Samkvæmt nýlegum gögnum þá eru jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins að bráðna sífellt hraðar með hverju árinu.
Margt bendir til þess – samkvæmt greiningu á fjölbreyttum gögnum (Rignot o.fl. 2011) – að bráðnun frá jökulbreiðum heimsskautanna sé að taka við af fjallajöklum og hveljöklum sem stærsti þátturinn í sjávarstöðuhækkun úthafanna. Það er mun fyrr en loftslagslíkön hafa bent til.
Hraði bráðnunarinnar hefur verið að aukast töluvert. Á hverju ári, á því tímabili sem skoðað var, bráðnaði að meðaltali um 36,3 gígatonn meira en á árinu áður.
Það að jökulbreiður verði ráðandi þáttur í sjávarstöðubreytingum er nokkuð sem búist hefur verið við – en hingað til hefur verið talið að aukningin myndi gerast hægar. Þessi rannsókn styður nýlegar rannsóknir sem benda til þess að IPCC frá árinu 2007, hafi vanmetið komandi sjávarstöðubreytingar.
Höfundar tóku saman gögn fyrir næstum tvo áratugi, af mánaðarlegum gervihnattamælingum bornum saman við gögn úr loftslagslíkönum til að kanna breytingar og leitni í bráðnun jökulbreiðanna.
Notaðar voru tvenns konar mæliaðferðir. Sú fyrri (aðferð A) bar saman annars vegar gögn um yfirborðsbreytingar með InSAR tækninni, auk þykktarmælinga þar sem notaðar eru bylgjumælingar (RES) til að áætla hversu mikið jökulbreiðurnar voru að missa og hins vegar staðbundið loftslagslíkan sem notað var til að áætla hversu mikið safnaðist saman á ákomusvæði jökulbreiðanna. Seinni aðferðin (aðferð B) notaði átta ár af gögnum við þyngdarmælingar með GRACE gervihnetti NASA.
Gögn frá þessum tveimur mismunandi aðferðum sýndu gott samræmi þegar þau voru borin saman, bæði hvað varðar heildarmagn massatapsins og hraða þess – þ.e. þau átta ár sem báðar mælingarnar voru í gangi. Þannig er hægt að álykta að gögnin sýni samfellda niðurstöðu frá árinu 1992.
Á hverju ári, þau 18 ár sem gögnin ná yfir, þá bráðnaði Grænlandsjökull um 21,9 gígatonnum meira heldur en árið áður. Á Suðurskautinu var það um 14,5 gígatonn meira á ári.
Það eykur gildi rannsóknarinnar að notaðar voru tvær óháðar aðferðir sem svona mikið samræmi var á milli og sýnir hversu mikið þekking á bráðnun jökulbreiðanna hefur aukist undanfarin ár og hversu mikið betri gögnin eru.
Ef áfram heldur sem horfir, samkvæmt höfundum, þá munu jökulbreiðurnar tvær auka sjávarstöðu um 15 sentimetra fyrir árið 205o – sem þýðir um 32 sentimetrar ef aðrir þættir eru teknir með í reikninginn. Óvissan er þó enn mikil, en þetta er töluvert meira en t.d. spár IPCC frá 2007.
Heimildir og ítarefni
Sjá grein í Geophysical Research letters, Rignot o.fl. 2011 (ágrip): Acceleration of the contribution of the Greenland and Antarctic ice sheets to sea level rise
Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu NASA, Jet Propulsion Laboratory: NASA Finds Polar Ice Adding More to Rising Seas
Tengt efni á loftslag.is
- Massabreytingar Grænlandsjökuls
- Íshellur Suðurskautsins brotna upp
- Er ís á Suðurskautinu að minnka eða aukast?
- Vatnsflæði eykur hraða bráðnunar jökulbreiða
- Heitur sjór streymir í Norður-Íshafið
Leave a Reply