegan breytileika, þá er leitnin í hitaröðunum eftirfarandi:
Hitaröð | Hlýnun(°C/ár) |
GISS | 0.0172 |
NCDC | 0.0172 |
HadCRU | 0.0171 |
RSS | 0.0183 |
UAH | 0.0159 |
Horfur með hitastig ársins 2011
Hér að neðan mun ég miða við GISS hitaröðina, sem af mörgum vísindamönnum (sérstaklega vestan hafs) er talin fremri hinum röðunum, athugið að þetta eru bara pælingar til skemmtunar og umræðu og ekki talin eiginleg spá – þar sem allar tölur eru í raun áætlaðar, bæði hvernig náttúrulegur breytileiki verður á þessu ári og hversu mikil áhrif sá breytileiki hefur (aðallega sjónrænt mat út frá línuritum af minni hálfu).
Þegar skoðaðar eru horfur hvað varðar hitastig ársins 2011, þá kemur fljótt í ljós að ákveðið náttúrulegt bakslag er líklegt. Hitafrávikið árið 2010 var um 0,63°C samkvæmt GISS og munaði miklu um að El Nino hitti vel á árið (samanber hina 3-5 mánuða tregðu í að áhrif hitastigs komi fram hnattrænt). Að sama skapi mun La Nina hitta vel á þetta ár og er þar um að ræða sterka niðursveiflu í hitastigi, en nú er eitt sterkasta La Nina í nokkra áratugi í gangi og mun það halda áfram allavega fram á vor. Náttúruleg niðursveifla upp á hátt í -0,15°C (jafnvel meira) er því allt eins líkleg í ár af völdum La Nina.
Sólvirkni er ólíkleg til að hafa mikil áhrif á hitastig, en núverandi niðursveifla sólar heldur áfram. Ef einhver áhrif verða, þá verða þau í átt til lítils háttar hlýnunar (mögulega +0,01°C).
Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.
Áframhaldandi hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda er talin verða +0,02°C.
Ef lagt er saman hitastig ársins 2010 (0,63°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,02°C), sólvirkni (mögulega +0,01°C) og La Nina (allt að -0,15°C) – þá fæst um 0,51°C, en það yrði þá níunda heitasta árið samkvæmt hitaröð NASA GISS.
Hér að ofan er að sjálfsögðu eingöngu verið að fabúlera út frá vitneskju og greiningum annarra – auk sjónræns mats á línurtinum, en þó er líklegt að árið í ár verði kaldara en undanfarin ár (ef frá er talið 2008 sem var einnig óvenju kalt) – og munar þá mestu um hinn náttúrulega breytileika sem felst í La Nina. Vel getur verið að ég sé að ofmeta eða vanmeta ENSO (El Nino/La Nina sveifluna), en þar fer helsti áhrifavaldurinn hvað varðar þessar skammtímasveiflur milli ára – en þegar leitnin er skoðuð þá mun hin undirliggjandi hlýnun halda áfram af völdum styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Heimildir
Ein helsta heimildin fyrir þessari færslu og greiningar á náttúrulegum breytileika er fengin úr færslu Tamino og tenglum í hans færslu: How Fast is Earth Warming?
Umfjöllun NASA GISS um árið 2010: Despite Subtle Differences, Global Temperature Records in Close Agreement
Tengt efni á loftslag.is
- Árið 2010, heitt og öfgafullt
- Árið 2010 hlýjast samkvæmt NASA-GISS
- Óvenjulegt veður árið 2010
- Hitahorfur fyrir árið 2010 – upprifjun
Ætli það sé ekki best að taka þátt í óformlegri “spá” 😉
Ég ætla að koma með töluna 0,41°C hitafrávik fyrir árið 2011, sem yrði þá eitt kaldasta ár frá því eftir aldamót.
Útkoman er fengin þannig:
Hitafrávik NASA GISS árið 2010 0,63°C + 0,02°C (undirliggjandi hlýnun) + 0,01°C (sólvirkni) – 0,2°C (La Nina – aðeins hærra hjá mér en Höski reiknar með) – 0,5°C (minn eigin órökstuddi mínusstuðull) = 0,41°C hitafrávik árið 2011.
Ekkert ár eftir aldamót hefur verið þetta lágt samkvæmt GISS gagnaröðinni, sjá http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata/GLB.Ts+dSST.txt (hitafrávikið var 0,33°C fyrir árið 2000)
Ég ætla að botna þetta með 0,38°C og það án útreikninga. Í lok árs verða hlýnunarsinnar fyrir miklum árásum efasemdarmanna sem segja að ekkert sé lengur að marka global warming og boða yfirvofandi kuldaskeið og jafnvel litla-ísöld.
Ætli við þurfum nokkuð svo mikla lækkun hitastigs til að verða fyrir árásum “efasemdarmanna”…það hefur nú dugað hingað til bara að vilja nefna þessa hluti.
Gaman að þessu – hvað leggjum við undir 😉
Ég hef náttúrulega minnstan möguleikann eins og spár standa, ég verð því sjálfkrafa ragur við að leggja nokkuð undir 😉
Til að ég “vinni” þarf hitafrávikið að vera á bilinu 0,395 – 0,435, s.s. mitt “vinningssvið” er 0,04°C, það er því ekki miklar líkur á vinningi hjá mér…
Við getum þá haft skekkjumörkin +/-0,01°C þannig að það yrði enginn sigurvegari ef frávikið er meira. Snýst þetta ekki bara um titilinn Heimsmeistarinn í hitaspám (eða a.m.k. Íslandsmeistari)?
Heimshitameistari, er það ekki bara málið 🙂
Annars líst mér ágætlega á skekkjumörk, spurning að hafa þau aðeins meiri, jafnvel þó það sé hugsanlegt að frávikin leggist saman, þá á bara við sá sigrar sem er næstur og innan skekkjumarkanna…eða hvað? T.d. skekkjumörk upp á +/- 0,02°C – aðeins meiri möguleiki á “réttu” svari, þó hann sé hugsanlega hverfandi 😉
Mér lýst vel á það – við notum GISS gögnin og skekkjumörk +/- 0,02. Sá sem er innan skekkjumarkanna fær titilinn Hnatthitaspámeistari Íslands 2011. Heiðurinn er því mikill 😉
Ef enginn er innan marka þá vinnur enginn.
Það er enn pláss fyrir fleiri giskara ef einhver vill vera með 🙂
FYI, intrade.com er með nokkur loftslagbreytingaveðmál.
Ég nota aðeins aðra aðferð en Höski en kemst að svipaðri niðurstöðu. Miða við árið 2008 sem einkenndist af La Nina og með hitafrávik 0.44 C. Bæti við þetta 0.06 C vegna 3ja ára aukinna gróðurhúsaáhrifa, og fæ þá út 0.51 C frávik. Ég geri ráð fyrir að sólarvirkni 2011 verði ekki svo frábrugðin því sem hún var 2008 að það komi fram í hitastigi. La Nina fyrirbærið gæti þó orðið heldur sterkara að þessu sinni og þess vegna slumpa ég á 0.47 C hitafrávik sem mitt framlag í keppnina.
Þetta fer að verða flottur spáleikur. Með þessum spádómum og 0,2°C fráviki ætti að fást sigurvegari að ári. Við Sveinn Atli gætum þó báðir verið innan skekkjumarka ef niðurstaðan verður 0,39-0,40 en þá ætti að ráða úrslitum hvor verður nær réttri tölu.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni í ár. Mig langar að gera yfirlit yfir spá okkar:
Höski – 0,51°C +/- 0,02
Sveinn Atli – 0,41°C +/- 0,02
Emil – 0,38°C +/- 0,02
Jón Erlingur – 0,46°C +/- 0,02
Það er greinilega pláss fyrir fleiri spádóma og getur verið að ég hvetji fleiri til að taka þátt í færslu fljótlega, ásamt því að rifja upp það sem komið er, enda gildir þetta titilinn Hnatthitaspámeistari Íslands 2011, hvorki meira né minna 😉
Miðað við mælingar fyrstu átta mánuði ársins, þá er ég næstur réttri tölu enn sem komið er – þ.e. frávik upp á 0,51°C sjá tölur frá GISS 🙂
Það kemur mér nú dáldið á óvart að tölurnar séu þetta háar, en ég geri þó ráð fyrir að möguleikar þínir séu ágætir á að ná réttri tölu. Ef frávikið verður upp á ca. 0,51, þá er einnig mögulegt að árið komist á topp 10 yfir heitustu árin frá upphafi…
Þið á Loftslag.is talið mikið um hlýnun Jarðar vegna lofstlagsbreytinga.
Hvað viljið þið gera í því?
Hvað á hinn almenni borgari að gera í því?
Getur eiginlega ekki verið að við séum að fara inn í nýtt Mauenderminimum með kólnandi loftslagi?
Hrafnkell Snorrason
Takk fyrir athugasemdina.
Fyrst langar mig að nefna að þú virðist hafa ruglast eitthvað í fyrstu setningunni. Við fjöllum um vísindin á bak við kenninguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum, sem getur valdið loftslagsbreytingum. Hnattræn hlýnun er ekki vegna loftslagsbreytinga… En hvað um það, þetta er væntanlega bara smá innsláttar villa.
Við höfum skrifað um lausnirnar hér á loftslag.is – kannski best fyrir þig að skoða það fyrst um sinn, þér er svo velkomið að spyrja nánar út í efnið eftir þann lestur, sjá Lausnir og mótvægisaðgerðir – þar er komið inn á ýmislegt sem hægt er að gera.
Þessi umræða um hið svokallað Maunderminimum tímabil og hugsanlega endurtekningu á því hefur komið upp reglulega – virðist m.a. vera í gangi um þessar mundir. Í eftirfarandi tenglum má finna eitthvað um það efni:
Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Við minni virkni sólar
Þarna kemur eftirfarandi m.a. fram:
Gangi þér vel með að kynna þér þetta sem ég vísa á Hrafnkell. Þér er velkomið að koma með fleiri spurningar ef áhugi er fyrir því. Takk fyrir spurningarnar.
Takk fyrir svarið Sveina Atli og athyglisverðar ábendingar..
Ég held reyndar að mannkynið sé smátt og smátt að tileinka sér þessar mótvægisaðgerðir sem nefndar er í hlekkinum sem þú vísar til.
Ég hef reyndar mun meiri áhyggjur af kólnun Jarðar sem allt eins gæti átt sér stað næstu áratuginu með köldum, löngum og snjóþungum vetrum hér á landi, og svölum og vætusömum sumrum, sérstaklega fyrir börnin mín.
Slíkt veðurfar yrði ekki ósvipað því að við höfðum hér á árunum upp úr 1960 og fram undir 1990.
Á þessum árum voru ófærðir og snjóflóð hluti af hinu daglega líf á veturnar og samgöngur fóru iðulega úr skorðum, skip fórust vegna ísingar og oftar en ekki var ekki sjófært vegna hafíss.
Rafmagnsskömmtun var norm hér á landi vegna þess að uppistöðulón frusu eða línur slittnuðu vegna ísingar, og hitaveitan gaf sig iðulega þannig að kalt var í húsum svo dögum skipti.
Þetta voru daprir tímar og fólk flykktist til sólarlanda allir sem betur gátu í fríinu sínu í staðinn fyrir að eyða því á landinu kalda.
Að fara í borgarferðir til borga Evrópu var ekki inn í myndinni, því fólk þyrsti í sól og sumar eftir langa og kalda vetur hér og sólarlítil og vætusöm sumur.
Ég hef rætt þessa tíma við börnin mín og verði þetta raunin aftur ætla þau að flytja frá Íslandi til hlýrri landssvæða og aldrei að koma til Íslands aftur.
Er það virkilega svona tímar sem þið viljið fá aftur til að forða Jörðinni frá alheimshlýnun?
Og fyrst að Maunderminimum hefur verið nefnt, þá er talið að þetta kuldaástand geti varið í nokkra áratugi (sick!).
Ef svo er, þá er veðurfarsleg eða vistfræðilega framtíð Íslands ekki björt og því alveg hægt að kveðja landið fyrir fullt og allt.
Þar sem Hrafnkell er að endurtaka sig hér að miklu leiti og hefur sett svipaða athugasemd annars staðar, þá endurtek ég mitt svar við því hér:
Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara Hrafnkell – það er engin að tala um að að við viljum einhverja ákveðna kalda tíma – þó svo við bendum á að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hitastig. Það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um hvaða áhrif aukning gróðurhúsalofttegundir geta haft og hvað vísindin hafa um málið að segja. Við á loftslag.is erum nú mest að segja frá því á opinskáan hátt.
Ekki veit ég hvaðan þú hefur þínar heimildir um kólnun Jarðar, en ég endurtek bara hluta síðasta svar mitt Hrafnkell:
Þessi umræða um hið svokallað Maunderminimum tímabil og hugsanlega endurtekningu á því hefur komið upp reglulega – virðist m.a. vera í gangi um þessar mundir. Í eftirfarandi tenglum má finna eitthvað um það efni:
Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Við minni virkni sólar
Þarna kemur eftirfarandi m.a. fram:
Gangi þér vel með að kynna þér þetta sem ég vísa á Hrafnkell. Þér er velkomið að koma með fleiri spurningar ef áhugi er fyrir því. Takk fyrir spurningarnar.
Getum við þá ekki verið sammála um að hlýnunin hafi stöðvast (í bili) frá og með hausti 2010?
Seinni hluti nóvember í ár hefur verið kaldur og reyndar var kuldamet sett á Þingvöllum sl. nótt (miðvikudag 30. nóv.) og enn meiri kuldum er spáð næstu 10 daga amk.
Veðurglöggir menn líkt þessu við nóv-des. 1973, sem var óvenju kalt tímabil þar sem tíðin var erfið með miklum kuldum og snjóum.
Jafnvel er því spáð að veturinn 2011-2012 verði í kaldari og snjóþungari lægi og það sumri seint 2012 líkt og í ár.
Ættu þessar vísbendingar um kaldari tíð að róa það fólk sem óttast alheimshlýnun?
Sæll Hrafnkell.
Þú virðist í fyrsta lagi vera að rugla saman staðbundnum breytileika (á Íslandi) og hnattrænum hita. Yfir stuttan tíma er mikill breytileiki í veðri staðbundið – það fer t.d. mikið eftir braut lægða og sveiflukendra fyrirbæra eins og El Nino, AMO, PDO o.fl. hvernig veðrið er yfir stuttan tíma.
Því er ekki hægt að segja fræðilega að einhver hlýnun hafi stöðvast, nema að nægilega langur tími sé liðinn til að þær sveiflur hafi ekki lengur áhrif á loftslagsbreytingarnar. Til þess þarf oftast nær 15-30 ár eða svo – fer eftir hversu nákvæm gögn við erum með (gervihnatta eða hitamælingar við jörðu).
Í öðru lagi, þá virðist þú hafa undir höndum einhver gögn sem eru ólík þeim gögnum sem við könnumst við. Hitinn í ár er nefnilega í hæstu hæðum – bæði hnattrænt og staðbundið hér á landi. Því er varla hægt að ímynda sér að einhver stöðnun sé í hlýnuninni. Nóvember var hlýr og lengi vel héldu menn að hann myndi slá hitamet (sem ég held að hann hafi varla gert – lokatölur eru þó ekki komnar í hús svo ég viti).
Í þriðja lagi þá held ég að veðurglöggir menn séu almennt sammála um það að veðurfarið undanfarin ár er ekkert líkt kaldari árum síðustu aldar.
Í fjórða lagi, þá kannast ég ekki við spár um veðurfar fram eftir því sem af lifir vetri – þú getur kannski bent mér á það.
Að endingu vil ég taka fram að staðbundin sveifla í veðurfari hér, er ekki líklegt til að “róa fólk sem óttast alheimshlýnun” – þ.e. ef fólk hugsar aðeins út fyrir sitt nánasta umhverfi.
En kærar þakkir fyrir áhugann, vonandi dregur þetta svar ekki úr honum og endilega spurðu frekar ef einhverjar spurningar vakna að auki.
Höski.
Veðráttan nú minnir mikið á haustið og veturinn 1973-1974 sem var virkilegur vetur.
Hlýtt hafði verið framan af hausti 1973, en í seinnihluta nóvember breyttist þetta.
Allur desember var verulega kaldur 1973 og afar snjóþungur með truflunum á samgöngum og rafmagnsframleiðslu svo það varð að skammta rafmagn. Desember þetta ár var sá kaldasti á öldinni og mörg slys og óhöpp áttu sér stað sökum þessa.
Janúar og febrúar 1974 voru svo snjóþungir og kaldir og reyndar fyrri partur mars einnig, en um miðjan mars fór aftur að hlýna.
Vísbendingar um veðráttuna í vetur hef ég úr dönskum dagblöðum, en veðráttan þennan veturinn hegðar sér líkt og í fyrra vetur, hlýtt í Evrópu miðri, sem og Alaska og norður hluta Kanada, en kalt í Mið-Austurlöndum og í Bandaríkjunum.
Ég ítreka þá bara að hitinn nú er meiri en hann var árið 1973-74 – og nokkrir kaldir dagar í röð staðbundið á litlu svæði á norðurhvelii jarðar hefur lítil áhrif þar á.
Höski
Verð reyndar að segja núverandi kuldakast hefur ekki varað í nokkra daga í röð heldur er það komið á þriðju viku.
Svo er það ekki orðið staðbundið á litlu svæði, heldur eru stór svæði í N-Evrópu inni í kuldanum.
Allt útlit er líka fyrir að enn muni kólna og engar spár benda til þess að við sjáum plús-gráður hér á landi næstu 10 dagana.
Og hvernig útskýrir þú óvenju kalt vor sl. vor og seina sumarbyrjun? Eða þá svalt sumar í Evrópu og víða í N-Ameríku?
Er kólnuni bara ekki að koma.
Spái því að næstu áratugir verði veðráttan svipuð hér á landi og hún var á árunum frá 1960-1990, kaldir og snjóþungir vetur og svöl og vætusöm sumur.
Þetta ætti að gleðja ykkur og alla hina sem hafa áhyggjur af hlýnadi veðráttu.
NASA Finds 2011 Ninth Warmest Year on Record
😉
Höskuldur hefur unnið keppnina um titilinn Hnatthitaspámeistari Íslands 2011. Nú þarf bara að fara í gang með keppni næsta árs – kannski með verðlaun í þetta skiptið 🙂