Fyrir þá sem ekki hafa fylgst vel með nýjustu fréttum úr heimi “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun af völdum manna, þá birtist nýlega grein í Nature frá þeim sem rannsaka möguleikann á því að geimgeislar geti myndað kjarna sem gætu haft áhrif á myndun skýja og geti þar með haft áhrif á loftslag, en eins og allir vita þá eru ský mikilvægur þáttur í loftslagi jarðar.
Til að gera langa sögu stutta, þá hafa efasemdaraddir gerst háværar um að þarna sé búið að staðfesta kenningar Svensmarks (sjá Grein í Nature: Kenning Henriks Svensmark um áhrif geimgeisla og sólvirkni á skýjafar virðist hafa verið staðfest hjá CERN…). Fyrir utan fyrirsögnina, þá eru skemmtilegar setningar í þessari færslu, t.d.:
Niðurstöðurnar eru mjög jákvæðar fyrir kenninguna um samspil geimgeisla, virkni sólar og skýjafars.
Til hamingju Henrik Svensmark!
… einnig:
Var einhver að hvísla, ætli Henrik Svensmark eigi eftir að fá Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði? Hver veit?
Síðan er vísað í færslur um kenningar Svensmarks, kenningar sem hafa verið marghraktar (sjá Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar).
En hversu mikla staðfestingu hafa kenningar Svensmark fengið?
Eins og við höfum áður fjallað um, þá þarf margt að ganga upp til að staðfesta kenningar Svensmark um áhrif geimgeisla á núverandi loftslagsbreytingar:
Til að kenningin gangi upp, þá þarf að svara þremur spurningum játandi:
-
Veldur aukning geimgeisla aukinni skýjamyndun?
-
Breytir mismunandi skýjahula hitastigi jarðar?
-
Skýrir breyting í skýjahulu þá hlýnun sem orðið hefur undanfarna áratugi?
Hingað til hefur ekki verið hægt að svara spurningum þessum játandi og því fróðlegt að íhuga hvort eitthvað hafi komið í ljós í þessari nýju grein. Til að byrja með er rétt að taka fram að þessi nýja grein hefur í sjálfu sér ekkert með Svensmark að gera, því þótt höfundar greinarinnar séu fjölmargir þá er Svensmark ekki þar á meðal (sjá Kirkby o.fl. 2011).
Í stuttu máli sagt, þá kemur í ljós að höfundar fundu aukna kjarnamyndun við meiri jónun (þ.e. eins og búast má við af auknum geimgeislum), sérstaklega við aðstæður eins og í miðju veðrahvolfinu. Minni áhrif voru lægra í lofthjúpnum – þ.e. þar sem áhrifin á loftslag ættu að vera hvað mest (samkvæmt kenningum Svensmark). Aðalhöfundurinn sagði ennfremur í viðtali við Nature (sjá Nature Podcast) að í raun segði greinin
…ekkert um möguleg áhrif geimgeisla á ský og loftslag, en væri samt mikilvægt fyrsta skref.
Hægt er að hlusta á þetta viðtal í þessu nýja myndbandi frá Greenman:
Fyrst þegar þessi grein kom fram, þá hélt maður, að já kannski að búið væri að staðfesta 1. lið í geimgeislakenningu Svensmarks – en nei, ekki er það enn tilfellið. 2. og þá sérstaklega 3. liður eru einnig víðs fjarri, enda hefur sólvirkni og þar með áhrif frá geimgeislum, verið fjarri því að sýna leitni við hækkun hitastigs:
Því virðist þetta vera, eins og svo oft áður, upphlaup og tilefnislausar staðhæfingar þeirra sem hafa “efasemdir um hnattræna hlýnun af mannavöldum” – sjá t.d. Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun
Heimildir og ítarefni
Greinin í Nature eftir Jasper Kirkby o.fl. 2011 (ágrip): Role of sulphuric acid, ammonia and galactic cosmic rays in atmospheric aerosol nucleation.
Á Real Climate er fjallað um þessa grein: The CERN/CLOUD results are surprisingly interesting…
Einnig er umfjöllun um greinina á Skeptical Science, sjá: ConCERN Trolling on Cosmic Rays, Clouds, and Climate Change
Tengt efni á loftslag.is
- Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar
- Mýta: Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
- Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun
- Ósérhæfðir sérfræðingar
- Vísindi í gapastokk
Hvað sem líður áhrifum geimgeisla, þá sést ágætlega á neðstu myndinni að það eru lítil skammtímatengsl á virkni sólar og hitastigs jarðar. Hinsvegar er útfrá myndinni ekki alveg hægt að útiloka einhver langtímatengsl því að leitni beggja ferlana er upp á við á tímabilinu.
Tek fram að mér finnst líklegasta skýringin eftir sem áður vera aukinn útblástur CO2 en mér finnst myndin samt ekki skera endanlega úr um hvor þátturinn hefur meira vægi þegar kemur að langtímaáhrifum fyrir tímabilið í heild.
Kirkby segir líka í viðtalinu “… people are far too polarized…” þegar kemur að loftslagsbreytingum. Þið ættuð að taka það til athugunar.
Í stað þess að álykta að CLOUD sé afar áhugaverð tilraun til að svara spurningum um svið sem lítil þekking er á í dag, hlaupið þið í skotgrafirnar og ásakið hina og þessa um upphlaup og tilefnislausar staðhæfingar. Það væri auðveldlega hægt að snúa þeim ásökunum upp á ykkur.
Svensmark og félagar hafa mátt þola svívirðilegar persónuárásir vegna þess að kenningar þeirra eru ekki í samhljómi með “handhöfum sannleikans.” Fyrstu niðurstöður CLOUD rannsóknarinnar benda nú til þess að Svensmark og félagar kunni að vera á réttri braut með kenningar sínar. Þetta er þó aðeins fyrsta skrefið í 5-10 ára ferli áður en þessum spurningum verður svarað eins og Kirkby segir í viðtalinu.
Væri nú ekki ráð að horfa á vísindin í stað þess að einblína á aktivistana, hvoru megin línunnar sem þeir eru. Það gera alvöruvísindamenn. Hinir eru í pólitískum hráskinnaleik.
Hörður.
Hvergi kemur fram að okkur þyki þetta ómerkileg tilraun – en hitt ber ekki að neita að þessi tilraun svarar ekki þeim spurningum sem sumir telja að hún svari og efni þessa pistils er um.
Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma til að fara í nánari útlistun á öllum rannsóknum sem koma inn á okkar borð, en bendum á tengla oft beint í viðkomandi rannsókn (eins og í þessu tilfelli) og á grein vísindamanna (Real Climate t.d. en þar er fjallað um þessa áhugaverðu rannsókn).
Þú mátt vissulega benda okkur á það ef það kemur upp að það sem stendur á loftslag.is stangast á við vísindalega nálgun og að sjálfsögðu geta smitast inn mistök hjá okkur eins og öðrum – en þá leiðréttum við það, að sjálfsögðu.
Hitt ber að geta að nálgun Svensmark hefur ekkert með það að gera að koma vísindunum á réttan kjöl – sjá tengilinn Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar
Hörður
Þetta er áhugaverð skýrsla, sem því miður hefur ekki komið fram með nein svör sem styðja innihaldslausar og dapurlegar fullyrðingar eins og sumir “efasemdamenn” hafa haldið á lofti í sambandi við þessa skýrslu. Við erum fyrst og fremst að benda á upphlaup ýmisa varðandi þessa skýrslu í þessari færslu, svo sem ekki meira um það að segja.
Ef okkar nálgun fer í taugarnar á þér, þá ættu innihaldslausar fullyrðingar um meint innihald þessarar skýrslu af hálfu “efasemdamanna” einnig að vera athugaverðar í þínum augum, því þrátt fyrir áhugaverða skýrslu, þá er nefnilega ekkert í henni sem styður stór orð um að skýrslan “bend[i] nú til þess að Svensmark og félagar kunni að vera á réttri braut með kenningar sínar” – eins og þú m.a. staðhæfir um Hörður… En það er kannski kallað að fara í skotgrafirnar að benda á augljósar ranngfærslur “efasemdamanna” varðandi innihald skýrslunar…o, jæja, bara að þið lesið þetta, þar er kannski aðalmálið 😉
Þessar mælingar hjá CERN eru þarfar. Ástæða þess að þær lenda inn í mjög pólaríseraðri umræðu er söguleg, og nokkuð verk þeirra sem að þeim standa. Þegar upphaflega var sótt um styrk fyrir þessu verkefni var umsóknin sjálf full af rugli um samband skýja og geimgeisla. Sem dæmi má nefna :
Recent satellite data have revealed a surprising correlation between galactic cosmic ray (GCR) intensity and the fraction of the Earth covered by clouds. If this correlation were to be established by a causal mechanism, it could provide a crucial step in understanding the long-sought mechanism connecting solar and climate variability.
Fyrsta setningin er röng. Það höfðu þá ekki komið fram nein sannfærandi gögn sem tengdu GCR og skýjahulu. Það voru í besta falli “misvísandi vísbendingar”. Kirby skaut sig svo í fótinn með yfirlýsingum um samband sólvirkni og hlýnunnar.
Það er því ekki skrítið að “einföld” mæling skyldi lenda í þó nokkrum hremmingum, í deilum sem snerust um hvaða ályktanir sumir vildu draga af ófengnum mæliniðurstöðum og hvernig aðrir vildu mótmæla þessum ályktunum.
En vísindi eru vísindi, og þetta eru í grunninn mælingar á myndun þéttikjarna. Það hefur lengi verið vitað að jónun í lofti getur hvatað myndun þéttikjarna, en jafnframt leikið vafi á að geimgeislar geti haft nægilega mikil áhrif á jónun og þéttikjarnamyndun til þess að það síðan sjáist í skýjamyndun. Þessar mælingar hjálpa til við að staga upp þekkingargöt, því þær gefa upplýsingar um samband geislunar og jónunar lofts. Það er hinsvegar nokkuð í land að mælanleg áhrif séu á þéttikjarna og skýjamyndun. Það að vita hversu hratt jónun og þéttikjarnamyndun gerist, og hversu stór áhrif jónunarinnar eru, verður án efa gagnlegt. Sem dæmi leyfir það betrum bætt mat á þeim aðferðum sem beitt hefur verið á skýjagögn og geimgeisla, – en það er ekki ljóst að þær aðferðir geti greint kjarnan frá hisminu. Þetta eru því þarfar mælingar, þó enn sem komið er hafi þær ekki breitt heimsmyndinni….
Sæll Halldór og þakka þér fyrir upplýsingarnar.
Það er ljóst að mínu mati að Kyrby og félagar hafa að einhverju leiti kallað þessi viðbrögð yfir sig sjálfa, en það er samt leiðinlegt að þeir skuli lenda í þessum hremmingum loks þegar þeir eru hættir ótímabærum yfirlýsingum og farnir að halla sér að vísindunum. Ég meina að ef þeir hefðu ekki verið með yfirlýsingar í upphafi, þá hefðu “efasemdamenn” varla blásið þetta upp eins og þeir hafa gert.
Jæja, en hvað um það, þetta er ein af þessum grunnrannsóknum sem virðast ekki skipta miklu máli – en þegar upp er staðið þá mun þetta væntanlega verða eitt lítið púsluspil í að skilja samspil geimgeisla og skýjamyndunar.