Sjötta tímabil fjöldaútdauða í jarðsögunni

Á jörðinni er nú  í gangi tímabil fjöldaútdauða (e. mass extinction), sambærilegt við fyrri slík tímabil . Það er niðurstaða nýrrar rannsóknar þar sem reiknað hefur verið að líklega muni þrír fjórðu allra lífvera verða horfin eftir um það bil þrjár aldir. Þetta eru vissulega dómsdagspár – en góðu fréttirnar eru þær að enn er langt í þetta og hægt að snúa þróuninni við með sameiginlegu átaki jarðarbúa.

Yfir langt tímabil þá eru í gangi náttúruleg ferli sem verða til þess að nýjar tegundir lífvera þróast og aðrar deyja út. Það sem gerir tímabil fjöldaútdauða sérstök er að mikill meirihluti tegunda lífvera, allt að þrír fjórðu hluti þeirra hverfa á tiltölulega stuttum tíma.

Það hafa orðið fimm tímabil fjöldaútdauða lífvera í sögu jarðar:

  1. Fyrsta fjöldaútdauða atburðurinn varð í lok Ordovisium, en um 60% af ættkvíslum lífvera í sjó og á landi er talið hafa þurrkast út.
  2. Fyrir um 360 milljónum ára, í lok Devon þá varð fjöldaútdauði númer tvö á jörðinni.
  3. Steingervingagögn í lok Perm benda til fjöldaútdauða lífvera eða allt að 80-95% útdauði sjávarlífvera.
  4. Í lok Trías varð fjöldaútdauði um helmings hryggleysingja sjávar. Um 80% ferfætlinga á landi dóu út.
  5. Fyrir 65 milljónum ára, við lok Krítar er frægasti útdauðinn, en þá þurrkuðust út risaeðlurnar. Nánast ekkert stórt landdýr lifði af. Plöntur urðu einnig fyrir barðinu á sama tíma og sjávarlífverum í hitabeltinu var útrýmt að mestu.

Tímalína útdauða lífvera. Fimm tímabil eru merkt sérstaklega þegar mikill útdauði lífvera varð. Svartir kassar sýna tímabil þegar bil varð í vexti kóralrifja, múrsteinsmunstur sýnir tímabil töluverðar vaxtar kóralrifja (Veron 2008).

Margt veldur því að tegundir lífvera eru að deyja út um þessar mundir – loftslagsbreytingar, sjúkdómar, eyðing vistkerfa og samkeppni við aðfluttar ágengar lífverur. En er núverandi útdauði nægilega mikill til að teljast fjöldaútdauði númer 6?

Barnosky o.fl. (2011) reyndu að svara þessu í nýlegri grein í Nature. Fyrst reiknuðu þeir út hversu hratt spendýr hafa dáið út síðastliðin 65 milljónir ára út frá steingervingagögnum og komust að því að meðalhraði útdauða fyrir þetta tímabil er um tvær tegundir á hverjum milljónum ára. Síðastliðin 500 ár þá hafa 80 af 5570 tegundum spendýra dáið út. Það er útdauði sem er í raun hærri en á fyrri tímabilum fjöldaútdauða lífvera. Ef tegundir sem eru í útrýmingahættu eru teknar með þá er tíðnin enn hærri og útreikningar benda til að 75% útdauða verði náð eftir rúmar þrjár aldir.

Samskonar greining var gerð á tegundum froskdýra, skriðdýra, fugla, plantna, skelja og annarra lífvera. Svipað munstur kom í ljós – um 1-2% tegunda eru nú þegar útdauðar og 20-50% eru í hættu á að deyja út – sem nálgast þær tölur sem þekkt eru við fyrri fjöldaútdauða jarðsögunnar.

Heimildir og ítarefni

Greinin eftir Barnosky o.fl. (2011) birtist í Nature (ágrip): Has the Earth’s sixth mass extinction already arrived?

Góðar umfjallanir um greinina má lesa á heimasíðu Science, Skeptical Science og NSV.

Myndin er úr  grein Veron 2008 : Mass extinctions and ocean acidification: biological constraints on geological dilemmas

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál