Gátan um Yngra Dryas

Endurbirting á færslu frá því í apríl 2010

Um þúsund árum eftir að síðasta kuldaskeiði ísaldar lauk, þá steyptist Norðurhvel Jarðar aftur inn í ástand jökulskeiðs – og kuldatímabilið Yngra Dryas hófst (stundum kallað Búðarskeið hér á landi, fyrir 12.800-11.500 árum). Þetta tímabil kólnunar var töluvert og jöklar skriðu víða fram á Norðuhveli jarðar, en í Norður Evrópu féll hitastig gríðarlega hratt eða um 10°C á áratug (jafnvel skemur). Vísindamönnum hefur reynst erfitt að útskýra þessa kólnun og ýmsar kenningar eru til um ástæður þess.

Halastjarna

Ein kenning er vinsæl nú, þar sem gengið er út frá því að halastjarna hafi lent á jörðinni (Sjá Firestone o.fl 2007 og Kennett o.fl 2009) og valdið þessari kólnun (sjá t.d. nýlega bloggfærslu Haraldar Sigurðssonar sem heitir Daginn sem Demöntum ringdi yfir Ísland).

Talið er að Dvergmammútar hafi litið svona út.

Fundist hafa kristallar í setlögum frá byrjun Yngra Dryas sem Kennett o.fl telja að varla sé hægt að útskýra öðruvísi en við árekstur halastjörnu. Talið er að þessi árekstur útskýri útdauða nokkurra dýrategunda Norður Ameríku (m.a. Dvergmammúta – Pygmy Mammoth) og það sem styður það helst eru setlög sem benda til mikilla skógarelda á afmörkuðu tímabili rétt í byrjun Yngra Dryas (aðrar kenningar eru síðan til um útdauða þessara dýrategunda, t.d. ágangur manna o.fl. og því eru smiðir þessarar kenningar að berjast á tveimur vígstöðum, sjá t.d. Scott 2009).

Hitt er annað að þessi mikla kólnun sem varð stuttu eftir síðasta jökulskeið er ekki einstök – því það sama virðist hafa gerst á kuldaskeiðinu sem var að enda fyrir um 250 þúsund árum, við svipaða sjávarstöðu og Yngra Dryas varð – en það þykir benda til þess að jöklar hafi verið með svipaða útbreiðslu þegar þessir tveir atburðir urðu (Cheng o.fl 2009). Þá hefur öðrum ekki tekist að finna leyfar halastjörnu (Surovell o.fl. 2009 og Haynes o.fl. 2010). Gígurinn hefur heldur ekki fundist, en einnig er upplausn ískjarna ófullnægjandi til að finna þá miklu aukningu í styrk ammóníum (og aðra efna) sem óneitanlega myndi þyrlast upp í andrúmsloftið við árekstur sem myndi valda slíka kólnun. Meiri upplausn gagna úr ískjörnum gæti þó breytt þeirri skoðun (Carlson 2010).

Risaflóð

Flóðið á Yngra Dryas fyrir 13 þúsund árum, gæti hafa farið út í Norður-Íshafið um árósa Mackenzie fljótsins. Mynd W. Lynch/Photolibrary.com

Vinsælasta kenningin síðustu 20 ár, um ástæður kólnunarinnar, er að mikið flóð leysingavatns frá jöklum Norður Ameríku hafi valdið þessari kólnun, með því að stöðva tímabundið hið svokallaða seltu- og hitafæriband sjávar (e. thermohaline circulation) sem meðal annars veitir hlýjum sjávarstraumum í Norður Atlantshafið (Broecker o.fl 1989). Það sem styður það ennfremur er að erfitt hefur reynst að sjá þessa kólnun á Suðurhveli Jarðar og því líklegt að Golfstraumurinn hafi hægt mikið á sér eða stöðvast tímabundið. Því hefur þetta þótt nokkuð sennileg kenning, en aðalgalli hennar hefur helst verið að leið flóðsins til hafs hefur ekki fundist eða þar til nú.

Vísindamenn hafa til þessa hallast að því að flóðið þyrfti að hlaupa út í Norður-Atlantshafið, til að geta haft áhrif á hitafæribandið. Broecker (1989) taldi að vatn frá stöðuvatni sem kallað er Lake Agassiz, sem myndaðist við hörfun og bráðnun jökulbreiðunnar sem var yfir Norður Ameríku (svokölluð Laurentide jökulbreiða) hefði runnið til austurs í Norður Atlantshafið. Vísindamenn telja sig nú hafa fundið sönnunargögn um flóðafarveg til norðurs, um árósa Mackenzie fljótsins, sem bendir til að flóð hafi hlaupið yfir í Norður-Íshafið (Murton o.fl 2010).

Vísindamennirnir aldursákvörðuðu sand, möl og hnullunga frá sorfnu yfirborði í Athabasca dal og árósum Mackenzie fljótsins í Norðvestur Kanada. Jarðfræðileg ummerki benda til að þessi svæði hafi orðið fyrir tveimur stórum jökulflóðum og hið fyrra af þeim varð í byrjun Yngra Dryas. Þeir þurftu þó að hnika áður áætluðum jaðri jökulbreiðunnar lítillega austur til að hleypa vatninu af stað leið sína í Norður-Íshafið.

Broecker telur að það sé líklegra að jökulhlaup sem hlaupið hefði í Norður-Íshafið hefði getað haft áhrif á seltu- og hitafæribandið, þ.e. frekar en hlaup um St. Lawrence fljótið, eins og áður hefur verið talið líklegast. Það útskýrir hann með því að kaldsjórinn ,sem að knýr áfram færibandið, sekkur nær Grænlandi og því hefði púls af fersku vatni úr Norður-Íshafinu og yfir í Norður-Atlantshafið vel getað stöðvað færibandið.

Niðurstaða

Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til þessara kenninga og fleiri hafa verið nefndar til sögunnar – hvort heldur varðandi ástæður útdauða dýrategunda á Yngra Dryas og hvað olli kólnuninni. Þá sem þetta skrifar hallast þó frekar að flóðakenningunni.

Hitt er annað, að loftslagsbreytingarnar á Yngra Dryas sýna hvað best hversu viðkvæmt loftslag jarðar er og víst að ekki eru öll kurl komin til grafar hvað varðar loftslagsbreytingar á Yngra Dryas – auk þess sem óljóst er hversu miklar þær voru í raun og veru, hnattrænt séð.

Heimildir

Broecker o.fl 1989: Routing of meltwater from the Laurentide Ice Sheet during the Younger Dryas cold episode
Carlson 2010: What Caused Younger Dryas Cold Event?
Cheng o.fl 2009: Ice Age Terminations
Firestone o.fl 2007: Evidence for an extraterrestrial impact 12,900 years ago that contributed to the megafaunal extinctions and the Younger Dryas cooling
Haynes o.fl. 2010 (ágrip): The Murray Springs Clovis site, Pleistocene extinction, and the question of extraterrestrial impact
Kennett o.fl. 2009: Shock-synthesized hexagonal diamonds in Younger Dryas boundary sediments
Murton o.fl 2010 (ágrip): Identification of Younger Dryas outburst flood path from Lake Agassiz to the Arctic Ocean
Scott 2009: Extinctions, scenarios, and assumptions: Changes in latest Pleistocene large herbivore abundance and distribution in western North America
Surovell o.fl. 2009: An independent evaluation of the Younger Dryas extraterrestrial impact hypothesis

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál