Endurbirting færslu frá síðasta ári, þessa færslu má einnig finna á mýtusíðunni.
Röksemdir efasemdamanna…
Þar sem nýmóðins tölvulíkön geta ekki með góðri vissu spáð fyrir um veðrið tvær vikur fram í tíman, hvernig getum við treyst tölvulíkönum sem eiga að spá fyrir um loftslag jarðar eftir hundrað ár?
Það sem vísindin segja…
Veður er sveiflukennt og erfitt að spá fram í tíman. Loftslag, aftur á móti er í raun meðaltal veðurs í langan tíma. Með því að taka tölfræði veðurs yfir langan tíma þá eyðast sveiflur, sem gera loftslagslíkönum kleyft að spá með góðu móti um loftslagsbreytingar framtíðar.
Þessi rök bera vott um misskilning á muninum á veðri, sem er sveiflukennt og óútreiknanlegt og loftslagi sem er tölfræðileg lýsing á veðri yfir ákveðið tímabil. Þetta er svipað því að geta ekki spáð með vissu hvort þorskarnir eða skjaldarmerkið koma upp þegar þú kastar upp krónu, en þú getur sagt með tölfræðilegri vissu líkurnar á því hvor hliðin kemur upp ef þú kastar nógu krónunni nógu oft. Ef við skoðum þetta út frá veðri, þá er ekki hægt að spá nákvæmlega hvaða leið ákveðin lægð fer, á meðan meðalhita og meðalúrkomu er hægt að áætla fyrir visst langt tímabil.
Loftslagsspár eru erfiðar og sífellt í þróun. Ýmislegt er erfitt að sjá fyrir, t.d. hvernig sólin mun hegða sér í framtíðinni. Einnig geta skammtímasveiflur orðið af völdum El Nino eða eldvirkni sem líkön ráða illa við. Þrátt fyrir það, þá hefur loftslagsfræðingum tekist hingað til að stilla loftslagslíkön þannig að þau ná yfir helstu þætti loftslags.
Loftslagsspá James Hansens frá árinu 1988
Árið 1988, gerði James Hansen hitaspá fram í tímann (Hansen 1988). Þessi spá sýnir merkilega góða samsvörun við það sem mælingar hafa sýnt fram til dagsins í dag (Hansen 2006). Hansen setti inn í spá sína kröftugt eldgos árið 1995 (til að prófa hvort líkanið hermdi eftir áhrifum vegna eldvirkni) en klikkaði á tímasetningunni um nokkur ár (góð tilraun samt).
Sviðsmynd B hjá Hansen (lýst sem líklegasta möguleikanum og eftir á að hyggja sá möguleiki þar sem miðað er við svipaða losun á CO2 og síðar varð) sýnir góða fylgni við mælt hitastig. Í raun þá ofáætlaði Hansen framtíðarlosun CO2 um 5-10%, þannig að ef sett væri inn í líkan hans rétt geislunarálag CO2, þá yrði spá hans enn nær lagi. Það eru sveiflur frá ári til árs, en við því er að búast. Sveiflur í veðri munu alltaf sjást í hitamælingum frá ári til árs, en heildarleitnin er fyrirsjáanleg.
Líkt eftir viðbrögðum loftslags við eldgosið í Mount Pinatubo
Þegar eldfjallið Mount Pinotubo gaus árið 1991, þá gafst mönnum tækifæri að sannreyna hversu vel líkön geta spá fyrir um viðbrögð loftslagsins við það að brennisteinsörður (súlfat SO4) dældust út í andrúmsloftið. Líkönin náðu að spá nákvæmlega fyrir kólnun um 0,5°C sem varð fljólega eftir eldgosið. Einnig sáu líkönin fyrir sér breytingar í inngeislun og vatnsgufu (Hansen 2007).
Spá IPCC borin saman við mælingar
Spár IPCC (litaðar brotalínur) hafa verið bornar saman við mæliniðursöður frá HadCRUT (blá lína) og NASA GISS (rauð lína) (Rahmstoorf 2007). Þunnu línurnar er mælt árlegt meðaltal og þykku línurnar sýna langtímaleitni, sem eyða út skammtímasveiflur í veðri.
Það er ljóst að IPCC vanmat hitaaukninguna miðað við mælingar (þó innan óvissumarka). Í grein Rahmstoorf er velt upp möguleikunum á þessum mun. Einn möguleikinn er innri breytileiki veðurfars yfir svona stutt tímabil. Annar möguleiki er að geislunarálag frá örðum sem valda kólnun hafi verið minna en búist var við.
Þriðji möguleikinn er vanmat á jafnvægissvörun. IPCC gerir ráð fyrir að jafnvægissvörunin sé um 3°C, með óvissubil milli 1,7° – 4,2°C (sjá gráa svæðið á mynd 3). Einnig er töluvert af magnandi svörunum í loftslagskerfinu sem eru ekki fullkomlega ljós og því hafa þau ekki hátt gildi í IPCC líkönunum. Við það má bæta að óvissa í líkönum veldur hærri jafnvægissvörun. Líklegt má telja að hærri jafnvægissvörun útskýri þetta að hluta, en ekki allt. Lesa meira um spár IPCC frá 2001 á Skeptical Science…
Aðrar niðurstöður sem líkön höfðu spáð fyrir
- Kólnun heiðhvolfsins
- Hlýnun í neðra-, mið- og efra veðrahvolfi
- Hlýnun yfirborðs sjávar (Cane 1997)
- Leitni í hitainnihaldi sjávar (Hansen 2005)
- Orkuójafnvægi milli sólgeislunar inn í lofthjúpinn og innrauð geislun út (Hansen 2005)
- Mögnun hlýnunar á Norðurskautinu (mælingar frá NASA)
Tengdar færslur á loftslag.is:
- Trúverðug 10 ára veðurfarsspá?
- Minnkandi endurskin Norðurskautsins, magnar upp hnattræna hlýnun
- Kaldari svæði við hnattræna hlýnun
- Eru loftslagslíkön óáreiðanleg?
- Jafnvægissvörun loftslags
- Mýturnar
“Þessi rök bera vott um misskilning á muninum á veðri, sem er sveiflukennt og óútreiknanlegt og loftslagi sem er tölfræðileg lýsing á veðri yfir ákveðið tímabil. Þetta er svipað því að geta ekki spáð með vissu hvort þorskarnir eða skjaldarmerkið koma upp þegar þú kastar upp krónu, en þú getur sagt með tölfræðilegri vissu líkurnar á því hvor hliðin kemur upp ef þú kastar nógu krónunni nógu oft. Ef við skoðum þetta út frá veðri, þá er ekki hægt að spá nákvæmlega hvaða leið ákveðin lægð fer, á meðan meðalhita og meðalúrkomu er hægt að áætla fyrir visst langt tímabil.”
Ég varð nú að lesa þennan texta tvisvar – trúi því ekki að menn treysti sér til að verja þessa lýðsskrums-einföldun. Eru “loftslags”líkönin jafneinföld og að kasta krónu? Ég held að vísindamenn ættu að temja sér ákveðna hógværð. Síðast þegar ég vissi voru loftslagslíkönin aðeins flóknari. En úr því að þetta er svona einfalt – sérstaklega yfir langan tíma, þar sem er “tekið meðaltal” – hvað olli ísöldunum, hvar erum við stödd í þeim sveiflum og hvenær kemur sú næsta. Er það ekki enn einfaldara en að kasta krónu – þetta er jú “meðaltal” margra áratuga.
Egill:
Hvernig er þetta lýðskrumseinföldun?
Ef þú lest aftur textann sem þú vitnar í, þá sérðu að það að kasta upp krónu er notað sem dæmi til að einfalda fólki að skilja munin á veðri og loftslagi – það eru miklar hártoganir að halda því fram að við séum að segja að loftslagslíkön séu einföld.
Þar af leiðir er spurning þín um ísaldirnar í sjálfu sér byggð á sama misskilningi – hitt er þó víst að við höfum skrifað um ísaldir og kuldaskeið og mælum með lestri þeirrar færslu: Er lítil ísöld eða kuldaskeið að skella á?
Ég held ég láti Freeman Dyson svara þessu : “My impression is that the experts are deluded because they have been studying the details of climate models for 30 years and they come to believe the models are real. After 30 years they lose the ability to think outside the models.”
Bendi á mjög áhugavert
…vantaði endann á póstinn:
…samtal” milli Steve Connor og Freeman Dyson: http://www.independent.co.uk/environment/climate-change/letters-to-a-heretic-an-email-conversation-with-climate-change-sceptic-professor-freeman-dyso-2224912.html
Gott og vel, en sem betur fer (eða því miður) þá byggja vísindamenn ekki eingöngu á “ófullkomnum” loftslagslíkönum. Sjá t.d. yfirlýsingu frá breska jarðfræðafélaginu um loftslagsbreytingar, en þar segir meðal annars:
Það er margt meira í þessari færslu, t.d. má lesa þetta:
Best er þó fyrir þá sem skilja ensku að lesa yfirlýsinguna í heild:
Yfirlýsing Breska jarðfræðafélagið (e. Geological Society of London) má finna hér: Climate change: evidence from the geological record (sjá einnig pdf skjal með yfirlýsingunni).
Mér finnst þetta nú undarleg fullyrðing hjá Freeman Dyson:
(feitletranir eru mínar)
Þeir eru nú vandfundnir sérfræðingarnir sem vinna með tölvulíkön sem telja þau vera lýsa raunveruleika eins og hann segir eða að þau segi nákvæmlega fyrir um framtíðina… En tölvulíkönin eru einn hluti þess sem eru notað við loftslagsrannsóknir, ásamt til dæmis jarðfræðigögnunum sem Höski bendir á og þau hafa reynst ágætlega til síns brúks, þó þau geti ekki sagt til um hluti með 100% nákvæmni.
Annað merkilegt í þessu “viðtali” við Dyson er að hann telur að CO2 sé sterk gróðurhúsalofttegund sem hækki hitastig á jörðinni og að styrkur CO2 hafi hækkað síðan beinar mælingar byrjuðu og að styrkur CO2 sé hár í sögulegu samhengi, allavega hærri en hann hefur verið í 800 þúsund ár. Merkilegt að sjá það.
Reyndar er hér sagt frá Dyson og grein sem hann skrifaði og byrjar á eftirfarandi orðum:
(feitletranir eru mínar)
En samt fjallaði grein Dyson næstum ekkert um loftslagslíkön eða annað það sem hann tiltekur þarna (sjá tengil í grein Michael Tobis)… Reyndar finnst mér alltaf merkilegt þegar fólk telur sig geta fullyrt svona með orðalagi eins og þarna kemur fram hjá Dyson um heila vísindagrein eins og þetta séu einskonar trúarbrögð. Svona orðalag eins og Dyson notar, er að mínu mati ekki til þess að maður fái meira álit á fullyrðingum viðkomandi.