Könguló eykur útbreiðslu sína í Bandaríkjunum

Fiðlukönguló, Loxosceles reclusa

Sú könguló sem hvað flestir óttast í Norður Ameríku gæti aukið útbreiðslu sína við komandi loftslagsbreytingar samkvæmt nýrri rannsókn.

Það er fiðlukönguló (e. Brown recluse spider – La. Loxosceles reclusa). Þessi könguló er almennt séð talin meinlaus, en ef henni er ógnað þá getur hún bitið fólk með öflugu eitri sem valdið getur djúpu og sársaukafullu sári eða svörtu drepi.

Þess konar drep er ekki auðvelt að greina og læknar rugla þessu drepi oft saman við nokkrar tegundir krabbameina og Lyme sjúkdóminn (e. lyme disease).  Til að minnka líkur á að rangt sé greint er nauðsynlegt að þekkja útbreiðslu köngulónnar og hugsanlegar breytingar á útbreiðslu hennar.

Til að skoða það, þá notuðu Saupe o.fl 2011 kortlagningatækni sem notuð er til að spá fyrir um breytingar í vistkerfum. Notaðar voru sviðsmyndir um loftslag framtíðar og borið saman við útbreiðslu köngulónnar í miðvestan og sunnanverðum Bandaríkjunum. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að útbreiðsla hennar gæti aukist til norðurs og á svæði sem áður hafa verið laus við köngulónna.

Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir mögulegar neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytingar á menn og mun hjálpa læknum að fylgjast með því hvar líklegast sé að sár og drep geti verið vegna bits fiðluköngulónnar.

Heimildir og ítarefni

Umfjöllun um greinina á heimasíðu háskólans í Kansas: Brown Recluse Range Could Expand

Greinina má finna í PLoS ONE og er eftir Saupe o.fl. 2011: Tracking a Medically Important Spider: Climate Change, Ecological Niche Modeling, and the Brown Recluse (Loxosceles reclusa)

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál