Það er merkilegt hvernig umræðan um loftslagsmál hefur oft á tíðum hangið í sama farinu. Fyrir 13 árum síðan birtist grein eftir Pál Bergþórsson, fyrrum Veðurstofustjóra, varðandi umræðu um loftslagsmál. Þá, líkt og nú, var haldið á lofti alls kyns rökleysum sem áttu á einhvern hátt að gera lítið úr rannsóknum vísindamanna varðandi hlýnun Jarðar og breytingum á loftslagi. Núna 13 árum síðar má segja að svipuð öfl ráði enn ferðinni þegar kemur að umræðunni, þar sem reynt er í krafti staðhæfinga og fullyrðinga (sem oftast standast ekki nánari skoðun) að gera lítið úr loftslagsvísindunum og rannsóknum vísindamanna. Það má segja að mýtusíðan hér á loftslag.is sé afsprengi þeirrar umræðu.
Grein Páls nefnist “Grautur af gróðurhúsaáhrifum” og þar ræðir hann m.a. um aðferðafræði hina sjálfskipuðu “efasemdarmanna” og segir m.a. eftirfarandi:
Þannig hefur verið reynt að gera tortryggilegar þær staðreyndir sem máli skipta, drepa málinu á dreif.
Þetta er nokkuð sem við á loftslag.is höfum marg oft séð í umræðunni. Og það virðist ekki hafa mikil áhrif þó svo almennur einhugur virðist ríkja meðal vísindamanna um áhrif gróðurhúsalofttegunda á hlýnun andrúmslofts. Sá einhugur vísindamanna hefur síst minnkað og orðið enn meiri en áður á síðustu árum.
Um hlýnun Jarðar og tengsl við gróðurhúsalofttegundir komst hann svo að orði, sem er nokkuð í samræmi við einhug vísindamanna í þessum málum:
Það er enginn vafi lengur á því að loftslag jarðar fer hlýnandi í takt við aukningu svonefndra gróðurhúsalofttegunda sem mannskepnan losar út í andrúmsloftið. Mestan þáttinn í þessu á sú brennsla olíu, jarðgass og kola sem myndar koltvísýring.
Um þátt hagsmunaaðila í því að dreifa málinu á dreif orðar hann það svo:
En af hverju hafa menn verið að draga þessar staðreyndir í efa? Þeir sem hafa af því atvinnu og hagsmuni að selja olíu, gas og kol telja sér ógnað ef þjóðirnar gera ráðstafanir til að takmarka notkun þessa eldsneytis. Þess vegna leggja þeir í það mikla fjármuni að gera valdhafa tortryggna á spár loftslagsfræðinga, og þeim hefur orðið talsvert ágengt.
Já, þetta eru hlutir sem við erum enn að hamra á hér 13 árum síðar, enda virðast röksemdir, mælingar og rannsóknir ekki bíta á afneitun þeirra sem vilja snúa út úr vísindarannsóknum um loftslagsmál. Hitt er líka umhugsunarvert að almenningur virðist ekki vilja vita af þessu vandamáli, en það hefur kannski eitthvað með hina miklu umfjöllun hina sjálfskipuðu “efasemdarmanna” að gera, enda þægilegra að lifa í afneitun um þessi fræði en þurfa hugsanlega að huga að lausnum til framtíðar.
Grein Páls má lesa í heild á vefnum tímarit.is, GRAUTUR AF GRÓÐURHÚSAÁHRIFUM
Tengt efni á loftslag.is:
- Samhljóða álit vísindamanna styrkist
- Efasemdir eða afneitun
- Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdarmanna” um hnattræna hlýnun
- Rökleysur loftslagsumræðunnar
- Viðtal við vísindamanninn Gavin Schmidt
- Mýtusíðan
Leave a Reply