Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

Fyrir stuttu kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

Staðsetningar veðurstöðva nærri loftræstikerfum húsa og á malbikuðum bílastæðum er af sumum talið geta útskýrt stærstan hluta hnattrænnar hlýnunar. Það eru margar ástæður fyrir því að við vitum að svo er ekki. Við getum til að mynda borið saman hitamælingar frá vel staðsettum og illa staðsettum veðurstöðvum. Mælingar sýna álíka hlýnun í báðum tilvikum [28].

Önnur leið til að sannreyna gögn frá veðurstöðvum er samanburður við mælingar gervihnatta. Hvoru tveggja sýnir sambærilega hlýnun [29]. Þetta staðfestir að athuganir veðurstöðva gefa réttmæta mynd af þróun lofthita á jörðinni.

Fyrir utan sannfærandi gagnaraðir frá veðurstöðvum sýna víðfeðm gögn ýmissa náttúrukerfa, breytingar sem eru í samræmi við hlýnun jarðar. Jökulbreiður bráðna um milljarða tonna á ári [30]. Sjávarstaða hækkar sífellt hraðar [31]. Lífverur flytja sig um set í átt til heimskautasvæða og jöklar hörfa (sem getur ógnað stöðugleika vatnsframboðs milljóna manna) [32,33].

Til að öðlast skilning á loftslagi er mikilvægt að skoða gögnin í heild. Það sem þá kemur í ljós eru margskonar ólíkar athuganir sem allar hníga að sama brunni: Hnattræn hlýnun er raunveruleg.

Parmesan & Yohe 2003 (32) , NOAA (34).

Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir síðar.

Heimildir og ítarefni

28. Menne o.fl. 2010: On the reliability of the U.S. surface temperature record.

29. Karl o.fl. 2006: Temperature Trends in the Lower Atmosphere: Steps for Understanding and Reconciling Differences.

30. Velicogna 2009: Increasing rates of ice mass loss from the Greenland and Antarctic ice sheets revealed by GRACE

31. Church o.fl. 2008: Understanding global sea levels: past, present and future.

32. Parmesan og Yohe 2003: A globally coherent fingerprint of climate change impacts across natural systems.

33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

34. NOAA National Climatic Data Center, State of the Climate: Global Analysis for September 2010.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál