Hnatthitastig fyrsta ársfjórðungs og “Hnatthitaspámeistari Íslands 2011”

Eitthvað hefur fréttum af hitastigi á heimsvísu verið ábótavant upp á síðkastið hér á loftslag.is. En fyrir því eru einfaldar ástæður, sem eru að sjálfsögðu hinir miklu kuldar um allan heim sem við viljum að sjálfsögðu ekki greina frá – enda myndi hið endalausa fjáraustur frá kolefnissköttunum stöðvast við þess háttar váfréttir 😉 … En spaugi sleppt, þá hefur einfaldlega ekki gefist tími í allt sem hugur okkar hér á ritstjórninni leitar til – það þarf að velja og hafna.

Þess ber, í ljósi þessa tímaleysis okkar, að geta að við erum að leita fyrir okkur um einhverja aðila sem eru tilbúnir að skrifa fast á loftslag.is, svokallaða “fasta penna”, eins og við veljum að kalla það. Ef einhverjir hafa áhuga á að taka að sér smá skrif (engar kvaðir um magn, en innihald þarf að tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt) þá endilega hafið samband. Við munum þá gaumgæfa CV-ið, ættartengsl og pólitískar skoðanir viðkomandi í kjölfarið – gott er að þekkja einhverja gallharða stjórnmálamenn með lævísar skattahugmyndir – það hjálpar bara 😉 Launin eru ótakmörkuð virðing pólitískra venslamanna og vina, vanþakklæti “efasemdamanna”, stanslaust þakklæti Al Gore og elítunnar sem senda okkur reglulega feita tékka úr digrum sjóðum kolefnisskatta og hinnar svokölluðu grænu gjaldtöku. Þar fyrir utan er þetta ágætis námskeið í ensku (alveg ókeypis og á eigin vegum), svo ekki sé talað um réttritun okkar ylhýru íslensku og þjálfun í ritvinnslu (einnig ókeypis og eftir áhuga viðkomandi) 😀

En núna, eftir þetta létta hjal, skulum við líta á hitastig (afkomu) fyrsta ársfjórðungs í stuttu máli og myndum og athuga svo hvaða “Hnatthitaspámeistara-tal” þetta er í yfirskriftinni…

Hitastig á heimsvísu – janúar til mars

Hér er fyrst mynd með hitafrávikum fyrir tímabilið janúar til mars 2011:

Svo skulum við skoða hvern mánuð fyrir sig í eftirfarandi töflum, byrjum á janúar:

Janúar Frávik Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land +0,45°C 29. heitasta 2007 (+1,75°C)
Haf +0,35°C 11. heitasta 1998 (+0,56°C)
Land og Haf +0,38°C 17. heitasta 2007 (+0,82°C)

Svo febrúar:

Febrúar Frávik Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land +0,51°C 28. heitasta 2002 (+1,60°C)
Haf +0,36°C 10. heitasta 1998 (+0,56°C)
Land og Haf +0,40°C 17. heitasta 1998 (+0,83°C)

Og mars:

Mars Frávik Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land +0,83°C 12. heitasta 2008 (+1,83°C)
Haf +0,36°C 12. heitasta 2010 (+0,55°C)
Land og Haf +0,49°C 13. heitasta 2010 (+0,78°C)

Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til mars 2011:

Janúar – mars Frávik Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land +0,60°C 21. heitasta 2002 (+1,42°C)
Haf +0,36°C 12. heitasta 1998 (+0,56°C)
Land og Haf +0,43°C 14. heitasta 2002 (+0,72°C)

Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi fyrir tímabilið janúar til mars:

Þetta var hin þurra upptalning og núna vendum við okkar kvæði í kross.

Hnatthitaspámeistari Íslands 2011

Í byrjun árs skrifuðum við (Höski) færsluna Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011 þar sem farið var yfir hitahorfur ársins 2011. Í athugasemdum við þá færslu komu upp fróðlegar umræður um hitahorfur ársins og var í þeim pælingum velt upp spám um hitastig ársins sem er að líða. Í kjölfarið varð til einskonar keppni sem mun standa yfir þetta árið. Núna er vert að skoða tölurnar og gefa fleirum möguleika á að taka þátt í þessari óformlegu keppni…hvur veit nema að verðlaun verði í boði… Hér undir er spá þeirra sem gáfu álit sitt á hugsanlegu hitastigi ársins 2011 (sjá nánari útlistingar varðandi “spádómana” í athugasemdum hér):

Höskuldur Búi – 0,51°C +/- 0,02
Sveinn Atli – 0,41°C +/- 0,02
Emil Hannes – 0,38°C +/- 0,02
Jón Erlingur – 0,46°C +/- 0,02

Það er pláss fyrir fleiri spádóma, endilega látið ljós ykkar skýna, enda gildir þetta titilinn Hnatthitaspámeistari Íslands 2011, hvorki meira né minna 🙂 Það er fróðlegt að skoða þróunina hingað til og velta fyrir sér hvort að hitastigið muni halda áfram að hækka (mars er hlýrri en bæði janúar og febrúar) eða hvort það kólni kannski eitthvað eins og sumir “efasemdamenn” halda fram.

Þess má geta, að eins og fyrstu þrír mánuðurnir hafa þróast, sjá hér að ofan, þá er sá sem þetta skrifar með forrystu enn sem komið er, en allt getur gerst…

Gefið gjarnan upp hitastig í forminu x,xx°C +/- 0,02 í athugasemdum við færsluna. Gaman væri að fá útlistingu á ástæðum (þarf ekki). Nafn má gjarnan fylgja með.

Heimildir:

Tengt efni:

Smáaletrið:
Við erum að leita að “föstum pennum”, það er í sjálfu sér ekki neitt spaug, þó svo það hafi verið hlaðið spaugi hér að ofan – áhugasamir endilega hafið samband.
http://www.ncdc.noaa.gov/sotc/global/2011/3

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.