Hafísinn á Norður-Íshafinu hefur nú náð sínu árlega lágmarki eins og komið hefur fram í fréttum. Hvað útbreiðslu varðar reyndist lágmarkið að þessu sinni vera það næst lægsta frá upphafi mælinga sem þýðir að árið 2007 heldur enn metinu. Lengi fram eftir sumri voru góðar líkur á því lágmarksmetið yrði slegið því eftir lágt vetrarhámark var mjög sólríkt þarna uppfrá lengi fram eftir sumri. Aðstæður urðu síðan misjafnari þegar lægðir fóru að gera vart við sig með dimmviðri og vindum sem blésu gjarnan í öfugar áttir miðað við það sem æskilegast þykir til að pakka ísnum saman eða hrekja hann í réttar áttir. Árið 2007 er hinsvegar talið hafa vera algert draumaár til að vinna á ísbreiðunni því þar gekk allt upp.
Reyndar má segja að það sé mesta furða hversu lágmark ársins er nú lágt miðað við aðstæður og sýnir það kannski best að nú þarf ekki lengur afbrigðilegar veðuraðstæður til þess að ná mjög lítilli útbreiðslu í sumarlok. Ástand hafíssins er nefnilega orðið það bágborið almennt. Ísbreiðan hefur þynnst mjög á síðustu árum auk þess sem gamall lífseigur ís er nánast að hverfa.
Hér að neðan er línurit frá hafísdeild dönsku veðurstofunnar þann 18 september þar sem borin er saman útbreiðsla síðustu ára.
Svarta línan sem stendur fyrir 2011 hefur greinilega náð sínum botni og það kannski heldur fyrr en hin árin. Eiginlega var þetta lágmark frekar stutt gaman því útbreiðslan hefur aukist nokkuð á ný síðustu daga og er strax komin upp fyrir 2008 línuna. Þetta var sem sagt ekki eins flatbotna lágmark og oftast áður. En veður og vindar eru síbreytilegir og því ekki útilokað að um einhverskonar tvíbotna lágmark verði að ræða.
Þann 11. september leit ísbreiðan út eins og sýnt er á myndinni hér að neðan en myndin er fengin af Cryosphere Today vefnum þar sem sjá má fleiri góðar myndir og línurit. Til samanburðar hef ég útlínað hið sögulega lágmark frá 2007.
Það sem einkennir ísbreiðuna nú í ár miðað við árið 2007 er að ísinn nú hefur bráðnað nokkuð jafnt allan hringinn með þeim árangri að vel siglingafært er í gegnum Kanadísku heimskautaeyjarnar og einnig norður fyrir Síberíu. Árið 2007 var hinsvegar óvenjulegt fyrir það hversu íslaust svæði át sig langt inn á Norður-Íshafið út frá Austur-Síberíu og inn að miðju en þó án þess að norðaustur-siglingaleiðin opnaðist. Til að ná þessari stöðu þurfti mjög eindregnar veðuraðstæður en spurning er hvernig hefði farið fyrir ísnum ef sömu aðstæður hefðu ráðið í sumar – ekki síst síðsumars.
Ég hef hér aðallega fjallað um útbreiðslu íssins sem er bara ein leiðin til meta ástand íssins og kannski ekki endilega sú besta til sýna hið eiginlega ástand. Stundum er talað um heildarflatarmál ísþekjunnar þar sem þéttleikinn spilar inn í. Í þeim samanburði kemur árið í ár svipað út og 2007 eða er jafnvel enn neðar. Meiru munar þó þegar þykktin er tekin í dæmið og heildarrúmmálið reiknað því þá kemur fram að heildarísmagn hefur ekki verið minna en núna, svo lengi sem þekkt er og hefur auk þess verið á hraðri niðurleið síðustu ár. Útbreiðslan er þó það sem oftast er horft á, kannski vegna þess að útbreiðslan er sýnilegust og auðvitað heldur ísinn sig ávallt við yfirborð sjávar, sama hversu þunnur hann er.
Takk fyrir góðan póst Emil.
Maður hefur gjóað augum að tölum sumarsins annað slagið og það var alltaf eins og þetta ár væri á mörkunum að ná árinu 2007 – það virðist sem að veðurfar hagstætt bráðnun hafi haldist nokkuð lengur árið 2007 en í ár.
Ég hugsa þetta yfirleitt út frá leitnilínum og mér sýnist að það þurfi töluvert óvenjulegt veðurfar á næsta ári til að náttúrulega sveiflan nái að yfirgnæfa bráðnunina – því spái ég hiklaust lágmarksmeti á næsta ár – því miður.
Sjálfur myndi ég reyndar hika aðeins ef ég ætti að spá fyrir um lágmark næsta árs, sérstaklega þegar kemur að útbreiðslu, auðveldara er kannski að spá því að heildarrúmmál íssins haldi áfram að minnka. En svo er aldrei að vita nema kalda bakslagið komi norðurslóðum, sem mig grunar reyndar að þið séuð ekki alveg tilbúnir að kaupa.
Jú, ég reyndar kaupi alveg að sá möguleiki sé fyrir hendi – þ.e. að það komi kalt bakslag þarna fyrir norðan. Finnst það ólíklegt – en mögulegt. Það fer allt eftir því hvernig hinn hnattræni hiti dreifir sér um jörðina :o)
Góð grein.
Economist birta umfjöllun um þetta og benda á að þetta er hraðara en hafíslíkön spá. http://www.economist.com/node/21530079
Ástæðan er margþætt, ekki bara vankantar hafíslíkana, heldur líka að ónæg upplausn í haflíkönum gerði það að verkum að þau misstu af lágseltulagi nærri
yfirborði í íshafinu (Arctic halocline). Sem dæmi má sjá mynd 6.8 í ACIA skýrslunni gömlu
(http://www.acia.uaf.edu/PDFs/ACIA_Science_Chapters_Final/ACIA_Ch06_Final.pdf). Með eða án aðlagana (sjá myndirnar hægra meginn) er núverandi (og ’07) lágmark áratugum á undan því sem gerist í meirihluta líkananna.
Árið í ár sýnir að 2007 var ekki einhver einstakur atburður (“100 ára atburður”) heldur virðist þetta vera hið nýja skipulag ísmála….í bili amk…..
Góð færsla Emil
Ekki ætla ég að spá fyrir um hafísinn að ári (enn sem komið er), en ég tel þó að metið muni falla innan fárra ára, hvað sem gerist að ári…
Takk fyrir tenglana Halldór – fróðlegt